Lögreglulög

Mánudaginn 03. júní 1996, kl. 18:15:40 (7052)

1996-06-03 18:15:40# 120. lþ. 158.14 fundur 451. mál: #A lögreglulög# (heildarlög) frv. 90/1996, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 158. fundur

[18:15]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Nafn mitt er undir nál. allshn. þar sem fjallað er um frv. en þó er þar fyrirvari og ætla ég að gera grein fyrir þeim fyrirvara. Ég fagna því að hæstv. dómsmrh. skuli vera hér og tel mjög mikilvægt að heyra álit hans á tilteknum atriðum sem ég hyggst vekja máls á. Ég vil í upphafi þakka fyrir gott starf í allshn. Það var unnið mjög vel að frv. undir góðri verkstjórn formanns nefndarinnar, hv. þm. Sólveigar Pétursdóttur, og þegar á heildina er litið tel ég að hér sé á ýmsa lund verið að stíga framfaraspor með þessum lögum. Hins vegar standa eftir nokkur atriði sem varða starfs- og stéttarréttindi lögreglu og þau eru sum hver þess eðlis að mér finnst mikilvægt að fá álit hæstv. dómsmrh. á því hvernig hann hyggst standa að framkvæmd laganna.

Fyrsta atriðið sem ég vek athygli á snertir starfsréttindi lögreglumanna en þau fengust með lögum nr. 64/1989. Þar voru starfsréttindi bundin við próf frá Lögregluskóla ríkisins og heimildir til ráðningar afleysingamanna voru mjög takmarkaðar og skilyrtar því að menn hefðu próf úr skólanum. Þetta var gert til að fyrirbyggja framkvæmd sem lengi hafði tíðkast að starfsmenn væru ráðnir til lögreglustarfa án þess að þeir hefðu undirbúning og menntun til að sinna slíkum störfum.

Í fyrrgreindri lagagrein segir m.a. orðrétt, með leyfi forseta, og er nú vitnað í lögin frá 1989: ,,Engan má ráða eða skipa lögreglumann eftir 1. júlí 1990 án þess að hann hafi lokið námi í Lögregluskóla ríkisins. Heimilt er að lausráða nema til reynslu til lögreglustarfa meðan á námi þeirra stendur í Lögregluskóla ríkisins. Reynsluráðning skal aldrei standa lengur en tvö ár. Heimilt er að ráða til lögreglustarfa menn án prófs frá Lögregluskóla ríkisins til afleysinga í sumarleyfum á tímabilinu 15. maí til 30. september ár hvert.``

Landssamband lögreglumanna hefur þurft mörgum sinnum að leita allra tiltækra leiða til að ganga eftir að lögunum sé framfylgt en það hefur verið svo að dómsmrn. og embættismönnum þar hefur verið mjög uppsigað við lögin og það er ekki að ástæðulausu að ég tek svo til orða vegna þess að viðbrögð ráðuneytisins og embættismanna ráðuneytisins koma m.a. fram í bréfi dómsmrn. til umboðsmanns Alþingis, dagsett 18. mars 1992, en bréfið er undirritað af Þorsteini Geirssyni ráðuneytisstjóra og Hjalta Zophaníassyni, skrifstofustjóra í dómsmrn. Í bréfinu segir m.a., með leyfi forseta: ,,Ráðuneytið telur nauðsynlegt að gera nokkra grein fyrir tildrögum lagasetningar nr. 64/1989. Þar er um að ræða þingmannafrumvarp en ekki stjórnarfrumvarp sem er óvenjulegt í þessu sambandi. Frumvarpið var flutt að ósk lögreglumanna og samið á þeirra vegum.``

Þetta finnst mér mjög merkileg tilvitnun í bréf frá ráðuneyti um lagasetningu á Alþingi. Mér finnst þetta mjög merkileg tilvitnun þar sem ráðuneytið gerir greinarmun annars vegar á stjfrv. og hins vegar þingmannafrumvarpi. Þingmannafrumvarp er ekki eins merkilegt og stjfrv. og ber ekki að taka lög eins alvarlega sem eiga sér slíka sögu. Mér finnst þetta vera umhugsunarefni.

