Staðfest samvist

Mánudaginn 03. júní 1996, kl. 19:16:51 (7060)

1996-06-03 19:16:51# 120. lþ. 158.16 fundur 320. mál: #A staðfest samvist# frv. 87/1996, SvG
[prenta uppsett í dálka] 158. fundur

[19:16]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég vil ekki láta hjá líða að þakka fyrir þetta mál því að ég átti þess ekki kost á því við 1. umr. og ég þakka bæði hæstv. ráðherra og sömuleiðis allshn. fyrir að málið skuli vera til lykta leitt. Ég tel að um sé að ræða kaflaskil í mannréttindasögu Íslendinga sem er ástæða til að vekja sérstaka athygli á. Þar sem ég er sammála þeirri grundvallarafstöðu, sem fram kemur í frv., á ég ekki auðvelt með að sætta mig við þau undanþáguákvæði sem eru í brtt. nefndarinnar. Mér finnst að það þurfi mikil rök til þess að hafa þessi undanþáguákvæði þarna inni. Með hliðsjón af því að skammur tími er eftir af störfum þingsins vil ég ekki tefja málið með því að ræða það frekar en mér finnst að þegar ákvörðun er tekin á annað borð um réttindi samkynhneigðra þurfi býsna þung rök til að skerða þau þó í litlu sé og þess vegna á ég nokkuð erfitt með að fella mig við þær brtt. sem birtast á þskj. 1070. Engu að síður tel ég ástæðu til að fagna málinu almennt og stend hér upp til þess að lýsa þeirri skoðun minni að ég tel að um sé að ræða stórt mál, mikilvægt mál og að við eigum að taka sérstaklega eftir því þó að það sé mikil málasúpa sem verið er að afgreiða í dag að í þessum máli felast mikil tíðindi.