Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 04. júní 1996, kl. 11:18:31 (7163)

1996-06-04 11:18:31# 120. lþ. 160.6 fundur 421. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjármagnstekjur) frv. 97/1996, 422. mál: #A staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur# frv. 94/1996, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 160. fundur

[11:18]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Hér er til umræðu frv. sem hefur gengið undir vinnuheitinu fjármagnstekjuskattur. Um langan tíma hefur það verið krafa í þjóðfélaginu frá samtökum launafólks og ýmsum aðilum sem hafa viljað hafa áhrif í réttlætisátt að tekinn verði upp skattur á tekjur af fjármagni þannig að arðurinn af fjármagni verði skattlagður eins og tekjur sem fólk aflar sér með launavinnu eða á annan hátt. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er að finna yfirlýsingu um að slíkt kerfi verði tekið upp, að fjármagnstekjur verði skattlagðar. Ég hef verið því fylgjandi í mjög langan tíma að þetta verði gert og mér hefur fundist skipta miklu máli að þegar fjármagnstekjuskattur verður lagður á þá verði búið svo um hnúta að það verði arðurinn af fjármagninu sem verði skattlagður, þ.e. raunávöxtunin en ekki vextir sem færast upp samkvæmt öðru verðlagi. Að það verði hinar raunverulegu tekjur af peningunum sem verði skattlagðar en ekki það sem fólk leggur til hliðar. Að það verði meginhugsunin í þeim lögum sem sett yrðu.

Það sem núna er verið að gera hins vegar er að það er verið að búa til tvíþætt kerfi. Það er annars vegar kerfi þar sem launatekjur eða launafólk og lífeyrisþegar eru skattlagðir. Þar er skattprósentan 42%--47%. Það er svona hinn almenni maður. En síðan er sérstakt kerfi fyrir fjármagnseigendur með lágu skatthlutfalli, með 10%. Hér er gengið þvert á þær kröfur sem launahreyfingin hefur lengst af haldið fram, þ.e. að það ætti ekki að mismuna á þennan hátt. Verði frv. þessi að lögum er horfið frá þeirri grundvallarreglu í skattlagningu að skattleggja þegnana eftir greiðslugetu þeirra. Í raun má segja að þessari reglu sé snúið við verði frv. að lögum því það eru tekjuhæstu einstaklingarnir sem fá yfir helming tekna af fjármagni og munu því koma til með að greiða minnst til samfélagsins. Svona tvískipting skattkerfisins þekkist hvergi í hinum siðmenntaða heimi. Tvískipt tekjuskattskerfi eins og lagt er upp með í þessum tillögum opnar einnig nýjar leiðir til að skjóta tekjum undan skatti. Eigendur fyrirtækja, fjármagnseigendur og sjálfstætt starfandi aðilar geta ef frv. verður að lögum að mestu komist hjá skattlagningu. Í því sambandi vil ég vitna í álitsgerð sem kom frá skattrannsóknarstjóra en þar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Mjög oft fer saman arðsmóttaka og launagreiðslur frá sama aðila. Sömuleiðis er það oft og tíðum arðsmóttakandi sem ákveður arðsgreiðsluna. Með fjölgun hlutafélaga og einkahlutafélaga þar sem einstaklingsrekstur er færður yfir í félagaform munu fara saman í æ auknum mæli greiðsla á arði og greiðsla launa. Augljós er þá sú hætta að óeðlilega stór hluti greiðslna verði færður sem arður sem ella væri meðhöndlaður sem laun. Verður að telja öruggt að einhver hópur sjálfstætt starfandi einstaklinga muni breyta formi rekstrar síns í því skyni að lækka skattgreiðslur sínar með því að taka fé út úr félögunum í formi arðs að svo miklu leyti sem eigið fé félags leyfir slíkt.``

Þetta er úr álitsgerð skattrannsóknarstjóra ríkisins.

