Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Mánudaginn 03. júní 1996, kl. 16:56:46 (7033)

1996-06-03 16:56:46# 120. lþ. 158.9 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, 364. mál: #A póstlög# (Póstur og sími hf.) frv. 107/1996, 408. mál: #A fjarskipti# (meðferð einkaréttar ríkisins) frv. 99/1996, SvG
[prenta uppsett í dálka] 158. fundur

[16:56]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég kvaddi mér hljóðs aftur í tilefni af ræðu hæstv. samgrh. áðan vegna þess að það var svo margt sem þar kom fram sem er eiginlega óhjákvæmilegt að svara eða vekja athygli á í tilefni af stöðu þessa máls. Síðan bætti hæstv. ráðherra um betur í andsvari við hv. þm. Lúðvík Bergvinsson og sagði að stjórn þessa fyrirtækis, Póst- og símamálastofnunarinnar hf., gæti tekið ákvörðun um að stofna og selja hluti ríkisins eða hluti þessarar stofnunar eða fyrirtækis í öðrum fyrirtækjum og sjá allir hvert það mál leiðir. Þar með er auðvitað búið að galopna þetta mál þannig að fyrirvarinn um það að Alþingi þurfi að samþykkja sölu á þessum eina hlut varðandi aðalfyrirtækið sjálft er einskis virði vegna þess að menn geta selt eða afhent þetta fyrirtæki smátt og smátt í bútum inn í önnur fyrirtæki. Það er augljóst mál að það andsvar sem var veitt hv. þm. Lúðvík Bergvinssyni afhjúpar málið algerlega. Það er hægt að smygla öllum Pósti og síma hf. út um bakdyrnar ef mönnum sýnist svo. Það er veruleikinn. Ég held að það sé mjög nauðsynlegt að hæstv. ráðherra skýri það aðeins nánar hvort það er virkilega þannig að hann telji eins og hann sagði áðan að það sé hægt að selja þetta fyrirtæki í pörtum sem hlut í öðrum fyrirtækjum út á einkamarkaðinn án þess að spyrja Alþingi. Það var það sem ég var að segja. Hæstv. ráðherra verður auðvitað að gera betri grein fyrir því vegna þess að þetta rímar ekki við það sem hann hefur áður verið að segja.

Hæstv. ráðherra kaus að hefja umræðu sína um þetta mál og um ræður okkar alþýðubandalagsmanna með persónulegri árás á hv. þm. Ögmund Jónasson fyrir það að hann skyldi svo sem ekki vera mikið að segja um þetta mál af því að hann væri greinilega bara í bandalagi við þann þingmann sem hér stendur og einhverja tvo þingmenn til sem eru greinilega lakari að mati hæstv. ráðherra en allir aðrir þingmenn. Mér finnst satt að segja að hv. 17. þm. Reykv., Ögmundur Jónasson, eigi það ekkert skilið að hæstv. samgrh. reyni að meðhöndla hann í orði með þeim hætti sem hann gerði áðan, gerði augljósa tilraun til að lítillækka þingmanninn með orðum sínum. Ég hef satt að segja ekki heyrt mjög lengi af ráðherra að menn geri jafngreinilega tilraun til þess að gera lítið úr þingmönnum og hæstv. ráðherra gerði áðan í garð hv. 17. þm. Reykv. Ég veit út af fyrir sig að hv. þm. Ögmundur Jónasson stendur algerlega fyrir sínum málum sjálfur og getur svarað fyrir sig en ég vil láta það koma fram að ég tók eftir þessu og ég tel að það sé ósæmilegt með öllu að ráðherrar hagi sér svona í orðum sínum gagnvart einstökum þingmönnum eins og hæstv. samgrh. gerði þegar hann veittist mjög harkalega að hv. þm. Ögmundi Jónassyni.

[17:00]

Ég vísa algerlega á bug þessu tali hjá hæstv. ráðherra, það er það, sagði ráðherrann. Það er von að þetta komi frá þessum ríkisafskiptaflokkum. Hvað á það að þýða að vera að reyna að afgreiða hlutina með einhverjum þessum hætti? Ég ætla ekki að svara fyrir aðra flokka í stórum stíl hér, ég ætla að reyna að svara fyrir Alþb. og segi það að Alþb. er ekki ríkisafskiptaflokkur. Alþb. er flokkur sem í sínum stefnuskrám hefur margoft lýst því yfir að flokkurinn taki afstöðu til eignarhalds á fyrirtækjum eftir þeim þjónustumarkmiðum sem hvert fyrirtæki á að setja sér og vinna að á hverjum tíma. Það er því fjarstæða að halda því fram að okkar flokkur hafi sett hlutina þannig upp að við tökum ríkisrekstur ævinlega fram yfir einkarekstur. Við metum málin út frá þeirri þjónustu sem á að veita. Það er aðalatriðið.

