Frumvarp um heilbrigðisþjónustu

Þriðjudaginn 04. júní 1996, kl. 10:06:28 (7147)

1996-06-04 10:06:28# 120. lþ. 160.93 fundur 340#B frumvarp um heilbrigðisþjónustu# (aths. um störf þingsins), SvG
[prenta uppsett í dálka] 160. fundur

[10:06]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Um leið og ég tek undir það sem fram kom hjá hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni varðandi 13. dagskrármálið, að það hefur í raun og veru ekki verið gert ráð fyrir því eða gengið frá því með samkomulagi á neinn hátt að þetta mál næði lendingu á þeim knappa tíma sem eftir er nema menn vilji vera hérna lengur fram eftir sumri sem getur út af fyrir sig verið og má segja að stjórnarmeirihlutinn hafi viljað það. Þinginu átti reyndar að ljúka 15. maí og við erum hér enn þannig að í sjálfu sér er það í valdi stjórnarmeirihlutans en ekki okkar hversu langan tíma þingið tekur. En ég staðfesti það sem hv. þm. sagði að það kemur á óvart að þetta mál skuli vera á þessum blöðum í dag og sérkennilegt ef ætlast er til þess að tekinn verði sá tími sem þarf í málið því að það er vafalaust talsverður tími sem umræða um þetta mál tekur.

Jafnframt vil ég vekja athygli á því, hæstv. forseti, vegna orða sem féllu hér áðan um lok þessa þings, sem e.t.v. er að ljúka á næsta sólarhring eða svo, að það hefur ekki verið gert neitt venjulegt samkomulag. Það hefur ekki verið gert neitt samkomulag um lok þinghaldsins í einstökum atriðum. Það er mjög óvenjulegt og stafar fyrst og fremst af því m.a. að keyrð voru í gegn mál sem stjórnarandstöðuþingmenn töldu að ekki væri boðlegt að fengju þá meðferð sem þau fengu og það varð til þess að hér var slitinn sundur eðlilegur friður um lok þingsins.