Þá vil ég vitna í grein sem Rannveig Sigurðardóttir, hagfræðingur BSRB, skrifar í Morgunblaðið, miðvikudaginn 29. maí. Hún segir þar m.a., með leyfi forseta:

,,Óvíst er hvort sú útfærsla á fjármagnstekjuskatti sem hér hefur verið tíunduð muni skila sér sem tekjur í ríkissjóð. Nefndin sem vann að þessum tillögum áætlar að skatttekjur ríkissjóðs aukist um 1 milljarð króna. Ljóst er að ef skattsvik aukast eins og leitt hefur verið líkum að hér að ofan, gæti nettóútkoman orðið neikvæð og tekjur ríkissjóðs því minnkað. Ríkissjóður þolir ekki tekjusamdrátt og því er hætt við að kostnaðurinn vegna skattalækkana hátekjufólks og aukinna skattsvika verði borinn uppi af launafólki og lífeyrisþegum í formi hærri tekjuskatta.``

Með öðrum orðum, það sem Rannveig Sigurðardóttir, hagfræðingur BSRB, segir í þessari blaðagrein er að hætta sé á því að við skattalækkanir fyrir stóreignafólkið og undanskot sem þar opnast hjá þeim hluta þjóðfélagsins, verði tekjumissi ríkissjóðs mætt með því að skattleggja hinn almenna launamann, enda er það gert.

Í framhaldi af þessu vil ég beina sjö spurningum til ríkisstjórnar Íslands í sambandi við þennan svokallaða fjármagnstekjuskatt:

1. Jaðarskattar á almennar launatekjur eru mjög háir og geta verið frá 42% og upp í 60%--70% þegar bótaskerðingar eru meðtaldar. Samkvæmt frv. um skatt á fjármagnstekjur verður jaðarskattur á arð, vexti og söluhagnað 10%. Ríkisstjórnin hefur skipað nefnd sem á að kanna leiðir til að lækka jaðarskatta. Telur ríkisstjórnin það brýnt forgangsverkefni að lækka jaðarskatta á tekjur sem fyrst og fremst er að finna hjá stóreignafólki og hátekjumönnum eins og gert er, í stað þess að láta eitt yfir alla ganga? Bæði Sjálfstfl. og Framsfl. lýstu því í síðustu kosningabaráttu að brýnt væri að lækka jaðarskatta en kjósendum var ekki sagt að stóreignafólk ætti að vera í fyrirrúmi og fá forgjöf. Kjósendum var ekki sagt að stóreignafólk ætti að vera í fyrirrúmi og fá sérstaka forgjöf.

2. Skattleysismörk hafa sífellt farið lækkandi frá því að staðgreiðsla skatta var tekin upp fyrir tæpum áratug. Er svo komið að lág laun eru skattlögð og skattleysismörk einstaklinga eru um 700 þús. kr. á ári og um 1,4 millj. hjá hjónum sem bæði vinna utan heimilis. Samkvæmt frv. um skatt á fjármagnstekjur verða skattleysismörk fyrir vexti, arð, húsaleigu og söluhagnað um 2.950.000 kr. á ári fyrir einstakling og um 5,9 millj. kr. fyrir hjón sem ekki stunda launaða vinnu en lifa af eignum sínum. Telur ríkisstjórnin brýnna að hækka skattleysismörk þessa fólks en þeirra sem vinna hörðum höndum fyrir lágum launum?

3. Samkvæmt upplýsingum ríkisskattstjóra munu breyttar reglur um skattlagningu fyrirtækja samkvæmt frv. um skatt á fjármagnstekjur geta leitt til þess að tekjuskattur 40 tekjuhæstu hluthafa landsins lækki um rúmlega 800 millj. kr. Góð afkoma fyrirtækjanna á m.a. rætur að rekja til launasamninga með litlum launahækkunum á undanförnum árum þar sem launþegar hafa orðið að taka á sig skerðingu tekna en jafnframt verið sagt að þeir myndu njóta þess síðar er aðstæður í atvinnulífi bötnuðu. Telur ríkisstjórnin sanngjarnt að þegar árangur þessara fórna launþega kemur í ljós í bættri afkomu atvinnurekstrar og hækkuðum tekjum eigenda fyrirtækja, sé sköttum velt af þessum aðilum yfir á almennt launafólk eins og gert er með frv. um skatt á fjármagnstekjur?

