Frumvarp um heilbrigðisþjónustu

Þriðjudaginn 04. júní 1996, kl. 10:14:52 (7152)

1996-06-04 10:14:52# 120. lþ. 160.93 fundur 340#B frumvarp um heilbrigðisþjónustu# (aths. um störf þingsins), SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 160. fundur

[10:14]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Vegna þess sem kom síðast fram hjá hv. þingflokksformanni Sjálfstfl. um 15. málið á dagskrá, þá vil ég rifja það upp með honum fyrst hann er búinn að gleyma því að þetta mál kom á dagskrá fyrir nokkrum vikum síðan, enda var það komið inn í þingið fyrir réttan tíma og átti þess vegna rétt á því að komast á dagskrána. Það háttaði hins vegar þannig á þeim tíma eins og stundum áður og stundum síðar, að dagskráin fór úr böndum og 1. flm. fékk aldrei tóm til þess að mæla fyrir málinu.

Ég hef síðan ítrekað nefnt það við forseta í lok funda með forseta að það væri áhugi á því að fá að mæla fyrir þessu máli og það er margoft búið að lofa því að það komi á dagskrá. Ég verð að segja það alveg eins og er að mér finnst það engin ofrausn þó stjórnarandstæðingur fái að mæla fyrir málinu sem hann kom með inn á réttum tíma á næstsíðasta degi fyrir skilafrest. Og ég verð að segja það, herra forseti, að þar sem stjórnarliðar hins vegar líta á það sem sjálfsagðan hlut að stórmáli sem þeir eru með, álitamáli, ágreiningsmáli, sé troðið hér inn og þegar verið er að stilla þessu upp hlið við hlið, þá skil ég ekki, herra forseti, hvers lags þing þetta er sem hér er rekið. Er þetta algert framkvæmdarvaldsþing? Skiptir nákvæmlega engu máli hvað óbreyttur þingmaður ber fram þó hann geri það rétt og á réttum tíma? Snýst þetta allt um það að mál sem einstaka ráðherrar vilja koma í gegn, með ofbeldi ef ekki vill betur, nái fram að ganga?

Ég hef ekki langa þingreynslu eins og menn vita. En ég verð að segja það rétt eins og er, mér er ofboðið.