Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Mánudaginn 03. júní 1996, kl. 17:23:46 (7041)

1996-06-03 17:23:46# 120. lþ. 158.9 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, 364. mál: #A póstlög# (Póstur og sími hf.) frv. 107/1996, 408. mál: #A fjarskipti# (meðferð einkaréttar ríkisins) frv. 99/1996, KH
[prenta uppsett í dálka] 158. fundur

[17:23]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég hef þegar tjáð mig nokkuð um þetta mál, enda stórmál. Ég ræddi það í 1. umr. Ég reyndi eftir megni að fylgjast með umfjöllun í nefndinni þar sem ég er áheyrnaraðili og ég ræddi það við 2. umr. Ég get tekið undir það að vissu marki sem hæstv. samgrh. hefur haldið fram að þetta mál hafi fengið rækilegan undirbúning, þó með þeim fyrirvara að sennilega skiljum við það orð svolítið ólíkt.

Ég sagði einmitt held ég, við 1. umr., að það kom mér í rauninni á óvart þegar ég sá þetta þingmál, hversu illa það var úr garði gert miðað við allan aðdraganda málsins því að það er rétt sem hæstv. samgrh. taldi upp að mjög mikilla gagna hefur verið aflað um hvernig staðið hefur verið að formbreytingum slíkra fyrirtækja erlendis. Ég naut þeirrar ánægju að fara til Noregs og Danmerkur og kynnast af eigin raun eða ræða a.m.k. við ýmsa forsvarsmenn og kunnáttumenn um það hvernig þessi formbreyting gekk fyrir sig í nágrannalöndum okkar og það höfðu fleiri gert. Það skortir ekkert á að ýmsar upplýsingar séu til. En samt sem áður skortir verulega á rökstuðning fyrir þeim breytingum sem er verið að gera á þessu fyrirtæki og málið var alls ekki nægilega vel unnið eins og sést auðvitað á öllum þeim breytingartillögum sem gerðar hafa verið við frv. eftir umfjöllun í nefnd. Ég ætla ekki að flytja langa ræðu, enda tel ég að ég hafi komið sjónarmiðum mínum og skoðunum um málið á framfæri í ræðu minni um daginn, en ég get endurtekið það í örstuttu máli að mér finnst málið ekki hafa verið undirbúið nægilega vel. Það skortir nokkuð á sannfærandi rökstuðning fyrir því að það þurfi yfirleitt að gera breytingar á rekstri þessa fyrirtækis. Það er ekki nægilega skýrt eða rökstutt að einmitt þessi formbreyting skuli valin, þ.e. að þetta fyrirtæki verði gert að hlutafélagi. Ef þessi leið verður valin sem mér sýnist ætla að verða ofan á, þá þarf miklu meiri athugunar við hver þáttur ráðherra er í stjórnun þessa fyrirtækis og það vantar líka á að það sé gengið frá aðskilnaði hinna tveggja þjónustuþátta í rekstri Pósts og síma. Og svo að lokum er auðvitað þetta atriði sem mikið hefur verið rætt, þ.e. hvaða áhrif þessi formbreyting muni hafa á þá þrjá aðila, skulum við segja, sem málið varðar fyrst og fremst, þ.e. neytendur, ríkissjóð og starfsfólk fyrirtækisins. Það er kannski ekki ekki síst þetta síðasttalda sem hefur verið mikið til umræðu hérna einmitt vegna þess að það er svo óljóst hvað bíður alls þessa fólks sem nú vinnur hjá Pósti og síma og það er alls ekki frágengið eða ljóst. Mikill tími fór í að ræða þetta í hv. samgn. og ég vil gjarnan að það komi fram í máli mínu núna sem ég held að ég hafi gleymt í ræðunni sem ég flutti fyrr við 2. umr. að ég tel að meiri hluti hv. samgn. og ekki síst hv. formaður hafi reynt að koma til móts við þau sjónarmið sem sannarlega komu fram í starfi nefndarinnar, komu fram hjá þeim öllum starfsmannafélögunum sem sendu fulltrúa sína á okkar fund og komu fram í þeim umsögnum sem þessi starfsmannafélög sendu til nefndarinnar.

