Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Þriðjudaginn 04. júní 1996, kl. 10:25:10 (7160)

1996-06-04 10:25:10# 120. lþ. 160.3 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, 364. mál: #A póstlög# (Póstur og sími hf.) frv. 107/1996, 408. mál: #A fjarskipti# (meðferð einkaréttar ríkisins) frv. 99/1996, Frsm. minni hluta GÁS
[prenta uppsett í dálka] 160. fundur

[10:25]

Frsm. minni hluta samgn. (Guðmundur Árni Stefánsson):

Virðulegi forseti. Án þess að ég ætli að fara að setja á langar ræður við 3. umr. málsins, þá held ég að það sé nauðsynlegt að draga saman nokkur meginatriði þessa máls nú þegar það liggur fyrir í endanlegum búningi í þinginu. Mitt mat er það að við lok 2. umr. hafi umræðan kannski loks tekið á sig þá mynd sem nauðsynleg var og við farin að nálgast kjarna málsins í orðræðum við hæstv. ráðherra og við náð honum úr felum og fengið hann á tal um ákveðin, mjög mikilvæg en um leið viðkvæm álitaefni sem í frv. eru. Þá er ég fyrst og síðast að ræða um stöðu starfsfólks. Ég er í því sambandi að ræða um stöðu Alþingis gagnvart framhaldi málsins og þá væntanlega hugsanlegri sölu fyrirtækisins og í þriðja lagi er ég að ræða um stöðu Pósts og síma hf. í nýju og gjörbreyttu andrúmslofti samkeppni hér á landi sem mun yfir okkur ganga að óbreyttu 1. janúar 1998. Mér fannst örla á því við lok 2. umr. að hæstv. ráðherra og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson væru farnir að eiga við okkur tal um þessi raunverulegu álitaefni þannig að hægt væri að taka á þessum málum.

Ef ég vík kannski örfáum orðum fyrst að því sem snýr að hinu háa Alþingi og framhaldi málsins í því sambandi. Hæstv. ráðherra hefur ítrekað í þessari umræðu lýst þeirri skoðun sinni og því viðhorfi sínu að ekki komi til álita svo lengi sem hann ráði ríkjum í hinu háa ráðuneyti að setja þetta fyrirtæki á söluskrá né einstakar deildir þess. Það er auðvitað mjög nauðsynlegt að undirstrika þetta viðhorf ráðherrans og það segir okkur að það muni þá ekki gerast væntanlega á næstu þremur árum.

Mitt áhyggjuefni og raunar margra annarra hv. þingmanna var hins vegar það að frv. væri hugsanlega þannig úr garði gert að atbeina ráðherrans þyrfti tæplegast til eða með öðrum orðum það þyrfti aldrei á það að reyna að hæstv. ráðherra kæmi með málið inn á Alþingi, óskaði heimildar Alþingis á sölu fárra eða margra hluta í þessu fyrirtæki, heldur væri frv. sjálft þannig úr garði gert og væntanleg lög að stjórnir fyrirtækjanna gætu gert það. Að hluta til staðfestist það í umræðunni, í lok umræðunnar í gær þegar hæstv. ráðherra staðfesti þann skilning að þegar um væri að ræða svokölluð samrunafyrirtæki, þ.e. fyrirtæki sem einstök hlutafélög Pósts og síma munu ganga inn í, kaupa sig inn í eða stofna með öðrum aðilum, þá færi með þau á annan hátt, þ.e. þar væri heimilt samkvæmt laganna hljóðan að stjórnir fyrirtækjanna gætu farið með eignaumsýslu eins og þær teldu skynsamlegast og best og það þyrfti ekki að kalla hið háa Alþingi að því verki. Alþingi er búið að veita heimild til væntanlegra stjórnenda þessara fyrirtækja að þeir gætu farið með eignarhlutana eins og þeir telja best, selt, keypt og verslað. Þetta er auðvitað mjög nauðsynlegt að hv. alþm. átti sig á og geri sér glögga grein fyrir hvað þessi samþykkt í raun felur í sér.

