Samningar um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum

Mánudaginn 03. júní 1996, kl. 21:09:53 (7075)

1996-06-03 21:09:53# 120. lþ. 158.22 fundur 527. mál: #A samningar um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum# þál. 15/1996, GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 158. fundur

[21:09]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Þar sem afstaða okkar kvennalistakvenna til þessa samnings kemur ekki fram á þeim nefndarálitum sem liggja fyrir, þá langar mig að segja nokkur orð um þennan samning, gera grein fyrir okkar afstöðu.

Þegar þetta mál var fyrst kynnt í þinginu í skýrsluformi, lagði ég mat á kosti þess og galla og komst að þeirri niðurstöðu að kostirnir væru heldur veigameiri en gallarnir sem augljóslega eru þó einnig margir. Kosti þessa samnings taldi ég þá vera að samningurinn mundi auka líkurnar á því að síldin yrði veidd til manneldis, þ.e. eftir að fitumagn er orðið nægilega mikið. Reyndin hefur því miður ekki leitt þetta í ljós enn þá en veiðar eru þegar langt komnar.

Annar kostur þessa samnings er að hann stuðlar að því að síldarstofninn verði veiddur í skynsamlegu magni sem er ekki síst hagsmunir okkar Íslendinga ef marka má rannsóknir Hafrannsóknastofnunar um göngur síldarinnar, þ.e. að síldin virðist þurfa að ná ákveðnum aldri til þess að ganga á Íslandsmið að þeirra mati. Væntanlega spila þarna fleiri þættir inn í en ég ætla ekki að fara að ræða þau mál hér.

Þriðji kostur þessa samnings þó óbeinn sé er sá að með því að semja við Norðmenn verður samningur okkar við Jan Mayen virkur.

Ókostir samningsins eru einnig augljósir eins og ég tók fram strax við 1. umr. um málið. Í fyrsta lagi finnst mér mjög pólitískt umdeilanlegt að gefa meira eftir en Norðmenn miðað við einhliða yfirlýsingar landanna um kvóta þar sem Norðmenn hafa verið að gera lítið úr okkar sögulegu veiðireynslu. Ég tel því að þessi tilslökun muni styrkja þeirra málflutning.

Annar ókosturinn er sá að það er ansi súrt í broti að við skulum opna okkar lögsögu fyrir Norðmönnum án þess að fá gagnkvæma heimild í þeirra lögsögu í staðinn. Það er alveg ljóst að það eru fyrst og fremst Færeyingar og Íslendingar sem gefa eftir, en eftirgjöf Norðmanna er mjög óveruleg.

Í þriðja lagi. Þó samningurinn sé mikilvægur áfangi, þá er ekki ljóst hvað Evrópusambandið gerir né hve mikið Evrópusambandið kemur til með að veiða úr þessum stofni og það veikir auðvitað málið í heild.

Í fjórða lagi er það augljóst veikleikamerki hvernig orðalag greinar 6.2 í bókun um verndun, skynsamlega nýtingu og stjórnun veiða á norsk-ísenska síldarstofninum er. Ég get ekki séð að það sé tryggt að Íslendingar fái aukna hlutdeild ef göngumynstur síldarinnar breytist eins og haldið hefur verið fram.

Í ljósi þessarar umræðu munum við kvennalistakonur sitja hjá við afgreiðslu málsins.