[17:30]

Eitt af því sem meiri hlutinn vann með og kemur fram í breytingartillögum meiri hlutans var að leggja til undirbúningsnefnd og raunar treysta þá aðgerð sem lögð er til í 7. gr. Það stendur reyndar í frv. sjálfu að samgrh. skipi nefnd til þess að annast nauðsynlegar aðgerðir vegna breytingarinnar og til þess að hafa yfirumsjón með framkvæmdinni. Fulltrúar starfsfólks tjáðu okkur á fundum nefndarinnar að þau fyndu til mikils óöryggis. Þau fyndu ekki þann farveg sem mál þeirra ættu að fara eftir. Þau mættu lokuðum dyrum þegar þau vildu reyna að fá svör um það hvað biði þeirra við breytingarnar á rekstri Pósts og síma og þau tjáðu okkur ugg sinn og áhyggjur yfir því að þau fengju ekki neinar upplýsingar eða fyndu ekki þann viðræðuaðila sem þau skorti til þess að geta fengið einhverja úrlausn áhyggjuefna sinna. Ég hygg að það hafi einmitt verið þessi gagnrýni og þessar áhyggjur sem meiri hluti nefndarinnar var að bregðast við með því að leggja fram þá breytingartillögu sem gefur þessari nefnd fyllra vægi. Þó að það segi ekki beinlínis í nefndaráliti meiri hluta samgn. tel ég mig hafa sönnur fyrir því að það sé einmitt það sem verið er að gera með því að fylla upp í þessa mynd um nefndina sem lögð er til í 7. gr. að hún eigi að vera sá aðili sem starfsfólk getur m.a. rætt við og samið við um málefni sín, réttindi og frambúðarkjör eða a.m.k. til að byrja með. Þessi nefnd á að taka til starfa samkvæmt tillögum meiri hlutans þegar 1. júlí nk. og henni er ætlað að vinna þetta verk á þremur mánuðum. Við í minni hlutanum lýstum yfir mjög miklum áhyggjum með það að þessi nefnd fengi aðeins þrjá mánuði til þess að vinna þetta stóra og mikilvæga verkefni og á þeim tíma sem eru mjög erfiðir vegna þess að þetta er einn aðalsumarleyfistími þorra landsmanna. En ég verð að segja að mér varð töluvert rórra og það held ég að gildi um mjög marga og m.a. starfsfólk þegar þessi tillaga kom fram og það var upplýst í nefndinni að þessi nefnd, sem er fjallað um í 7. gr. og er breytingartillaga um á þskj. 961, þ.e. 3. tölul., þar sem fyllt er nánar upp í þessa mynd, að þetta sé sá aðili sem núverandi starfsfólk Pósts og síma getur rætt við og samið við um réttindi sín.

Mér fannst í máli hæstv. ráðherra áðan þegar hann svaraði hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur sem hann væri ekki á þessu máli og það vakti mjög miklar áhyggjur. Ég veit ekki hvort hæstv. ráðherra hefur verið að rugla saman nefndum, hann hafi talið að þarna væri um að ræða þá nefnd sem gerð er tillaga um í 5. gr. frv. og á að endurmeta eignir stofnunarinnar, skuldbindingar, viðskiptavild o.s.frv. en af þessu tilefni finnst mér alveg nauðsynlegt að það komi fram hvort þetta er ekki réttur skilningur sem ég hef verið að lýsa núna að það komi fram annaðhvort frá hæstv. samgrh. eða frá hv. formanni samgn. hvort það er ekki réttur skilningur hjá mér að þessi nefnd í 7. gr. eigi að vera sá viðræðuaðili sem starfsfólk ræðir við um réttindi sín.