Notkun steinsteypu til slitlagsgerðar

Mánudaginn 03. júní 1996, kl. 22:49:47 (7115)

1996-06-03 22:49:47# 120. lþ. 158.31 fundur 89. mál: #A notkun steinsteypu til slitlagsgerðar# þál. 19/1996, GE
[prenta uppsett í dálka] 158. fundur

[22:49]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Ég kem aðeins upp til þess að þakka hv. samgn. fyrir snöfurmannleg vinnubrögð og sérstaklega vil ég þakka hv. formanni samgn. fyrir að standa við þau fyrirheit sem hann gaf fyrr í vetur þegar þáltill. þessi var til umfjöllunar um að hann skyldi leggja sitt af mörkum til þess að koma málinu í gegn.

Þetta er þriðja þingið sem málið hefur verið í umfjöllun og það er einhvers staðar á milli 12 og 15 núverandi og fyrrverandi þingmenn sem hafa verið meðflutningsmenn. Það sýnir að menn hafa verið sáttir við þetta mál sem hér er á ferðinni en af einhverjum ástæðum hefur mönnum þótt það þurfa trúlega meiri þroska í umfjöllun þingsins. Það er kannski þannig sem þetta er.

Ég er sannfærður um að með samþykkt tillögunnar erum við að styrkja atvinnustarfsemi í landinu. Við erum að auka notkun varanlegra íslenskra efna í slitlagsgerð, við erum með umhverfisbætandi efni og við erum að gæta aukinnar hagkvæmni.

Ég vil einnig nota tækifærið, herra forseti, til að þakka iðnn. sérstaklega fyrir umfjöllun um málið. Í fskj. sem fylgir með nefndaráliti kemur fram með raunverulega skarpari orðun, markvissari umsögn en jafnvel í tillögunni sjálfri. Ég tel ástæðu til að þakka og ég lít til þess að málið verði okkur mjög til góða.