4. Samkvæmt upplýsingum ríkisskattstjóra mun skattstofn af arði, söluhagnaði, lækka um 740 millj. kr. Þar af er lækkun skattstofns þeirra 10% hjóna og einstaklinga sem hæstar tekjur hafa um 465 millj. kr. og munu skattar þeirra lækka um rúmlega 200 millj. kr. og tekjur hins opinbera samsvarandi. Telur fjmrh., sem beitt hefur sér fyrir lækkun barnabóta og framlaga til félagslegrar þjónustu, að þessi 10% tekjuhæstu þegnar landsins séu í meiri þörf fyrir aðstoð af hálfu ríkisins en barnafólk, sjúklingar og aldraðir?

5. Talið er að eigið fé Sameinaðra verktaka, sem að mestu hefur verið safnað í skjóli einokunaraðstöðu við framkvæmdir á vegum varnarliðsins, sé um 2,5 milljarðar kr. Verðmæti þess fyrir hluthafana eftir að hafa greitt skatt af söluhagnaði samkvæmt núgildandi lögum er talið vera um 1,5 milljarðar kr. Verðmæti þessara eigna fyrir hluthafana mun hækka um 750 millj. kr. eftir að hafa greitt skatt samkvæmt frv. um skatt á fjármagnstekjur og nýtt að fullu frestun á skattlagningu söluhagnaðar samkvæmt þeim. Telur ríkisstjórnin réttlætanlegt að auka verðmæti hermangsgróða einokunaraðila með þessum hætti?

[11:30]

6. Samkvæmt frétt í Morgunblaðinu fyrr á árinu um Sjóvá-Almennar var arður, sem greiddur var 10 einstaklingum sem tilgreindir voru í fréttinni, 14,3 millj. kr. Samkvæmt gildandi lögum er skattur þessara hluthafa af þeim tekjum 5,5--6,5 millj. kr. Samkvæmt frv. um skatt á fjármagnstekjur mun þessi skattur lækka í 1--1,5 millj. kr. Fjmrh. hefur margoft lýst þeirri skoðun sinni að þörf sé á að lækka tekjuskatta. Telur hann og ríkisstjórnin að brýnt sé að byrja á því verki með því að lækka skatta stóreignafólks og hátekjumanna? Og sérstaklega beini ég þeirri spurningu til Framsfl. hvort það sé stefna hans að hafa stóreignafólk í fyrirrúmi.

7. Verðmæti hlutabréfa þeirra 10 einstaklinga sem mest eiga í Sjóvá-Almennum er talið vera um 1 milljarður kr. miðað við markaðsverð bréfanna og um 600--700 millj. kr. eftir að greiddur hefur verið skattur af söluhagnaði samkvæmt núgildandi reglum. Með frv. um fjármagnstekjuskatt mun verðmæti eftir skatt af söluhagnaði hækka í 900 millj. kr. Á undanförnum árum hefur misskipting eigna í þjóðfélaginu aukist og þjóðarauðurinn færst í æ færri hendur. Telur ríkisstjórnin ástæðu til að hraða þessari þróun og auka þessa misskiptingu enn frekar eins og gert er með frv. um skatt á fjármagnstekjur?

Að lokum þetta. Það hefur komið fram frv. í þinginu um að fara aðra leið í þessum efnum en þá leið sem ríkisstjórnin leggur til. Sú leið er að mínum dómi ásættanleg og nær því markmiði sem ég tel eðlilegt að menn setji, að allir þegnar landsins sitji við sama borð gagnvart skattinum. Ég vek athygli á því og legg á það áherslu að þetta frv. fær ekki að koma inn í þingið aftur. Það er setið á þessu frv. Efh.- og viðskn. þingsins kemur í veg fyrir að frv. fái afgreiðslu við 2. umr. Ég vil vekja sérstaklega athygli á þessu og skulu það vera lokaorð mín.