Hins vegar vil ég segja um Sjálfstfl. og hæstv. ráðherra að þar er einkarekstur aðalatriðið og skítt með það hvernig þjónustan kemur út gagnvart einstökum aðilum, einstaklingunum í þjóðfélaginu. Einkareksturinn, hlutafélagsformið, er keppikefli, sjálfstætt keppikefli burt séð frá öllu öðru. Gallinn við Sjálfstfl. er að hann nálgast málin frá þessu þrönga sjónarhorni og það er auðvitað hörmulegt að sjá hæstv. ráðherra lenda í þessum hópi vegna þess að ég veit að hann er ekki upphafsmaður að því, hann er ekki sú tegund ef ég leyfi mér að orða það svo, hæstv. forseti. Þar virðast aðrir ráða ferðinni og þegar hæstv. ráðherra var að vitna í mig áðan var það ekki tilvitnun í mig heldur Hrein Loftsson sem ég nefni hér vegna þess að ég óttast að hann sé hugmyndafræðingurinn á bak við þessa súpu alla saman. Ráðherrann er því að þessu nuddi meira og minna fyrir misskilning, þetta er tóm vitleysa, þetta hefur ekkert upp á sig, skilar engu fyrir þjóðina, verra fyrir Póst og síma, verra fyrir tæknilega framtíð Íslendinga og hefur ekki á neinn hátt verið sannað að þetta sé til bóta. En úti í bæ eru menn sem bíða eftir því hver á að verða þingmaður ársins að mati Heimdallar. Náttúrlega verður tekin um það ákvörðun bráðum, kannski að hæstv. ráðherra verði þingmaður ársins næst að mati Heimdallar. Ég votta honum samúð mína fyrir fram ef það skyldi henda hann, þennan ágæta ráðherra.

Hæstv. ráðherra sagði líka að æ fleiri starfsmenn stæðu með þeim í þessu máli. Hann fullyrti að mjög margir starfsmenn vildu fá bréf keypt í þessu fyrirtæki og vitnaði þar til fundar og áður vitnaði hann til blaðagreinar. Ég verð að segja alveg eins og er að þetta minnti mig á orðatiltækið að deila og drottna. Hæstv. ráðherra hefur valdið og hann notar sér það síðan að einstakir starfsmenn setja hlutina þannig upp að þeir eru jafnvel tilbúnir til þess að eignast hlut í þessu félagi eða hvað það nú er. Þá er það notað sem málflutningsástæða og rök úr þessum virðulega ræðustól sem er algerlega fráleitt miðað við stöðu málsins. Og starfsmenn Pósts og síma fengu kveðjuna frá hæstv. samgrh. áðan. Það var ekki verið að vanda þeim kveðjurnar, þessu fólki, sem leyfði sér allra náðarsamlegast að skrifa grein af því að það er prentfrelsi í landinu og Morgunblaðið birtir eina og eina grein. Meðal annars sl. laugardag er birt grein eftir forustumenn símamanna og póstmanna og þar segir fullum fetum: Það liggur ekkert samkomulag fyrir. Það hefur ekkert samkomulag verið gert við okkur. Það hefur verið gert við einhverja aðra ef eitthvert samkomulag er til. Og hvað segir þá hæstv. ráðherra? Hæstv. ráðherra segir: Ég skil það þá svo að þeir telji samvinnuna einskis virði. En ég hef fundið mikinn vilja til samvinnu hjá öðrum. Er hann að segja að hann hafi verið í sérstökum viðræðum við aðra starfsmenn Pósts og síma? Er það þannig að hann sé að reyna að skipuleggja viðræður við aðra starfsmenn Pósts og síma fram hjá forustumönnum stéttarfélaganna? Ég er ekki að segja að það sé honum óheimilt. Ráðherrann ræður því auðvitað. En kannski ætlar ráðherrann sér að vinna þannig, kannski birtist samráðið með þeim hætti að hann hafi bara samvinnu við þá forustumenn stéttarfélaganna sem honum líkar við. Það er bersýnilegt að ráðherrann kann ekki að meta formann Símamannafélagsins og formann Póstmannafélagsins og þess vegna kýs ráðherrann að hafa samvinnu við einhverja aðra. Er það það sem hann er að segja? Er það þetta sem hann er að boða í samskiptum sínum við starfsmenn Pósts og síma hf. í framtíðinni? Er hann að boða að hann ætli ekki að tala við þessa kjörnu trúnaðarmenn heldur einhverja aðra af því að honum líkar betur við þá? Af því að þeir segja á einhverjum fundum að þá langi til að eignast eitt og eitt hlutabréf hefur hann þá frekar samvinnu við þá en þessa varasömu forustumenn félaganna?

