Stefnumótun í íþróttum stúlkna og kvenna

Mánudaginn 03. júní 1996, kl. 21:22:47 (7080)

1996-06-03 21:22:47# 120. lþ. 158.26 fundur 61. mál: #A stefnumótun í íþróttum stúlkna og kvenna# þál. 16/1996, Frsm. SAÞ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 158. fundur

[21:22]

Frsm. menntmn. (Sigríður A. Þórðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um till. til þál. um stefnumótun í íþróttum stúlkna og kvenna. Í tillögunni er gert ráð fyrir að stofnuð verði nefnd um stefnumótun í íþróttum stúlkna og kvenna. Skal nefndin vinna að eflingu íþrótta stúlkna og kvenna í samráði við Íþróttasamband Íslands og Ungmennafélag Íslands en þar hefur farið fram nokkurt starf á þessu sviði. Kannanir sem gerðar hafa verið undanfarið benda eindregið til þess að átak þurfi að gera til eflingar stúlkna- og kvennaíþróttum. Einnig skal nefndin skoða sérstaklega umfjöllun fjölmiðla um íþróttir stúlkna og kvenna, hvaða fjármagni sé veitt til stúlkna- og kvennaíþrótta, skiptingu kynjanna í forustu íþróttahreyfingarinnar og aðra þá þætti sem geta haft áhrif á stöðu stúlkna- og kvennaíþrótta. Meðal annars verði litið til þess sem gert hefur verið erlendis í átt til umbóta í þessum efnum.

Menntmn. leggur þó sérstaka áherslu á að ekki er síður mikilvægt að stuðla að eflingu almenningsíþrótta en keppnisíþróttum meðal kvenna. Menntmn. mælir einróma með samþykkt tillögunnar.