Nú geri ég mér enga grein fyrir því og kannski ekki nokkur maður á þessu stigi í hversu miklum mæli menn sjá framtíðina í þessu ljósi, þ.e. í hversu miklum mæli Póstur og sími hf. telur þjónustunni best borgið með samstarfi við þriðja aðila, erlenda aðila eða aðra samkeppnisaðila. En það er ekkert ósennilegt vegna hinnar öru þróunar málanna að fljótlega árið 1998, á fyrstu mánuðum og missirum þess árs sjái forsvarsmenn Pósts og síma hf. þann valkost hagkvæman að taka upp samstarf og rugla saman reytum við aðra aðila á markaðnum. Og við skulum átta okkur á því að um leið liggur það fyrir að heimildin til sölu í slíkum fyrirtækjum er heimil án atbeina Alþingis. Ég held að það sé alveg bráðnauðsynlegt að við áttum okkur á því að þetta er það sem frv. sem hér liggur fyrir veitir heimildir til. Dregur því mjög úr annars ágætum yfirlýsingum hæstv. ráðherra um hans vilja til þess að Alþingi fái að koma eðlilega að því máli og því álitaefni, verði sú skoðun ofan á að selja eigi hluta úr fyrirtækinu eða það allt saman. Varnaðarorð okkar, margra stjórnarandstæðinga, í upphafi þessarar umræðu um að það mætti líta á þetta frv. sem einkavæðingarfrv. þar sem heimilt væri að fara bakdyramegin með málið fram hjá Alþingi, eiga því við rök að styðjast og hæstv. ráðherra hefur staðfest það hvað þennan þátt málsins varðar. Um það þarf þá ekki að deila mikið lengur og menn horfa á málið með opnum augum í því samhengi.

Enn eru þó skiptar skoðanir um annan þátt málsins, þ.e. að þótt það komi til stofnunar dótturfyrirtækja alfarið í eigu Pósts og síma hf. og ríkissjóðs, þá hefur hæstv. ráðherra lýst því yfir að áskilnaður um samþykki Alþingis í þeim tilfellum sé skýr og eigi við rök að styðjast og að ekki verði farið í neina eignaumsýslu í dótturfyrirtækjum sem alfarið eru í eigu ríkisins án þess að Alþingi komi að þeim málum.

[10:30]

Ég fagna þeim yfirlýsingum mjög ákveðið því að mér fannst einnig orðalag frv. loðið hvað það varðar og kallaði fram spurningar um túlkanir. Það orðalag hefur að sönnu ekkert breyst. Enn þá hef ég af því áhyggjur að á seinni tímum geti komið til þess að menn geti skrumskælt það á þann veg sem mönnum þykir best. Þá á ég ekki von á því frá hæstv. samgrh. en hann situr auðvitað ekki um eilífð alla á sæti sínu í sínu háa ráðuneyti. Það kemur maður eftir hann og hvað sá gerir og hvernig augum hann lítur þetta silfur og þann texta sem við erum að samþykkja get ég ekkert fullyrt um né nokkur annar þannig að sú áhætta er þarna fyrir hendi. Þess vegna árétta ég það við 2. umr. að það væri mikilvægt að skilningur stjórnarmeirihlutans væri alveg skýr í textafrv. sjálfu, a.m.k. í athugasemdum með því. En því miður var ekki komið til móts við þær gagnlegu ábendingar að mínu mati þannig að menn ætla greinilega að ljúka þessu máli með það að sumu leyti talsvert opið og það vekur upp efasemdir. Þetta var um einkavæðingarþátt málsins.

