Lögreglulög

Mánudaginn 03. júní 1996, kl. 18:38:02 (7053)

1996-06-03 18:38:02# 120. lþ. 158.14 fundur 451. mál: #A lögreglulög# (heildarlög) frv. 90/1996, AK
[prenta uppsett í dálka] 158. fundur

[18:38]

Arnþrúður Karlsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. dómsmrh. fyrir að hafa lagt upp með alla þá vinnu sem að baki þessa frv. liggur. Sömuleiðis vil ég þakka hv. allshn. fyrir það mikla starf sem ég veit að nefndin hefur innt að hendi í vetur í þessu máli.

Ég sem varaþingmaður hef ekki komið að þinglegri meðferð þessa máls og þótt ég telji að þetta frv. feli í sér úrbætur á mjög mörgum sviðum löggæslunnar þá eru hér einstök atriði sem ég sakna að sjá ekki í frv. Einnig hef ég vissar áhyggjur af framkvæmdinni, hvernig í raun og veru lögin gera sig. Og þá einkum og sér í lagi að því er varðar þá ákvörðun að stofna embætti ríkislögreglustjóra. Mér skilst að þar hafi verið stuðst við norræna löggjöf og m.a. þess vegna sé lagt til að embætti ríkislögreglustjóra verði stofnsett. Í Svíþjóð, Danmörku og Finnlandi er slíkt embætti til staðar en það eru líka milljónaþjóðfélög. Í Noregi er hins vegar, skilst mér, sérstök lögregludeild innan dómsmálaráðuneytisins sem annast þetta hlutverk að öðru leyti.

Þær efasemdir sem sækja að mér í sambandi við stofnun embættis ríkislögreglustjóra eru einkum á sviði rannsókna og sömuleiðis finnst mér ríkislögreglustjóra markað fullmikið vald án þess að skörp skil séu gerð hvar mörkin liggi. Ég tel að það þurfi að fylgjast mjög vel með framkvæmdinni, hvernig lagabreytingin kemur til með að virka. Ég tel það eitt mikilvægasta málið í þessu. Með embætti ríkislögreglustjóra verður embætti rannsóknarlögreglu ríkisins þar með lagt niður en það hefur verið krafa samfélagsins að sakamál fái hraðari rannsókn og meðferð. Ég get vel séð það fyrir mér að þetta frv. uppfylli þær kröfur. Mér skilst að helmingur rannsóknarlögreglumanna hjá Rannsóknarlögreglu ríkisins eða alls 21 rannsóknarlögreglumaður flytjist til lögreglustjóraembættisins í Reykjavík, en jafnframt sé gert ráð fyrir að um 80% sakamála fylgi með. Ég vil geta treyst því að nægjanlegt fjármagn verði tryggt í fjárlögum til þess að þetta sé í raun og veru framkvæmanlegt því að staðarlögreglan sem fær slíka aukningu á verkefnum og mannskap verður auðvitað að geta búið við það öryggi að hugsað sé til þess í fjárlögum.

Ég nefni 5. gr. frv. sérstaklega um hlutverk ríkislögreglustjóra. Þar er m.a. kveðið á um sérstaka stoðdeild ríkislögreglustjóra sem eigi að grípa inn í mál víðs vegar um landið eftir atvikum. Ég spyr mig að því hvernig á að halda slíkri stoðdeild í nægjanlegri þjálfun ef hún á að grípa inn í af og til í stórum sakamálum. Það er nefnilega alveg augljóst mál að þeir sem fást við málin dags daglega verða sérhæfðir, þeir verða sérfræðingarnir. En hinir staðna. Sú staðreynd kallar e.t.v. á það að stöðugt þarfað fá inn nýjan mannskap og af því leiðir meiri kostnað. Sömuleiðis hef ég efasemdir um að það sé rétt ákvörðun að hafa skatta- og efnahagsbrotin sérstaklega við embætti ríkislögreglustjóra. Mér skilst að sú ráðstöfun sé gerð vegna þess hve þau mál séu erfið og krefjist mikillar sérþekkingar. Ég verð bara að segja að ég er alls ekki sammála þessu. Í fyrsta lagi eru skattalagabrot rannsökuð hjá sérfræðingum við viðkomandi skattstjóraembætti. Og yfirskattanefnd tekur í raun dómsvald ef mál gengur alla leið þangað og við þau gögn er hægt að styðjast við lögreglurannsókn. Vegna þess að lögreglurannsóknin sem slík byggir á refsiréttarforsendu og það þarf enga sérstaka sérfræðinga til aðra en lögreglumenn að rannsaka það því það eru yfirheyrslurnar og tæknin við yfirheyrslurnar sem skiptir máli. Þar gerast hlutirnir í raun og veru. Þannig að ég get ekki séð að skattalagabrotin sem slík eða efnahagsbrotin séu með slíka sérstöðu að það sé ástæða til þess að þau séu annars staðar en önnur brot á almennum hegningarlögum. Efnahagsbrotin eiga samkvæmt frv. líka að vera hjá ríkislögreglustjóra en hins vegar er ekki annað að skilja en að rannsókn fjársvikamála færist til staðarlögreglunnar og hvar eru mörkin? Hver ætlar að ákveða hvar mörkin liggi? Ég tel að ef rannsókn þessara mála færist á margar hendur sé hætta á að ekki sé til staðar sú yfirsýn sem er nauðsynleg yfir þennan málaflokk. Og það er í mínum huga mjög óeðlilegt að taka út eina tegund sakamála og rannsaka við eitthvert sérstakt embætti og ég held jafnvel líka að þetta sé andstætt þeirri þróun réttarfars sem við höfum búið við síðustu árin. Ég minni á að það er ekkert langt síðan, u.þ.b. fjögur ár, að sérstakur dómstóll í ávana- og fíkniefnamálum var lagður af af því að það var talið að slík sérstaða mundi brjóta í bága við allt réttarfar í landinu. Ég óttast framkvæmdina á þessu, ég verð að segja það.

