Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Mánudaginn 03. júní 1996, kl. 17:21:49 (7038)

1996-06-03 17:21:49# 120. lþ. 158.9 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, 364. mál: #A póstlög# (Póstur og sími hf.) frv. 107/1996, 408. mál: #A fjarskipti# (meðferð einkaréttar ríkisins) frv. 99/1996, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 158. fundur

[17:21]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. er lögfræðingur og ég ætla að lesa 2. mgr. og spyrja hann svo hvað hún þýði til þess að fram komi hvort hann hafi réttan skilning:

,,Heimilt er hlutafélaginu að stofna nýtt félag eða félög, sem alfarið verði í eigu þess, til þess að annast ákveðna þætti í starfsemi þess. Í sama tilgangi getur hlutafélagið ákveðið skiptingu þess í samræmi við ákvæði 133. gr. hlutafélagalaga, nr. 2/1995.``

Hér stendur og ég vil taka þessi orð út úr: ,,... sem alfarið verða í eigu þess, ...``

Þessi orð eru alveg afdráttarlaus og þýða það að lögum samkvæmt eigi þessi nýju félög að vera alfarið í eigu hlutafélagsins sem er alfarið í eigu ríkissjóðs og það hlýtur þá að þýða það að óheimilt er að selja slík félög án atbeina Alþingis. Þetta eru alveg skýr lagaákvæði og óþarfi að vera að margspyrja um þetta.