Í öðru lagi staldra ég við stöðu starfsmanna. Án þess að fara í gegnum allt það stafróf á nýjan leik kom það hins vegar fram í umræðum í gær og raunar staðfest að viðræður hins háa ráðuneytis við fulltrúa starfsmanna hafa verið af ákaflega skornum skammti. Hér var eytt nokkru púðri af hálfu hæstv. ráðherra að eiga orðastað við fulltrúa starfsmanna með óbeinum hætti, vitna til greinar forsvarsmanna þeirra stéttarfélaga sem hlut eiga að máli, satt að segja með ákaflega vafasömum hætti að mínu áliti en ég hefði talið skynsamlegra og betra af hálfu hins háa ráðuneytis að hafa nýtt tímann á þessum vordögum og síðla vetrar með því að eiga hreinskiptin samtöl og beinskeytt um þau álitaefni og þær stóru spurningar sem hafa eðlilega vaknað hjá þeim 2.500 starfsmönnum sem þarna hafa haft sína framfærslu og sitt lifibrauð af. Sú leið var ekki valin, heldur var tekin sú ákvörðun í þessu efni eins og svo mörgum öðrum í þessu stóra máli að skilja málin eftir í stórum spurningarmerkjum. Það eru auðvitað engin svör, hvorki fyrir hið háa Alþingi og þaðan af síður fyrir starfsfólk þegar Alþingi á að afgreiða þetta stóra mál frá sér að vísa til þess að þriggja manna undirbúningsnefnd manna, sem ég kann engin deili á og enginn veit hverjir verða, muni hafa til þess heimild og vald að ganga til samninga núna í sumar og á haustdögum við þessa stóru hópa starfsmanna. Sú nefnd hefur í raun allt of lítið fylgifé með sér, þ.e. það eru engin fyrirmæli í frv. til nefndarinnar í einstökum atriðum hvernig hún eigi að ganga til þeirra samninga, hvaða meginviðmið eigi að hafa að leiðarljósi. Í því sambandi hef ég sagt sem svo að það sé ekki hinu háa Alþingi sæmandi að framselja vald sitt með jafnskýlausum hætti til nefndar ráðherra úti í bæ í jafnviðkvæmum álitamálum og munu sannanlega koma upp, þ.e. viðræður um framtíðarstöðu, réttarstöðu og skyldur starfsmanna því að eins og margsinnis hefur komið fram skilar frv. sjálft auðu í allt of mörgum tilfellum þegar kemur að þessu. 8. gr. frv. svarar þessu ekki nema að litlu leyti. Þess vegna hafa fulltrúar stjórnarandstöðunnar í samgn. haft það mjög á orði að nauðsynlegt væri að tryggja það í þessu frv. að lögformslegs atbeina starfsmanna í þessari undirbúningsnefnd væri a.m.k. að finna, þ.e. að starfsmenn gætu með fulltingi Alþingis og löggjafarvaldsins sest að þessu borði fullmektugir og með stöðu og verið hluti af þessum undirbúningi, verið einn hluti af þessari þriggja manna nefnd. Það væri auðvitað kærkomið á síðasta sprettinum að hæstv. ráðherra lýsti því yfir að hann hefði í hyggju að a.m.k. einn af þessum þremur aðilum í undirbúningsnefndinni með löggerningavaldið yrði skipaður af starfsmönnum þannig að starfsmennirnir tækju þar með þá virkan þátt í heildarundirbúningi að stofnun hlutafélagsins. Hæstv. ráðherra hafði um það mörg orð í umræðunum í gær að honum hefði heyrst á einhverjum starfsmönnum að þeir vildu jafnvel kaupa sig inn í fyrirtækið og það sýndi að sumu leyti áhuga þeirra á því að mál gengi fram með þeim hætti sem hann hefði lagt upp með en hann getur verið trúr þessum viðhorfum sínum með þeim hætti að kalla starfsmenn að þessu borði og veita þeim fulltingi í undirbúningsnefndinni. Það mundi strax laga málið.

Einnig er rétt að undirstrika það þó að hæstv. ráðherra hafi lýst því yfir að hann væri í prinsippinu og hjarta sínu andvígur því að fulltrúar starfsmanna ættu seturétt í stjórnum fyrirtækja, ég skildi hann þannig í gær, þá held ég að nauðsynlegt sé að halda því til haga að þessi sjónarmið hæstv. ráðherra eru aftan úr gamalli fortíð og eiga ekki við. Þegar menn eru í aðra röndina að lýsa því yfir að þetta frv. sé vísbending um að Póstur og sími sé að ganga inn í nýja öld, inn í nýjar víddir, eru menn á sama tíma að halda uppi eldgömlum málflutningi þar sem því er hafnað að fulltrúar starfsmanna hafi nokkuð með það að gera að koma nálægt stjórn fyrirtækja. Ég er þessu gersamlega andvígur og mitt álit var það að einmitt viðhorf stjórnenda fyrirtækja og þeirra sem standa í fyrirtækjarekstri væri í þá veru að þeir vildu leita lags og vildu leita möguleika á því að kalla fulltrúa starfsmanna að þessu. Einu sinni var þetta kallað atvinnulýðræði. Það má kalla þetta mörgum öðrum nöfnum. En meginatriðið er það að ef það er vilji stjórnarmeirihlutans að vinna málið áfram í skárri friði en verið hefur þá væri þetta markvert skref í þá átt að hæstv. ráðherra léti af fortíðarkreddum og skipti um skoðun og segði það hátt og snjallt að fulltrúar starfsmanna ættu auðvitað að koma inn og vera fimm af sjö fulltrúum í stjórn þessa fyrirtækis. Það mundi strax breyta blæ þessa máls stórkostlega og gera það skárra úr garði en þegar er.

