Staðfest samvist

Mánudaginn 03. júní 1996, kl. 19:08:12 (7058)

1996-06-03 19:08:12# 120. lþ. 158.16 fundur 320. mál: #A staðfest samvist# frv. 87/1996, ÓÖH
[prenta uppsett í dálka] 158. fundur

[19:08]

Ólafur Örn Haraldsson:

Virðulegi forseti. Hér er um mikla réttarbót að ræða. Í 1. umr. um frv. þetta tók ég til máls ásamt allnokkrum þingmönnum. Ég var í hópi þeirra sem luku lofsorði á hæstv. dómsmrh. og þá sem staðið hafa að gerð þessa frv. Ég gæti endurtekið þau orð aftur en vil aðeins ítreka að um mikla réttarbót er að ræða og mönnum til mikils sóma að hafa gengið til móts við þau sjálfsögðu réttindi sem þessi hópur samkynhneigðra þarf á að halda í þjóðfélaginu.

Í 1. umr. gerði ég að umræðuefni 6. gr. og hvatti allshn. til að skoða rækilega í umfjöllun sinni hvort ekki mætti koma til móts við þær óskir sem uppi eru að fólk í staðfestri samvist gæti tekið börn til stjúpættleiðingar. Ég veit að nefndin hefur fjallað um þetta og rætt þetta mjög ítarlega og komist að þeirri niðurstöðu að breyta ekki því frv. sem hér liggur fyrir og 6. gr. er því óbreytt. Þar stendur, með leyfi forseta: ,,Ákvæði ættleiðingarlaga um hjón gilda ekki um staðfesta samvist.``

Til þess að skýra fyrir þeim sem kunna að hlýða á mál mitt vil ég láta koma fram að um tvenns konar ættleiðingu getur verið að ræða. Annars vegar frumættleiðingu en það er ættleiðing þar sem hjón taka barn inn í samvistina og ættleiða það. Það er þá barn sem á ekki kynforeldri í þessu sambandi. Stjúpættleiðing er hins vegar ættleiðing þar sem kynforeldri kemur með barn úr fyrra sambandi inn í staðfesta samvist og um slíka stjúpættleiðingu mundi þá gilda þau sömu ákvæði og reglur sem gilda um núverandi ættleiðingu í hjónaböndum eða sambúð. Núv. ákvæði frv. um staðfesta samvist tryggir sameiginlega forsjá þess barns sem annar aðili kemur með í staðfesta samvist. Sameiginleg forsjá gerir bæði kynforeldrinu og uppeldisforeldrinu kleift að fara með forræði og vera fulltrúar barnsins út á við. Jafnframt tryggir sameiginleg forsjá að ef kynforeldri fellur frá mun uppeldisforeldri halda forsjá barnsins ef þess er óskað. Sameiginleg forsjá er hins vegar ekki eins afgerandi og stjúpættleiðing eins og ég kom inn á áðan og tryggir ekki barni erfðarétt eftir uppeldisforeldri nema með sérstakri erfðaskrá. Ákvæði frv. gefur samkynhneigðum því ekki kost á að tryggja börn sín með sama hætti og gagnkynhneigðir geta gert með stjúpættleiðingu. Stjúpættleiðing er í eðli sínu réttindamál þeirra barna sem í hlut eiga samkvæmt þeim skýru og gætilegi vinnureglu sem dómsmrn. notar í ættleiðingarmálum er öruggt að ættleiðing á sér aldrei stað nema það sé barninu óumdeilanlega fyrir bestu. Jafnframt verður það kynforeldri barnsins sem fer ekki með forsjána að gefa samþykki sitt og hefur þannig úrslitavald um það hvort af stjúpættleiðingunni getur orðið. Slíkar vinnureglur mundu vitanlega einnig gilda um stjúpættleiðingar í staðfestri samvist samkynhneigðra rétt eins og við aðra stjúpættleiðingu.

Ég geri mér grein fyrir því að nú er vart meiri hluti fyrir þeim skoðunum sem ég hef sett hér fram. En við skulum horfa til lengri framtíðar. Við skulum viðurkenna að hér hlýtur aðeins að vera um áfanga að ræða í réttindabaráttu eins hóps í samfélagi okkar. Þeir hópar sem eiga undir högg að sækja eru því miður fleiri í þjóðfélagi okkar. Hér er hópur sem hefur náð þessum merka áfanga sem ég vona að náist með samþykkt frv. en þegar til lengri tíma er litið hljótum við sem hér erum að ætla okkur að þessi hópur njóti fyllstu réttinda á við það sem aðrir gera í þjóðfélagi okkar.