Það hlýtur að vera býsna óhugnanleg tilhugsun fyrir forustumenn þessara stéttarfélaga ef það er þannig að ráðherrann sem þessir aðilar eiga að eiga samskipti við setur málin upp með þessum hætti, ætlar að deila og drottna og bara tala við þá sem honum líkar við.

Hæstv. ráðherra vitnaði síðan til þess, hæstv. forseti, að það væri ekki hægt að gera bindandi samninga við starfsmennina núna sem hefðu gildi gagnvart nýjum eiganda fyrirtækisins, þ.e. stjórn og hluthafa þegar þar að kemur. Ég vísa þessu sjónarmiði algerlega á bug. Til þess eru lögin um aðilaskipti að samningum, m.a. kjarasamningum, að sá aðili sem t.d. kaupir fyrirtæki yfirtekur allar skuldbindingar þess af hvaða tagi sem er. Þess vegna er það auðvitað þannig, hæstv. forseti, að stjórnin og samgrn. við þær aðstæður sem nú er uppi getur gert samninga við starfsmennina í dag og hinn nýi aðili, ef að lögum verður, hlýtur að yfirtaka þá samninga. Ég vil þess vegna endurtaka það, hæstv. forseti, og spyrja hæstv. ráðherra að því hvort hann muni ekki hefja viðræður núna strax við þessa starfsmenn og reyna að ná við þá samningum áður en þetta frv. verður gert að lögum. Sumarið er langt, eins og kom fram hjá hæstv. heilbrrh. sem ætlar að halda áfram fundum í allt heila sumar.

Ég endurtek þessa spurningu til hæstv. ráðherra og fullyrði það við hann að með hliðsjón af þeirri reynslu sem fengin er af framkvæmd laganna um aðilaskipti er hægt fyrir ráðherrann og fjmrh. í þessu tilviki að ganga frá samningum við starfsmennina um einstök atriði. Það er hægt og hið nýja fyrirtæki mun yfirtaka þá samninga í einstökum atriðum. Það er alveg á hreinu. Það þýðir ekkert að skjóta sér á bak við að það sé ekki hægt. Það er ekki þannig. Ég held þess vegna að það væri langeðlilegast eins og hér hefur komið fram að fresta þessu máli til haustsins og hefja viðræður við starfsmennina. Það væri langeðlilegast, en það væri líka hægt að gera það núna örugglega á ekki löngum tíma ef menn settust yfir það af einhverjum heilindum.

Ég tók eftir því að hæstv. ráðherra sagði að erlend fjölþjóðafyrirtæki hefðu hafnað viðskiptum við Póst og síma vegna rekstrarforms Íslendinga á Pósti og síma. Mér þætti vænt um ef hann vildi útskýra aðeins nánar á eftir hvað hann á við með því að erlend fjölþjóðafyrirtæki hafi hafnað því að gera samninga við Póst og síma af því að Póstur og sími er ríkisfyrirtæki. Hvaða fyrirtæki eru þetta, hæstv. ráðherra? Og hvaða viðskipti eru þetta? Það kann vel að vera að eitthvað sé til í þessu. Ég dreg það ekkert í efa og mér finnst það fróðlegt. Ég mundi vilja vita þetta, þetta eru mikilvæg rök í málinu. Ég sperrti eyrun þegar ég heyrði hæstv. ráðherra segja þetta.

Ég hef sem sagt leyft mér, herra forseti, að leggja fyrir ráðherrann í þessari örstuttu ræðu nokkrar spurningar í viðbót. Ég vænti þess að hann treysti sér til að svara þeim ef það mætti verða til þess að greiða fyrir málinu að öðru leyti þó það væri ekki nema við 3. umr. þegar hún fer fram.