Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Mánudaginn 03. júní 1996, kl. 18:00:33 (7046)

1996-06-03 18:00:33# 120. lþ. 158.9 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, 364. mál: #A póstlög# (Póstur og sími hf.) frv. 107/1996, 408. mál: #A fjarskipti# (meðferð einkaréttar ríkisins) frv. 99/1996, Frsm. minni hluta GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 158. fundur

[18:00]

Frsm. minni hluta samgn. (Guðmundur Árni Stefánsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við mjökumst nær kjarna málsins og ég þakka hæstv. ráðherra þessi svör hans. Nú liggur það með öðrum orðum ljóst fyrir að í samrunafyrirtækjum eru stjórnir og fulltrúar ríkisvaldsins í stjórnum þeirra og þær geta haft uppi eignaumsýslu, kaup á nýjum hlutum og sölu þeirra eins og þeim hentar og telja skynsamlegt. Það þarf því ekki atbeina Alþingis komi til sölu eða eignaumsýslu á fyrirtækjum sem verða til vegna samruna einstakra rekstrarþátta Pósts og síma og einhvers þriðja aðila.

Nú liggur það fyrir og loksins kom að því m.a. eins og í Cantat 3 þannig að hér erum við farin að ræða málin eins og þau koma fyrir af skepnunni. Ég ætla út af fyrir sig ekki að elta ólar frekar við þessi atriði hvað varðar hæfi undirbúningsnefndar. Hæstv. ráðherra mismælti sig í ræðu áður og nú er hann búinn að lagfæra það og farinn að lesa frv. eins og það er skrifað og þær breytingartillögur sem því fylgja. Mér hefur alla tíð verið ljóst að eitt aðalhlutverk undirbúningsnefndarinnar er að fjalla um málefni starfsmanna þannig að það eru engar fréttir fyrir mig. En hæstv. ráðherra missti það hins vegar út úr sér, mismælti sig þá væntanlega og túlkaði það með öðrum hætti.

Að lokum er eitt lykilatriði, virðulegi forseti, sem lítið hefur verið rætt á lokahnykk umræðunnar og það lýtur að þeirri tillögu sem fram er komin bæði hjá meiri hluta og minni hluta samgn. um eitt gjaldsvæði fyrir landið. 1. júlí 1998 á það að gerast samkvæmt tillögu meiri hluta samgn. Spurning mín er einfaldlega þessi: Er hæstv. ráðherra sannfærður um það að sú breyting sem verði 1. jan. 1998 hvað varðar samkeppni á þessum vettvangi heimili að slíkur áskilnaður sé til staðar hjá Pósti og síma hf. og hugsanlega þá öðrum þeim sem fara í samkeppni við það fyrirtæki?