Meðferð opinberra mála

Mánudaginn 03. júní 1996, kl. 19:00:55 (7056)

1996-06-03 19:00:55# 120. lþ. 158.15 fundur 450. mál: #A meðferð opinberra mála# (ákæruvald) frv. 84/1996, Frsm. SP (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 158. fundur

[19:00]

Frsm. allshn. (Sólveig Pétursdóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. frá allshn. um frv. til laga um breyting á lögum um meðferð opinberra mála og meðfylgjandi brtt. sem eru á þskj. 1084.

Nefndin hefur fjallað um þetta mál á nokkrum fundum og fengið til sín ýmsa gesti. Enn fremur bárust umsagnir frá ýmsum aðilum.

Allsherjarnefnd leggur áherslu á að í frumvarpinu er gengið út frá grundvallarreglunni um sjálfstætt ákæruvald og eins og fram kemur í athugasemdum við frumvarpið er ekki verið að leggja til breytingu á þeirri skipan mála að ríkissaksóknari sé æðsti handhafi ákæruvalds í landinu.

Breytingar þær, sem frumvarpið mælir fyrir um, snúa fyrst og fremst að því að tengja betur saman annars vegar almenna löggæslu og lögreglurannsókn og hins vegar útgáfu ákæru og saksókn. Til þess að stuðla að nánari samvinnu ákæruvalds og lögreglu við rannsókn mála er lagt til að málshöfðunarheimildir verði færðar til lögreglustjóra í stórum hluta brota gegn almennum hegningarlögum, svo sem vegna þjófnaðar, fjárdráttar, fjársvika og eignaspjalla. Þá hefur frumvarpið í för með sér að lögreglustjórum er veitt heimild til þess að höfða opinber mál vegna allra sérrefsilagabrota. Lögreglustjórum er samkvæmt núgildandi lögum heimilt, að fenginni almennri ákvörðun ríkissaksóknara, að höfða opinber mál, enda liggi ekki þyngri viðurlög við broti en sektir, upptaka eigna, varðhald eða fangelsi allt að tveimur árum. Heimild þessi tekur einnig til málshöfðunar vegna brota gegn lögum um ávana- og fíkniefni, áfengislögum, tollalögum, lögum um skotvopn, sprengiefni og skotelda og lögum um fuglaveiðar og fuglafriðun. Reynslan hefur sýnt að þetta fyrirkomulag hefur að mörgu leyti reynst vel og er hér gert ráð fyrir því að ganga lengra og fela lögreglustjórum ákæruvald í málum vegna brota sem hvað oftast eru framin. Ríkissaksóknari höfðar hins vegar áfram mál vegna brota á meginþorra ákvæða hegningarlaganna, þar á meðal alvarlegustu brotanna.

Ætla mætti við fyrstu sýn að verið væri að flytja til minnstu sýslumannsembættanna ákæruvald í brotum sem eru svo flókin að hætta væri á að nægileg sérþekking væri þar ekki til staðar. Í frumvarpinu sem og í frumvarpi til lögreglulaga, sem liggur fyrir Alþingi, eru ýmis ákvæði sem ætlað er að tryggja að réttarspjöll hljótist ekki af þessu.

Þau eru talin upp í nál. í fimm liðum og vísa ég til þeirra atriða sem þar koma fram.

Það er því álit allsherjarnefndar að með markvissri fræðslu og upplýsingagjöf og virku eftirliti með aðstoð nútímaupplýsingatækni verði lögreglustjórum fyllilega treystandi til að taka við ákæruvaldi í brotaflokkum sem frumvarpið gerir ráð fyrir að þeim verði falið að höfða opinber mál í.

Nefndin leggur því til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerðar eru tillögur um á sérstöku þingskjali. Lagðar eru til tvær breytingar á 4. gr. Eina efnisbreytingin felst í raun í tillögu a-liðar 1. tölul. þar sem lagt er til að skýrt verði kveðið á um að lögreglustjóri, sem stýrt hefur rannsókn máls sem varðar brot er ekki heyrir undir ríkissaksóknara, höfði að jafnaði sjálfur opinbert mál vegna þess.

Síðari breytingartillöguna við 4. gr. leiðir af því að í frumvarpi til lögreglulaga, sem flutt er samhliða frumvarpi þessu, er grunnur lagður að verkaskiptingu milli lögreglustjóra og ríkislögreglustjóra. Breytingartillögur 2. og 3. tölul. snúa einungis að orðalagi og eru til samræmis við framangreint lögreglulagafrumvarp.

Þess skal getið að sú ábending kom fram í nefndinni að eðlilegt væri í kjölfar þeirra breytinga á meðferð skattsvika og annarra skattalagabrota sem frumvarp þetta gerir ráð fyrir að ákvæði skattalaga í þessu efni verði tekin til sérstakrar skoðunar.

Jóhanna Sigurðardóttir sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykk áliti þessu.

Undir nál. rita allir nefndarmenn í allshn. nöfn sín.

Virðulegi forseti. Hér er um mjög mikilvægt mál að ræða sem mun ef samþykkt verður gera meðferð opinberra mála mun skilvirkari og bæta réttaröryggi. Það er því von allshn. að málinu verði vel tekið á hinu háa Alþingi.