Flugmálaáætlun 1996--1999

Mánudaginn 03. júní 1996, kl. 18:07:37 (7050)

1996-06-03 18:07:37# 120. lþ. 158.13 fundur 365. mál: #A flugmálaáætlun 1996--1999# þál. 13/1996, Frsm. EKG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 158. fundur

[18:07]

Frsm. samgn. (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um till. til þál. um flugmálaáætlun fyrir árin 1996--1999 á þskj. 1080 ásamt breytingartillögu við sömu flugmálaáætlun frá samgn. á þskj. 1081. Undirbúningur að málinu fór fram með hefðbundnum hætti. Við fengum á fund nefndarinnar fulltrúa Flugmálastjórnar og samgrn. Einnig komu til fundar við nefndina Stefán Hermannsson, borgarverkfræðingur, Þorvaldur S. Þorvaldsson og Bjarni Reynarsson frá skrifstofu Reykjavíkurborgar, Helgi Ágústsson ráðuneytisstjóri og Þórður Ingvi Guðmundsson frá utanrrn. Enn fremur fékk nefndin til umsagnar athugasemdir frá ýmsum aðilum og samtökum ráðuneyta.

Í flugmálaáætluninni, sem tekur til áranna 1996--1999, er langstærsta framkvæmdin uppbygging á Reykjavíkurflugvelli. Eins og sjá má í brtt. hv. samgn. og raunar í tillögugreininni sjálfri í upphafi er gert ráð fyrir því að á næstu þremur árum, þ.e. á árunum 1997--1999 og að meðtöldu árinu 1996, verði varið til framkvæmda á Reykjavíkurflugvelli 476 millj. kr. Jafnframt er gert ráð fyrir því að varið verði til rannsókna- og þróunarverkefna 10 millj. á ári frá og með næsta ári í þrjú ár. Í áætluninni er gert ráð fyrir því að byrjað verði á framkvæmdum við Reykjavíkurflugvöll þegar á árinu 1997, á næsta ári, að höfðu samráði við borgaryfirvöld en viðræður milli Flugmálastjórnar, samgrn. og skipulagsyfirvalda Reykjavíkurborgar hafa staðið yfir um málið.

Það er ljóst að hér er um mjög kostnaðarsama framkvæmd að ræða. Hins vegar þarf að vinna verkið á skömmum tíma, á þremur árum að ég hygg, en frumáætlanir gera ráð fyrir því að kostnaðurinn sé á bilinu 1--1,4 milljarðar kr. Það er rétt að greina frá því að það kom fram í máli fulltrúa Reykjavíkurborgar að þeir töldu að áform um að byggja upp Reykjavíkurflugvöll og innsigla það að hann væri þar með búinn að festa sig í sessi sem áframhaldandi miðstöð innanlandsflugs á Íslandi, væru í samræmi við hugmyndir fulltrúa Reykjavíkurborgar um skipulag svæðisins. Þetta er rétt að komi fram í tilefni af þeim umræðum sem hafa stundum farið fram um framtíð Reykjavíkurflugvallar sem miðstöðvar innanlandsflugsins.

Ef ég vík sérstaklega að þeim breytingartillögum sem settar eru fram í nefndaráliti samgn. þá er gert ráð fyrir því að markaðar tekjur af flugvallagjaldi hækki um 15 millj. kr. á ári á árunum 1997--1999. Það þykir óhætt að gera ráð fyrir slíkri hækkun þegar tekið er tillit til þeirrar aukningar á umferð sem er að verða í fluginu og m.a. kom fram á síðasta ári og hefur haldið áfram á þessu ári. Þetta hefur það í för með sér að tekjurnar á flugvallagjaldi þessi þrjú ár munu nema 442 millj. kr. á ári í staðinn fyrir 427 og gert er ráð fyrir því að þessi tekjuaukning muni að langmestu leyti fara í það að standa undir verkefnum á Ísafjarðarflugvelli og Þingeyrarflugvelli.

Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir því að á árinu 1997 verði veitt 15 millj. kr. til endurbóta á flugstöðinni á Ísafirði. Sú flugstöð er þegar orðin of lítil og ekki síst í ljósi þess að þar hefur umferð aukist mikið með tilkomu reglubundins áætlunarflugs Íslandsflugs í gegnum Bíldudal.

Í öðru lagi hafa staðið yfir í mörg ár athuganir á framtíðarflugvallarstæði í Dýrafirði. Niðurstaðan er ekki fengin formlega enn þá. Það er ljóst að veita verður fé til flugvallar í Dýrafirði á næstunni enda er núverandi flugvöllur sá eini sem Fokker-50 flugvélar nota sem er malarflugvöllur. Þess vegna er lögð til sú breyting að á árunum 1998 og 1999 verði 15 millj. kr. sérstaklega varið hvert ár til framtíðaruppbyggingar í flugvallarmálum í Dýrafirði þó að ekki sé tekin nákvæmlega afstaða til þess hvort um er að ræða endurbyggingu á Þingeyrarflugvelli sem nú er eða hvort farið verður í aðrar framkvæmdir.

Í þriðja lagi er rétt að nefna að á þessu ári er gert ráð fyrir því að veita 3 millj. kr. og taka það af óskiptu fé til þess að ljúka flugstöðvarbyggingu við nýju flugbrautina á Þórshöfn en byggingin er núna fokheld og lögð mikil áhersla á það af heimamönnum að ljúka byggingunni og kom m.a. sérstakt erindi frá Þórshafnarhreppi þar að lútandi.

Loks er lagt til að gerðar verði nokkrar breytingar frá tillögugreininni á flokkun flugvalla sem gerð er betri grein fyrir í nefndaráliti samgn.

Undir nefndarálitið rita hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, Magnús Stefánsson, Kristján Pálsson, Stefán Guðmundsson, Egill Jónsson, Árni Johnsen, Guðmundur Árni Stefánsson, með fyrirvara, Ragnar Arnalds, með fyrirvara, Ásta R. Jóhannesdóttir, með fyrirvara.