Reynslusveitarfélög

Mánudaginn 03. júní 1996, kl. 20:48:34 (7069)

1996-06-03 20:48:34# 120. lþ. 158.19 fundur 390. mál: #A reynslusveitarfélög# (félagslegar íbúðir, atvinnuleysistryggingar) frv. 78/1996, SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 158. fundur

[20:48]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Ég er áheyrnarfulltrúi í hv. félmn. og er ekki aðili að þessu áliti, enda hefði það orðið með fyrirvara sem ég vil gera örlitla grein fyrir.

Mér finnst það ákvæði sem lýtur að lögum um atvinnuleysistryggingar vera mjög til bóta og það sem kom fram í starfi nefndarinnar varðandi þær hugmyndir sem þau sveitarfélög sem á fund nefndarinnar komu eða fulltrúar þeirra kynntu, þ.e. Reykjavíkur og Reykjanesbæjar, vera þess eðlis að þar finnst mér að menn séu að hugsa um mjög áhugaverða hluti og að skoða verkefni sem gætu orðið fyrirmynd í framtíðinni varðandi framkvæmd þessara laga. Mér finnst sem sagt það vera mikil bót og ég mun styðja þann hluta þessa frv.

Hins vegar í því sem lýtur að húsnæðismálunum var ekkert í starfi nefndarinnar sem breytti afstöðu minni sem kom fram við fyrri umræðu málsins. Sá fulltrúi sveitarfélaga sem kom á fund nefndarinnar og hefði þá getað verið sá sem hefði sannfært mig og fleiri um réttmæti þess að breyta lögunum á þann hátt sem hér er verið að tala um, gerði það ekki þar sem helst var á honum að heyra að ekki væri sá vakandi áhugi á þessari breytingu sem mátti álykta af umfjöllun við 1. umr. Það sem verið er að gera þarna er að það er verið að búa til eins konar bastarð inn í kerfið, eins konar félagslegt húsnæði sem þó er ekki félagslegt, eins konar ábyrgð sveitarfélaga sem eiga þó ekki aðild að ákvarðanatöku og satt best að segja hef ég ekki enn skilið hverjum þetta ákvæði á að gagnast eða hvernig það verður nýtt. Ég get ekki séð að þetta verði þeim sem þurfa á félagslegu húsnæði að halda eða sveitarfélögunum til nokkurs framdráttar. Þar af leiðandi, herra forseti, hef ég fullan fyrirvara við þetta ákvæði og mun sitja hjá þegar kemur að afgreiðslu þess í þinginu.