[18:45]

Síðan er ekki annað hægt að sjá en að ríkislögreglustjóri hafi heimild til þess að grípa inn í og ráðstafa sérdeild lögreglunnar, með öðrum orðum víkingasveitinni. Og ég velti því fyrir mér hvaða sérþekking verður til staðar hjá ríkislögreglustjóraembættinu til þess að stjórna slíkri sérsveit sem hefur fengið alla sína þjálfun við lögreglustjóraembættið í Reykjavík og lotið stjórn þess embættis. Ég veit ekki hvernig menn sjá þetta fyrir sér. Samkvæmt frv. getur ríkislögreglustjóri sjálfur ákveðið hvenær og hvort hann grípur inn í mál og hann hefur þannig beinna hagsmuna að gæta gagnvart embættunum. Þarna geta skarast rannsóknarlegir hagsmunir. Það gefur auga leið. Það er e.t.v. ekki heppilegt að ríkislögreglustjóri stjórni í senn rannsóknum og fari síðan með veigamikið stjórnsýsluhlutverk. Það er a.m.k. hlutur sem ég held að þurfi líka að skoða og jafnvel endurmeta.

38. gr. frv. fjallar um inntöku nýnema í Lögregluskóla ríkisins. Þar er sérstaklega kveðið á um fimm manna valnefnd sem velur inn í skólann og ég vil nú taka sérstaklega undir með hv. þingkonu Guðnýju Guðbjörnsdóttur sem í upphafi þessarar umræðu fagnaði því að í nál. hv. allshn. væru nefndarmenn sammála þeirri skoðun Kríanna, félags lögreglukvenna, að nauðsynlegt væri að tryggja að konur yrðu líka skipaðar í umrædda valnefnd. Ég treysti því að hæstv. dómsmrh. muni standa vörð um hagsmuni kvenna að þessu leytinu til því ég fagna því líka að hæstv. dómsmrh. er nú með nefnd að störfum sem á að skila fyrir haustið tillögum um eflingu kvenna í lögreglunni og þetta er atriði sem ég vil sérstaklega lýsa ánægju minni með.

Aftur á móti sakna ég þess að sjá ekki í frv. sérstakt ákvæði um starfslokaaldur lögreglumanna eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson kom inn á hér áðan og ég styð mjög það sem hann sagði um þetta mál. Frv. er sniðið eftir norrænni löggjöf eins og fram hefur komið og hún miðar almennt að starfslokum við 60 ára aldur. Það hefði verið eðlilegt að taka þetta inn í frv. hér því það er ljóst að þetta starf er erfitt og það er krefjandi. Ég minni á að í lögunum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna er það sérstaklega tekið fram að lögreglumenn hafi yfirvinnuskyldu. Þarna er um að ræða brýnt öryggismál lögreglumanna og borgaranna sem eiga að njóta þjónustu þeirra. En mér sýnist hins vegar að okkar efnahagslega umhverfi sé ekki þannig vaxið að það leyfi slíkar breytingar að þessu sinni.

En ég vil enn á ný hvetja hæstv. dómsmrh. að halda áfram því góða og mikla starfi sem hann hefur nú hafið á sviði lögreglumála og taka þetta með inn í þá vinnu þannig að sú niðurstaða fáist hið fyrsta að starfslokaaldur lögreglumanna verði færður mun neðar en nú er. Ég vil lýsa því yfir að ég styð þetta frv. og ég vona og vænti þess að það verði til bóta.