Ólöglegur innflutningur fíkniefna

Mánudaginn 03. júní 1996, kl. 21:38:08 (7087)

1996-06-03 21:38:08# 120. lþ. 158.27 fundur 62. mál: #A ólöglegur innflutningur fíkniefna# þál., Frsm. JónK (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 158. fundur

[21:38]

Frsm. allshn. (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir áliti allshn. um tillögu til þál. um hert viðurlög við ólöglegum innflutningi á fíkniefnum.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið umsagnir frá Lögmannafélagi Íslands, lögreglustjóranum í Reykjavík, sýslumanninum á Keflavíkurflugvelli, Landssambandi lögreglumanna, Fangelsismálastofnun ríkisins og ríkissaksóknara.

Nefndin hélt sérstakan fund í febrúar sl. þar sem fjallað var um fíkniefnavandann og hugsanleg úrræði til að bregðast við honum. Gestir á þeim fundi voru Sigurður Tómas Magnússon og Högni Kristjánsson frá dómsmálaráðuneyti, Hallvarður Einvarðsson og Egill Stephensen frá embætti ríkissaksóknara, Allan V. Magnússon og Guðjón Markússon frá Dómarafélagi Íslands, Haraldur Johannessen, Jón Friðrik Sigurðsson og Erlendur Baldursson frá Fangelsismálastofnun ríkisins, Böðvar Bragason, Björn Halldórsson og Jóhann Hauksson frá embætti lögreglustjórans í Reykjavík, Jóhann Jóhannsson frá útlendingaeftirlitinu og Kristinn Ólafsson tollgæslustjóri. Var m.a. rætt um hvort hert viðurlög væru rétta leiðin til að stemma stigu við þessari vá. Fram kom á fundinum að ríkisstjórnin hefði þegar skipað starfshóp til að fara yfir þessi mál og leita leiða til úrbóta. Má í því sambandi vísa til skýrslu forsætisráðherra um útbreiðslu fíkniefna og þróun ofbeldis lögð fram 29. apríl sl., sbr. þskj. 869.

Allsherjarnefnd leggur því til að tillögunni verði vísað til ríkisstjórnarinnar.

Jóhanna Sigurðardóttir sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykk áliti þessu.

Undir nál. rita Sólveig Pétursdóttir, Valgerður Sverrisdóttir, Ögmundur Jónasson, Hjálmar Jónsson, Jón Kristjánsson, Guðný Guðbjörnsdóttir, Lúðvík Bergvinsson, Katrín Fjeldsted og Kristján Pálsson.