Ef ekki verða á þessu gerðar breytingar hef ég verulegar áhyggjur að það verði ófriður um málið, að undirbúningur að stofnun þessa hlutafélags verði með braki og brambolti vegna þess að allt púðrið og öll eljan fari í það að eiga í hugsanlegum illdeilum við fulltrúa starfsmanna og það er vont. Það er vont fyrir starfsmennina, það er vont fyrir hið væntanlega hlutafélag og ekki er það gott fyrir hið háa ráðuneyti, það veit ég því að það hefur ýmsum hnöppum að hneppa. Ég held að það sé mikilvægt á þessu stigi málsins að menn a.m.k. breyti andrúmsloftinu og rétti fram sáttarhönd, vísbendingu í þá veru að stjórnarmeirihlutinn með hæstv. ráðherra í fararbroddi ætli sér að ræða við starfsmenn á jafnréttisgrundvelli og freista þess að leita lausna á álitamálum og stórum spurningum um framtíð þessa fólks. Það væri strax til bóta. Mér fannst eins og ég sagði í upphafi þessara orða minna nú nokkuð bera keim af því í lok 2. umr. að ráðherra væri að mýkjast og vildi reyna að fara þessa mjúku leið og ég vona að hann hafi með fullri virðingu, virðulegi forseti, vaknað vel og sé enn þá í sama hamnum í þeim efnum.

Að lokum vildi ég staldra við enn eitt atriði sem lýtur raunar að breytingartillögu sem stjórnarliðar hafa farið fram með og samþykkt var við 2. umr. og er að finna í fjarskiptalögum og lýtur að því að talsíminn verði eitt gjaldsvæði. Ég lýsti því í atkvæðaskýringu í gær að mér fyndist ákaflega tvíeggjað að fara fram með það mál í þeim búningi sem hér um ræðir. Á því hefur verin vakin athygli enn og aftur og því hefur algerlega verið ósvarað af hálfu forsvarsmanna stjórnarflokkanna, af hálfu hæstv. ráðherra og af hálfu formanns samgn. hvernig þetta ákvæði samræmist þeim breytingum sem verða í Evrópu samkvæmt tilskipunum ESB á árinu 1998. Ég vænti þess og trúi því að 1. flm. tillögu um sama efni, hv. þm. Ragnar Arnalds, haldi til streitu tillögu sinni um sama efni en sem gerir ráð fyrir því að þessi stóra réttarbót fyrir fólk úti á landsbyggðinni verði að veruleika núna á þessu ári eftir einn mánuð þegar alveg klárlega er heimild til þess að hafa uppi slíkt háttalag og slíka verðstýringu. Með öðrum orðum, sú tillaga gerir ráð fyrir því að menn séu þó með þessa réttarbót í hendi í eitt og hálft ár. Hvað síðan tekur við 1. janúar 1998 get ég auðvitað ekki fullyrt upp á punkt og prik né nokkur annar. Það er alveg ljóst hvað sem öðru líður er að það verður gerbreytt landslag í þessum efnum. Samkeppni verður óhjákvæmileg og eigendur grunnnetsins verða skyldugir til þess að selja nánast þeim sem uppfyllir lágmarksskilyrði aðgang að því neti til þess að selja þjónustu sína aftur hingað og þangað. Reynsla annarra af slíkri opnun í hliðstæðum málum eins og rafmagninu í Bretlandi er auðvitað sú að það verður ekki nokkur heimild til þess að Alþingi geti heimtað það af hugsanlegum samkeppnisaðila að hann þjónusti allt landið. Væntanlega mun það verða með þeim hætti að samkeppnisaðilar munu koma hingað, íslenskir eða erlendir, af hinum ýmsu sviðum og byrja á því að mjólka það svæði sem 65% þjóðarinnar búa á, þ.e. suðvesturhorn landsins.

Þá vakna þær spurningar hver verður samkeppnisstaða Pósts og síma hf. við slíkar aðstæður? Getur Póstur og sími staðist slíka samkeppni þegar það er með skýrum og klárum áskilnaði um að það eigi að þjónusta allt landið á einu og sama verðinu? Eða hitt sem menn hafa einnig vakið athygli á ef sú aðferð verður reynd að setja það í almennar starfsreglur með nýjum rekstraraðilum að þeir verði líka að þjónusta allt landið á sama verði ef þeir ætla að koma inn á markað. Trúa menn því virkilega að Eftirlitsstofnun ESA heimili slíkt, að samkeppnin, sem er að ríða yfir alla Evrópu og er raunar rauði þráðurinn í þessu frv., verði heft með þeim hætti að það sé ekki á færi nema eins aðila þegar allt kemur til alls að stunda talsímaþjónustu, internetsþjónustu, fjarskiptaþjónustu í víðustu merkingu þess orðs? Ég held að það sé ekki nokkur maður sem láti sér það til hugar koma að málið geti gengið fram með slíkum hætti. Ég held að það sé alveg af og frá. Þess vegna finnst mér því miður að með þetta annars ágæta mál um að jafna stöðu pósts í þéttbýli og dreifbýli, með þetta langþráða markmið sé farið fram með talsverðri léttúð og menn fari hina auðveldu leið áfram með það mál.