Í fyrirliggjandi frv. til laga um lögreglumenn er þetta ákvæði laganna frá 1989 fellt út en í staðinn kemur eftirfarandi ákvæði, 28. gr., 4. mgr., með leyfi forseta: ,,Dómsmálaráðherra getur heimilað lögreglustjóra að ráða mann tímabundið til lögreglustarfa vegna orlofstöku, veikinda- eða slysaforfalla eða tímabundinna leyfa lögreglumanna þó að hann hafi ekki lokið námi frá Lögregluskóla ríkisins enda fullnægi hann skilyrðum 2. mgr. 39. gr. laganna, staðan hafi verið auglýst með venjulegum hætti og enginn með próf frá Lögregluskóla ríkisins sótt um hana.``

Menn ræddu það talsvert í nefndinni hvort æskilegt væri að gera þessar lagabreytingar og ég var því mjög andvígur og minnugur þess að ráðuneytið og embættismenn í ráðuneytinu hafa róið að því öllum árum að rýmka lagagreinina eða túlkun hennar þannig að unnt verði að ráða afleysingamenn án þess að þeir hefðu hlotið tilskilda þjálfun og menntun til þess að gegna lögreglustörfum. Það hefur verið viðhorf fulltrúa ráðuneytisins að með þessum lið sé afnumin meginregla 1. gr. laganna um lögreglumenn frá 1989. Þetta er staðfest í bréfi sem Sigurður T. Magnússon, skrifstofustjóri í dómsmrn. ritaði. Það er dagsett 27. febr. 1996 til nokkurra sýslumanna en þar segir m.a., með leyfi forseta: ,,Til að draga úr líkum á að slíkt ófremdarástand geti skapast hefur verið lagt til í frumvarpi til lögreglulaga að heimildin til að ráða menn, sem ekki hafa lokið prófi frá Lögregluskóla ríkisins, tímabundið til lögreglustarfa verði rýmkuð.`` Það er takmarkið sem menn eru að stefna að. En tilefni þessa bréfs var það að Landssamband lögreglumanna hafði bent ráðuneytinu á að það gæti búist við því að farið yrði fram á lögbann við vinnu aðila sem uppfylltu ekki hæfnisskilyrði laga um lögreglumenn. Eins og ég gat um áðan voru lögin frá 1989 talin nauðsynleg ráðstöfun til að tryggja að þeir sem væru ráðnir til að gegna viðkvæmum og erfiðum störfum lögreglumanna hefðu tilskilda reynslu og kunnáttu til slíkra verka.

Í umræðum um þessi mál var á það bent að með þeim kerfisbreytingum sem verið væri að koma á með þessum nýju lögum, þar á meðal með stofnun embættis ríkislögreglustjóra skapaðist grundvöllur til þess að sinna afleysingum með því að flytja menn á milli ef þyrfti að hlaupa í skarðið um stundarsakir. Við skulum ekki gleyma því að á landsbyggðinni og í fámennum sveitarfélögum þar sem þetta hefur einkum tíðkast hvílir ekki síður ábyrgð á þeim sem gegna lögreglustarfi en annars staðar og ef til vill fremur. Ef til vill er ábyrgðin meiri þar vegna þess að þar eru færri um að axla hana. Ýmsir hafa haft um þetta mjög afgerandi orð og samtök lögreglumanna hafa lagst mjög eindregið gegn því að þessi ákvæði væru rýmkuð og sagt að hreinlega væri hætta á því að ráðnir yrðu fúskarar til starfa. Ég vildi beina þeirri spurningu til hæstv. dómsmrh. hvort hann muni þrátt fyrir þessar breytingu sem gerð verður væntanlega á lögunum beita sér fyrir því að fá vana menn og menn með réttindi frá stærri embættunum til að hlaupa í skarðið ef þarf að ráða menn til lögreglustarfa.

