Ólöglegur innflutningur fíkniefna

Mánudaginn 03. júní 1996, kl. 22:07:37 (7097)

1996-06-03 22:07:37# 120. lþ. 158.27 fundur 62. mál: #A ólöglegur innflutningur fíkniefna# þál., Frsm. JónK
[prenta uppsett í dálka] 158. fundur

[22:07]

Frsm. allshn. (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég þakka þá umræðu sem hér hefur farið fram um þetta mál en það hefur sýnt sig sem eðlilegt er að alþingismenn hafa miklar áhyggjur af því hrikalega vandamáli sem hér er um að ræða. Ég vildi endurtaka það að nefndin lítur svo á að það beri að skoða þessi mál í heild og m.a. ef um breytta refsiramma er að ræða verði þá skoðað í samhengi við refsiramma í öðrum málaflokkum þar sem um alvarleg afbrot er að ræða, m.a. í afbroti kynferðismála sem voru m.a. nefnd af hv. 13. þm. Reykv. og ég er sammála því sem hún sagði um það mál.

Vissulega komu fram efasemdir hjá þeim aðilum sem nefndir eru í nefndarálitinu um hvort hertar refsingar kæmu að notum í öllum tilfellum. Því miður er það svo að margir sem stunda þessi afbrot eru það illa á sig komnir að þeir eru ekki með það ofarlega í huga hvort refsingin er meiri eða minni en vafalaust er það bundið við persónur og það er bundið því hvað þessi afbrot eru alvarleg og hve mikill ásetningur er þar á baki hjá þeim sem stýra þessu bak við tjöldin.

Ég ætla ekki að dæma um þetta en ég tel eðlilegt að málinu verði vísað í heildarskoðun enda hefur verið tekið undir það af þeim sem hafa talað hér.