[10:45]

Segjum sem svo að heim í hérað komi hv. þm. á borð við Jón Kristjánsson og segi: ,,Elsku vinir. Nú er þetta í höfn. En það eru bara tvö ár í það.`` Og lætur auðvitað ekki fylgja með: ,,En að vísu er það þannig að eftir tvö ár gæti ýmislegt gerst og þær breytingar gætu orðið að kannski verður þetta ekki heimilt. En við látum á þetta reyna og sjáum hvað setur.`` Þetta er allt of létt í vasa. Og svo að ég gleymi ekki að nefna hv. þm. Egil Jónsson sem mun örugglega flytja hluta af þessari messu sem ég var að fara með, heima í héraði.

Þess vegna hlýtur maður að spyrja. Það hlýtur að vekja upp ákveðna tortryggni og efasemdir. Af hverju í veröldinni hafa menn ákveðið að velja þennan tímapunkt, sex mánuðum eftir að samkeppnin og frelsið halda innreið sína? Þá leggur stjórnarmeirihlutinn til að hinu nýja fyrirtæki, Pósti og síma hf., verði gert að gera landið að einu gjaldsvæði. (Gripið fram í.) Styrkja samkeppnina? Ég var að fara yfir það, hv. þm., áðan hvernig það landslag liti út og hræddur er ég um að það verði erfitt líf. Ég vænti þess og vona svo sannarlega að hv. stjórnarmeirihluti taki undir með okkur hinum um það að þessi réttarbót fyrir landsbyggðarfólk verði að veruleika og raunveruleg réttarbót með því að samþykkja breytingartillögu hv. þm. Ragnars Arnalds, undirritaðs og fleiri um að þetta verði gert meðan það er heimilt, þ.e. strax hér og nú. Það er ekki góður bragur á því að vera að leika einhverja sýndarpólitík í þessu efni. Þetta er það stórt mál og mikilvægt mál fyrir kjör fólks úti á landi að við eigum ekki að fara yfir það með neinni léttúð og skilja það eftir hálfkarað. Ég vona svo sannarlega, þrátt fyrir allt, að þetta geti gengið eftir. Ég get ekkert fullyrt um það fremur en nokkur annar en mér sýnist að allar vísbendingar og allar ábendingar sérfræðinga í þeim efnum bendi til hins gagnstæða og ég hef af því sannanlegar áhyggjur og ég veit að innst inni hafa forsvarsmenn þessa máls það sömuleiðis, eins og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, þannig að þessi er þátturinn málsins í heild breidd.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að orðlengja þetta. Ég vona svo sannarlega að þrátt fyrir öll mín viðvörunarorð verði sú lagabreyting sem hér er að eiga sér stað til góðs fyrir þorra starfsmanna, verði til góðs fyrir þennan mikilvæga þjónustuþátt sem hér um ræðir þrátt fyrir það að undirbúningur og allt málið sé eins og ég hef hér lýst og ætla ekki að endurtaka. Ég sagði í atkvæðaskýringu í gær að Alþfl. ætlaði ekki á lokastigi málsins að reyna að bregða fæti fyrir málið en vísar hins vegar allri ábyrgð á málatilbúnaðinum og málsmeðferð á hendur ríkisstjórninni og mun þess vegna sitja hjá við endanlega afgreiðslu þess. Við höfum sagt það að við höfum verið til umræðu reiðubúin um það hvernig þessi mikilvæga þjónustustofnun gæti gengið inn í nýja öld og nýja tíma. Þar eru ýmsir valkostir og möguleikar. Þetta frv. því miður svarar því ekki nema að mjög litlum hluta. En sú umræða á alveg eftir að fara fram. Hæstv. ráðherra mun hafa, ef mál ganga fram sem horfir, altækt vald í málefnum fyrirtækisins. Ég vænti þess og vona að hann fari vel með það vald. Hins vegar vil ég minna á í bláendann að hann hefur lýst því yfir með skýrum og greinargóðum hætti að hinu háa Alþingi verði gert kleift á næstu mánuðum að fylgjast með undirbúningi að stofnun félagsins, fylgjast grannt með samningaviðræðum undirbúningsnefndar við starfsmenn og að öðru leyti fá að fylgjast mjög grannt með því hvernig þróun þessa mikilvæga þjónustufyrirtækis verður á næstu mánuðum, missirum og árum.