Enn eitt atriðið sem rætt var í nefndinni og talsverð umræða varð um laut að þeim kröfum sem gera skyldi til lögreglumanna og þar voru allir nefndarmenn á því máli að ástæða væri til að gera mjög strangar kröfur til þeirra sem yrðu ráðnir til lögreglustarfa. Þar væri vandrataður hinn rétti vegur því að menn vildu heldur ekki binda sig þannig í formið að menn útilokuðu einstaklinga sem einhvern tíma á unga aldri kynnu að hafa misstigið sig á einhvern hátt en reyndust hinir bestu og heiðarlegustu menn. Þess vegna voru menn á því máli að það sem skipti kannski mestu væri að hafa túlkunina sem opnasta þannig að menn gætu beitt dómgreind og skynsemi. En í reglugerð nr. 660/1981 um veitingu lögreglustarfs, 1. gr., segir svo, með leyfi forseta: ,,Umsækjandi skal vera íslenskur ríkisborgari, 20--30 ára, fjár síns ráðandi og má ekki vera kunnur af óreiðu í fjármálum. Hann skal hafa gott mannorð og vera þekktur af reglusemi og háttvísi.`` Þetta er sú túlkun sem hefur reyndar verið talin gagnast vel en í nýja lögreglulagafrumvarpinu, því sem við erum með til umfjöllunar, segir í 38. gr. að viðkomandi skulu vera íslenskir ríkisborgarar og ekki hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum. Þarna hefði ég talið að væri heppilegast að einskorða sig við þá skilgreiningu sem áður var vikið að. En einnig í þessu atriði væri fróðlegt að heyra sjónarmið hæstv. dómsmrh., hvaða fyrirætlanir hann hafi uppi um að tryggja viðhlítandi kröfur um feril, fortíð og mannorð umsækjenda um lögreglustörf.

Í greinagerð með frv. er vikið að námskröfum og þar er rætt um möguleika á auknum námskröfum þannig að Lögregluskólinn þurfi síður en verið hefur í reynd að sinna kennslu í almennum námsgreinum. Væri fróðlegt að heyra hvort hæstv. dómsmrh. hyggst beita sér fyrir einhverjum breytingum á því sviði.

Þá er í frv. verið að breyta í grundvallaratriðum ráðningarmáta til embættanna. Það sem gerst hefur hingað til er að einstaklingar, og á þetta ekki síður við um landsbyggðina en þéttbýlið, hafa verið valdir vegna þess að þeir eru taldir efnilegir einstaklingar í þessu starfi og þeir sendir til náms í Lögregluskólann. Með öðrum orðum, þeir vaxa upp úr umhverfinu og inn í lögreglustarfið. Þarna er í rauninni eftirlitið og valið. Það fer fram í því umhverfi sem einstaklingarnir spretta upp úr.

[18:30]

Það sem gerist núna hins vegar er að Lögregluskólinn verður á við aðra skóla, menn afla sér þar tilskilinna réttinda og sækja síðan til jafns við aðra einstaklinga um þau störf sem kunna að losna. Um þetta urðu talsverðar umræður og hafa orðið. Það er ljóst að innan lögreglunnar og innan lögregluembættanna og að því er ég best fæ skilið innan Lögregluskólans einnig hafa menn haft ákveðnar efasemdir um þetta atriði. Hér hefur sitt sýnst hverjum.

