Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Mánudaginn 03. júní 1996, kl. 17:35:56 (7042)

1996-06-03 17:35:56# 120. lþ. 158.9 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, 364. mál: #A póstlög# (Póstur og sími hf.) frv. 107/1996, 408. mál: #A fjarskipti# (meðferð einkaréttar ríkisins) frv. 99/1996, Frsm. meiri hluta EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 158. fundur

[17:35]

Frsm. meiri hluta samgn. (Einar K. Guðfinnsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Út af þessu síðasta atriði sem hv. þm. Kristín Halldórsdóttir vék að þá er það þannig eins og kom fram í hennar máli að fulltrúar starfsfólks kvörtuðu nokkuð undan því í viðræðum við samgn. að það vantaði til þess bæran aðila sem hefði fullkomið umboð og vald til þess að takast á hendur samninga m.a. við starfsfólk. Þess vegna varð það niðurstaða meiri hluta samgn. að setja á laggirnar nefnd sem mætti taka til starfa eigi síðar en 1. júlí sem getur tekist það á hendur að semja um skuldbindandi samninga sem eru nauðsynlegar til undirbúnings að stofnun félagsins og fyrirhugaðri starfsrækslu. Hér má segja að við séum að tala um það sem ég hef stundum kallað ígildi stjórnar félagsins en þó þannig að þessi undirbúningsnefnd er með dálítið sterkari heimildir en stjórn. Hún hefur ekki heimildir til hvers konar skuldbindinga heldur eingöngu til skuldbindinga fyrir hönd félagsins sem eru nauðsynlegir til undirbúnings að stofnun þess og vegna fyrirhugaðrar starfrækslu. Þetta var beinlínis gert til þess að koma til móts við þá gagnrýni sem fram kom fram varðandi það að það skorti umboð hjá þeim aðilum sem væru að ræða við starfsfólkið.

Ég tek fram að ég tel eðlilegt að standa að þessu þannig því það er auðvitað óeðlilegt að aðilar séu í dag að takast á hendur skuldbindingar fyrir félag sem er ekki búið að stofna og sem ekki er einu sinni búið að samþykkja lögin að stofnun þess félags eins og ég rakti í ræðu minni fyrr í dag.