Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Mánudaginn 03. júní 1996, kl. 17:18:53 (7036)

1996-06-03 17:18:53# 120. lþ. 158.9 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, 364. mál: #A póstlög# (Póstur og sími hf.) frv. 107/1996, 408. mál: #A fjarskipti# (meðferð einkaréttar ríkisins) frv. 99/1996, SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 158. fundur

[17:18]

Svavar Gestsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hlýt fyrst að endurtaka þessa spurningu sem var borin fram áðan án þess að henni væri svarað. Hvaða fjölþjóðafyrirtæki eru það sem hafa neitað samvinnu við Póst og síma á þeim grundvelli að þar væri um ríkisfyrirtæki að ræða? Ég held að það sé alveg óhjákvæmilegt að fá um þetta nánari upplýsingar. Ef þetta eru trúnaðarmál sem hér eru á ferðinni, þá er út af fyrir sig hægt að ætlast til þess að því verði þá bara svarað með almennum orðum eða lýsingum. En ég held að það sé nauðsynlegt að fá upplýsingar um það hvaða viðskiptasvið þetta sé líka þannig að það liggi fyrir. Ég endurtek þessa spurningu hv. þm. Ögmundar Jónassonar um þetta atriði.

Í öðru lagi verð ég að segja að ráðherra skuldaði mér kannski og okkur hér upplýsingar um það af hverju ekki sé farið í það að gera bindandi samninga við starfsmenn Pósts og síma við þessa breytingu sem ætlast yrði til að hið nýja fyrirtæki yfirtæki samkvæmt lögunum um aðilaskipti. Þetta er alsiða og algengt að það sé nákvæmlega staðið svona að málum og mér finnst það nauðsynlegt að hæstv. ráðherra geti svarað þessari spurningu. Af hverju er ekki farið í að gera bindandi samning af þessu tagi?

Í þriðja lagi verð ég að segja að mér finnst að það standi enn þá, þrátt fyrir svar hæstv. ráðherra hér áðan, sem hv. þm. Lúðvík Bergvinsson spurði um; að selja hlut hins nýja fyrirtækis í nýjum fyrirtækjum sem það stofnar. Það virðist vera þannig að það sé heimilt fyrir fyrirtækið eftir því sem hér er sagt að selja hlut í nýjum fyrirtækjum sem það kann að stofna á hverjum tíma. Það er að vísu óheimilt að leggja niður eða selja einstaka þætti í starfsemi Pósts og síma, en það er ekki það sem við erum að spyrja um fyrst og fremst, heldur það hvernig menn fara með eignir þessa nýja fyrirtækis, raunverulegar eignir sem verða á bak við þetta eina hlutabréf.