Lögreglulög

Mánudaginn 03. júní 1996, kl. 18:57:59 (7055)

1996-06-03 18:57:59# 120. lþ. 158.14 fundur 451. mál: #A lögreglulög# (heildarlög) frv. 90/1996, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 158. fundur

[18:57]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir greinagóð svör. Í nokkrum atriðum hefði ég viljað að hæstv. ráðherra hefði kveðið ögn fastar að orði. Fyrst varðandi ráðningarmátann þá nefnir hæstv. ráðherra það að hann muni fylgja þeirri stefnu að kappkostað verði að ráða einvörðungu þá sem hafa hlotið tilskilin réttindi. Þetta þykir mér góð yfirlýsing. En það sem ég vakti einnig athygli á var að ein leið til að sinna þessu afleysingahlutverki væri að hafa tiltekinn hóp manna sem væru sendir út á land eða til staða þar sem þörfin vaknaði þannig að alltaf væri fyrir hendi sveit manna sem ættu heima í þessu starfi. Menn væru þá ekki nauðbeygðir endilega til að ráða alla þá eða hvern þann einstakling sem hefði einhvern tímann öðlast réttindi sem lögreglumaður. Þetta er atriði sem ég vildi vekja máls á.

Varðandi kjarasamninginn þá fagna ég því sem hæstv. dómsmrh. sagði um hann, að það yrði tekið á þeim málum í næstu samningum ,,með venjubundnum hætti``, orðaði hæstv. dómsmrh. það. Mín spurning gekk nú eiginlega út á það að fá betri eða meira afgerandi yfirlýsingu frá hans hendi um að hann myndi beita sér fyrir því að gengið yrði frá þeim málum á viðunandi hátt. Ég fagna einnig yfirlýsingu hæstv. ráðherra um að hann muni beita sér fyrir því að halda áfram vinnu varðandi starfsaldurinn enda er kveðið á um það í gildandi samningum eða í samningum sem lögreglumenn hafa gert að slíkt skuli gert.