Almannatryggingar

Mánudaginn 03. júní 1996, kl. 21:15:32 (7077)

1996-06-03 21:15:32# 120. lþ. 158.23 fundur 529. mál: #A almannatryggingar# (eingreiðsla skaðabóta) frv. 95/1996, ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 158. fundur

[21:15]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég fagna því að þetta frv. skuli hafa komið fram frá hæstv. heilbrrh. því að þegar breytingar voru gerðar á almannatryggingalögunum um áramótin og í umræðum um ráðstafanir í ríkisfjármálum benti ég ítrekað á það hversu illa þessi hópur, sem eru þeir sem hafa fengið eingreiðslur vegna slysa, gæti orðið úti vegna þessara breytinga á almannatryggingalögunum sem voru samþykktar í svokölluðum bandormi. Þá virtist mér ekki mikill skilningur á því að þarna væri verið að halla mjög á ákveðinn hóp en sem betur fer virðist það hafa runnið upp fyrir mönnum að þarna var verulegur skaði á ferðinni fyrir þá lífeyrisþega sem hafa fengið eingreiðslur og þarna var verið að skerða þá tvöfalt því að þegar greiðslur örorkubóta til þessa hóps sem fær eingreiðslur vegna slysa er ákvarðaður er dregið frá útgreiddum bótum áætlaðar vaxtatekjur. Einnig er miðað við að einstaklingurinn fái almannatryggingabætur, þ.e. örorkulífeyri og tekjutryggingu út ævina og sérstaklega á þetta við ungt fólk sem slasast því að þar er þessum bótum ætlað að dekka tekjutap þeirra það sem eftir er ævinnar þannig að þeir hefðu orðið fyrir allra mesta skaðanum á þessari breytingu á 10. gr. almannatryggingalaganna.

Í bréfi sem okkur barst í heilbr.- og trn. frá lögmönnum, sem skoðuðu þetta mál fyrir foreldra stúlku sem hafði lent í alvarlegu slysi og fengið eingreiðslu, kemur fram dæmi um hversu alvarlegt þetta hefði orðið fyrir ákveðinn einstakling. Mig langar til að láta það koma fram hversu alvarlega þessi unga stúlka, sem nefnd er í dæminu, hefði lent í þessari breytingu hefði ekki verið tekið á málinu á þennan hátt sem heilbrrh. gerir hér.

Á sl. ári voru ungri stúlku dæmdar 13 millj. kr. í skaðabætur vegna umferðarslyss. Tap stúlkunnar vegna varanlegrar örorku var talið vera 18 millj. kr. en frá þeirri upphæð dró dómstóllinn verðmæti örorkulífeyris og tekjutryggingar frá Tryggingastofnun ríkisins, samtals að fjárhæð 5 millj. Gengið er út frá því að stúlkan ávaxti fébæturnar, 13 millj., og hafi af þeim fjármagnstekjur, þ.e. vaxtatekjur, sem hún geti nýtt til framfærslu sinnar í framtíðinni. Þessar fébætur ásamt örorkulífeyrisbótum almannatrygginga eiga að gera hana eins setta fjárhagslega og hún hefði ekki orðið fyrir slysinu. Fjármagnstekjur á skaðabótum vegna örorkutjóns vegna þeirra breytinga sem gerð var á 10. gr. laga um almannatryggingar hefðu skert rétt hinnar slösuðu til örorkulífeyris og tekjutryggingar, bótarétt sem gengið var út frá að hún ætti hjá Tryggingastofnun ríkisins þegar skaðabætur til hennar voru ákvarðaðar. Það er ljóst að það er alls ekki vilji löggjafans að skerða hluta af fébótum slasaðra með þessum hætti og þess vegna hefur verið tekið á þessum málum og vil ég fagna því og styð eindregið þessa breytingu á almannatryggingalögunum sem hér er til umræðu.