Frumvarp um heilbrigðisþjónustu

Þriðjudaginn 04. júní 1996, kl. 10:08:05 (7148)

1996-06-04 10:08:05# 120. lþ. 160.93 fundur 340#B frumvarp um heilbrigðisþjónustu# (aths. um störf þingsins), RG
[prenta uppsett í dálka] 160. fundur

[10:08]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég hafði ekki litið augum þessa dagskrá fyrr en ég gekk í þingsal og ég verð að segja að svo lengi lærir sem lifir. Kom mér mjög á óvart að sjá það að þetta mál væri komið á dagskrá. Ég tek undir orð hv. 9. þm. Reykn., Guðmundar Árna Stefánssonar og tek það að sjálfsögðu fram að hann sótti samráðsfundi þingflokksformanna við forseta í gærkvöld í fjarveru minni og ég geri mér grein fyrir að þetta hafi verið tekið fyrir þar.

Þetta er búið að vera erfitt þing og það hefur dregist um mánuð eins og hér hefur komið fram. Við höfum verið í stórum og erfiðum málum. Það sem hefur einkennt þingið og allt atferli fyrir utan samráð forseta við þingflokksformenn, sem ég vil hér úr ræðustól árétta að hefur verið alveg sérstaklega gott og hann með lipurleika hefur reynt að gera gott úr því sem erfitt hefur verið, er hið fullkomna áhugaleysi á að reyna að eiga gott samstarf við stjórnarandstöðuna. Öll stóru málin hafa verið tekin á dagskrá. Öll hafa þau verið keyrð í gegn í lagasetningu þrátt fyrir öll andmæli, þrátt fyrir varnaðarorð og sama hversu langan tíma það hefur tekið. Þetta hefur einkennt störf hins mikla meiri hluta hér.

Þetta mál, 13. mál á dagskrá fundarins, hefur verið í umræðunni á milli þingmanna. Það hefur verið gagnrýnt að það skuli eiga að reyna að keyra málið í gegn á lokadögum þingsins og ég vek athygli á því, virðulegi forseti, þó að það muni að sjálfsögðu koma fram í umræðunni, að þetta samráðsráð er leikur einn að setja á laggirnar án þess að lögfesta það. Það er annars eðlis og eitthvað sem við tökum upp í efnisumræðu málsins. En ég harma það að þrátt fyrir hið góða starf sem við höfum innt af hendi í þinginu, þrátt fyrir það hvernig við höfum brugðist við og unnið í öllum þeim málum sem ríkisstjórn og einstökum ráðherrum hefur dottið í hug að setja á dagskrá, þá skuli það gerast að í dag í byrjun júní, skuli mál vera sett á dagskrá til 1. umr. Það hlýtur að kalla á allsherjarumræðu um heilbrigðismál.