Hins vegar er eitt mál hér sem er algjört grundvallaratriði í mínum huga. Það er á hvern hátt þessi hluti laganna tengist kjarasamningum lögreglumanna vegna þess að ákvæði 4. mgr. 38. gr. um ólaunað nám í Lögregluskóla ríkisins stangast á við ákvæði gildandi kjarasamning Landssambands lögreglumanna. Þar segir m.a., með leyfi forseta: ,,Lögreglumenn sem stunda nám í Lögregluskóla ríkisins eða sækja fræðslu eða þjálfunarnámskeið að beiðni lögreglustjóra skulu halda föstum launum og vaktaálagi. Lögreglumenn sem af þessum sökum þurfa að búa fjarri heimilum sínum skulu fá greiddan ferðakostnað til og frá heimili sínu við upphaf og lok námstímabils. Auk þess eina slíka ferð á fyrri önn Lögregluskólans ríkisins og tvær slíkar ferðir á síðari önn skólans. Þeir skulu enn fremur fá greiddan hæfilegan dvalarkostnað samkvæmt mati nefndar samanber 5 og 7.``

Það er að mínum dómi alger lágmarkskrafa að starfskjör séu aldrei skert einhliða með lagaboði og ég hefði talið mjög mikilvægt að hér fylgdi bráðabirgðaákvæði um að samið yrði við lögreglumenn um þessar breytingar. Þessa vanda er getið í nál. allshn. og þetta atriði var rætt þar og sett mjög meðvitað inn í nál. en ég vil beina þeirri spurningu til hæstv. dómsmrh. hvort búast megi við að lögreglumönnum verði bætt þessi kjaraskerðing, að næst þegar gengið verður til kjarasamninga muni hæstv. dómsmrh. beita sér fyrir því að tryggja kjör lögreglumanna að þessu leyti.

Auk fyrrgreindra atriða vil ég að lokum vekja athygli á því hér að lögreglumenn hafa lagt mjög ríka áherslu á að fá lækkuð aldurstakmörk þannig að þeir verði leystir frá starfi fyrr en nú tíðkast. Þegar þetta frv. var í smíðum var grein þar að finna þar sem sagði: ,,Lögreglumaður skal leystur frá starfi sínu þegar hann er orðinn fullra 65 ára.`` Þetta atriði var rætt talsvert í allshn. og á einhverju stigi var um það rætt að sett yrðu inn bráðabirgðaákvæði um nefndarskipan sem hefði það verk með höndum að finna störf fyrir fullorðna lögreglumenn þannig að hægt væri að losa þá úr lögreglustarfinu. Við nánari skoðun reyndist þetta ákvæði eða þessi yfirlýsing ganga skemmra en bókanir og sérákvæði sem eru gildandi í kjarasamningum lögreglumanna og var ákveðið að taka þetta bráðabirgðaákvæði til baka. Nú eru að sjálfsögðu margar starfstéttir sem hafa lagt áherslu á það að lækka eftirlaunaaldur. Á það má benda að í öðrum löndum og í þeim löndum sem við berum okkur saman við, Norðurlöndum og víðast hvar annars staðar, þá er starfsaldur eða aldursmörk lögreglumanna mun lægri en tíðkast hér. Við erum með hæsta aldurinn í sambærilegum löndum sem ég þekki og starfsaldur lögreglumanna er víða mun lægri en gerist hjá ýmsum öðrum stéttum. Það hafa verið gerðar tölfræðilegar kannanir á ævilengd lögreglumanna. Slík könnun mun hafa verið gerð fyrir áratug eða svo og þar kom fram mikill munur á ævilengd þeirra sem unnu vaktavinnu langt fram eftir aldri, eins og t.d. lögreglumenn, og hinna sem losnuðu snemma af vöktum. En í þessu frv. er sem sagt ekki að finna ákvæði um að lækka starfsaldur lögreglumanna.

Að lokum vildi ég beina þeirri spurningu til hæstv. dómsmrh. hvort hann hyggist á einhvern hátt taka á þeim vanda er snertir starfsaldur lögreglumanna. Þegar allt kemur til alls þá er ákvæði um þetta að finna í kjarasamningum þeirra auk þess sem þetta ætti að vera mikilvægt fyrir þá sem njóta þjónustu lögreglunnar og að sjálfsögðu lögreglumenn sjálfa.