Trúnaðarsamband fjölmiðlamanna og heimildarmanna

Mánudaginn 03. júní 1996, kl. 23:00:26 (7120)

1996-06-03 23:00:26# 120. lþ. 158.35 fundur 261. mál: #A trúnaðarsamband fjölmiðlamanna og heimildarmanna# þál., Frsm. SP (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 158. fundur

[23:00]

Frsm. allshn. (Sólveig Pétursdóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá allshn. á þskj. 1143, um till. til þál. um endurskoðun á lagaákvæðum um vernd trúnaðarsambands fjölmiðlamanna og heimildarmanna þeirra.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið sendar umsagnir frá dómsmrn. og Blaðamannafélagi Íslands. Tillagan fjallar um endurskoðun á gildandi lögum um vernd trúnaðarsambands fjölmiðlamanna og heimildarmanna þeirra. Sérstaklega verði 53. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, skoðuð og mat lagt á hvort þörf sé á frekari löggjöf sem miði að því að tryggja aðstöðu blaðamanna og annars fjölmiðlafólks við störf sín. Í umsögn dómsmrn. er bent á að dómsmrh. hafi þegar falið réttarfarsnefnd að framkvæma heildarskoðun á lögum um meðferð opinberra mála og er þar lagt til að þetta mál verði tekið til sérstakrar athugunar í því sambandi.

Með hliðsjón af framansögðu leggur allshn. til að tillögunni verði vísað til ríkisstjórnarinnar. Jóhanna Sigurðardóttir sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykk áliti þessu.

Undir nefndarálitið rita allir nefndarmenn allshn. nöfn sín.