Stefnumótun í íþróttum stúlkna og kvenna

Mánudaginn 03. júní 1996, kl. 21:25:31 (7083)

1996-06-03 21:25:31# 120. lþ. 158.26 fundur 61. mál: #A stefnumótun í íþróttum stúlkna og kvenna# þál. 16/1996, BH
[prenta uppsett í dálka] 158. fundur

[21:25]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Ég þakka hv. menntmn. fyrir jákvæða afgreiðslu málsins en flutningsmenn þess koma úr öllum stjórnmálaflokkum sem sæti eiga á Alþingi.

Vegna spurningar hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar um það hvar mörkin séu á milli stúlkna og kvenna vil ég upplýsa hv. þm. um það að þessi mörk eru mjög einstaklingsbundin en ástæðan fyrir því að tekið er fram bæði stúlkur og konur er kannski fyrst og fremst sú að það sé tryggt að þetta nái bæði til stúlknaíþrótta frá barnsaldri og alla leið upp úr vegna þess að brottfallið mjög oft á þeim mörkum sem konur eru að hætta að verða stúlkur og yfir í það sem við köllum í daglegu tali konur. Um þetta getur hv. þm. örugglega fengið frekari upplýsingar annars staðar en úr ræðustóli en það er vissulega áhugavert að skoða þetta. En eins og ég segi, það er fyrst og fremst verið að hugsa um það að þetta nái bæði til þess sem kallað er stúlknaíþróttir og kvennaíþróttir en í íþróttaheiminum eru ákveðnir flokkar miðað við aldur liðsmanna eins og hv. þm. veit sennilega.

Aðdragandinn að því að tillagan var lögð fram var fyrst og fremst niðurstöður kannana sem framkvæmdar höfðu verið á síðustu árum er benda til mikils brottfalls stúlkna og kvenna úr íþróttum. Eins og ég greindi frá áðan er það mjög oft á kynþroskaaldri sem þetta á sér stað hvort sem það eru bein tengsl á milli eða einhverjir samfélagslegir þættir sem þar hafa áhrif.

Hvatning foreldra, umfjöllun fjölmiðla og möguleikar til fjáröflunar hefur verið nefnt sem mögulegur orsakavaldur fyrir þessu brotthvarfi en þarna er eflaust um margþáttað samspil að ræða. Í greinargerð með tillögunni er vitnað til Noregs og þess árangurs sem samstillt átak stjórnvalda og íþróttahreyfingarinnar hefur leitt af sér þar í íþróttaiðkun stúlkna og kvenna en frá Noregi liggur fyrir fjöldi aðferða sem má beita til að ná fram því markmiði að minnka þetta brotfall stúlkna og kvenna í íþróttum og liggja fyrir margar greinargerðir í þeim efnum.

Hv. frsm. menntmn. og formaður gerði grein fyrir efni tillögunnar þannig að ég ætla ekki að rekja það hér. Ég dreg einungis fram að það er lögð á það sérstök áhersla að þessi nefnd vinni í samráði við Íþróttasamband Íslands og Ungmennafélag Íslands. Það er vegna þess að nokkuð hefur verið unnið að þessum markmiðum nú þegar og er hafinn ákveðinn undirbúningur að því að reyna að koma í veg fyrir brottfallið en þar hefur gjarnan verið rætt um að átakið þurfi að vera samstillt á meðal stjórnvalda og íþróttahreyfingarinnar.

Hv. menntmn. mælir með því að bæði sé litið til almenningsíþrótta og keppnisíþrótta í þessu efni. Ég er sammála þessari áherslu hv. menntmn. og það reyndar kom fram við fyrri umræðu málsins að með hugtakinu íþróttir í tillögunni væri bæði átt við almenningsíþróttir og keppnisíþróttir en ég er mjög sátt við að það sé sérstaklega tekið fram þarna. Ég tel fulla ástæðu til þess að þarna sé litið almennt til íþrótta og því get ég fyllilega tekið undir áherslu hv. menntmn. og að sjálfsögðu mæli ég með samþykkt tillögunnar.