Rannsóknir í ferðaþjónustu

Mánudaginn 03. júní 1996, kl. 22:28:33 (7105)

1996-06-03 22:28:33# 120. lþ. 158.30 fundur 76. mál: #A rannsóknir í ferðaþjónustu# þál. 18/1996, ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 158. fundur

[22:28]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Eins og kom fram hjá hv. formanni samgn. í framsögu fyrir þessu nefndaráliti, hef ég skrifað undir málið með fyrirvara. Ég var á þeirri skoðun að það hefði verið eðlilegra að þetta mál hefði fengið sömu afgreiðslu og stefnumótun í grænu ferðamennskunni og að málinu hefði verið vísað til ríkisstjórnarinnar því að það hefði mátt gera með sömu rökum því að í stefnumótunarplaggi ráðherrans þar sem fjallað er um menntun og rannsóknir í ferðaþjónustu er búið að taka inn rannsóknaþáttinn, það er fjallað um gagnamiðstöð sem nefnd er í þál. og einnig hvað varðar menntunina. En þar sem það var meiri hluti í nefndinni fyrir því að málið fengi þessa afgreiðslu og ég hef talið mjög mikilvægt að rannsóknir í ferðaþjónustu verði efldar, því þetta er einn helsti vaxtarbroddurinn í atvinnulífinu hjá okkur, þá vildi ég leggja þessu máli lið með því að skrifa undir tillöguna en þó með fyrirvara.

[22:30]

Ég tel óeðlilegt að tiltaka í slíkri tillögu hvar rannsóknir skuli fara fram, enda má sjá það í stefnumótun ráðherrans í ferðamálum varðandi rannsóknir og menntun að þar er ekki tekin afstaða til staðsetningar, þ.e. hvar þessi vinna fer fram. Ég lít því ekki á þessa tillögu sem viljayfirlýsingu samgn. um það hvar þessi rannsóknavinna fari fram á landinu. Það tel ég að sé annarra að ákveða en þeirra sem samþykkja eða leggja fram tillögu um rannsóknir í ferðaþjónustu. Rannsóknir út af fyrir sig eru nauðsynlegar, ég get tekið undir það og styð það bæði í tillögunni og í stefnumótun ráðherrans sem komin er fram. En það er annarra að ákveða hvar þær skuli fara fram.

Ég vil einnig gagnrýna það í þessu máli að ferðamálafræðingar, þeir sem eru menntaðir til að sinna þessum störfum og jafnvel þessum rannsóknum, var ekki gefinn kostur á að senda inn umsögn um þetta mál. Þeir hafa lýst því yfir að þeir eru andvígir því að tekin sé ákvörðun um það hvar þessi rannsóknavinna skuli fara fram og hafa komið þeim mótmælum á framfæri við mig, þeir og þeirra félagsskapur. Ég vil því gagnrýna það, þó svo að ég telji mjög mikilvægt að það verði farið í þessa vinnu við rannsóknir í ferðaþjónustu.

Varðandi sérstakan sjóð, rannsóknasjóð, þá er ég sammála því sem kom fram hjá fulltrúum þeim sem komu á fund nefndarinnar að það þætti ekki eðlilegt að settur yrði sérstakur sjóður á laggirnar. Ég tek undir að það er eðlilegt að rannsóknir verði fjármagnaðar með öðrum hætti enda margir sjóðir sem styðja rannsóknir á sviði atvinnulífsins. Ég tel að ferðamennskan og ferðaþjónustan eigi að falla undir þá eins og aðrar atvinnugreinar í landinu.

Að öðru leyti vil ég þakka fyrir að menn hafa verið sammála um að efla rannsóknir í ferðamennsku og tel það góðra gjalda vert.