Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 04. júní 1996, kl. 11:33:41 (7164)

1996-06-04 11:33:41# 120. lþ. 160.6 fundur 421. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjármagnstekjur) frv. 97/1996, 422. mál: #A staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur# frv. 94/1996, RG
[prenta uppsett í dálka] 160. fundur

[11:33]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Við erum að ræða svokallaðan fjármagnstekjuskatt og það er dapurt til þess að hugsa við hvaða aðstæður við ræðum þetta mál. Það er ekki eins og mörg okkar dreymdi um og trúðu á að hér á vordögum mundu alþingismenn stjórnar og stjórnarandstöðu sameinast um jákvæða aðgerð þar sem verið væri að jafna greiðslubyrði þeirra sem hafa tekjur, meiri og minni, til ríkisins og framlög manna til fjármögnunar velferðarkerfisins og samfélagsins sem við höfum svo falleg orð um á stundum heldur er það alveg öfugt eins og hér hefur komið svo berlega fram í umræðunni að það er verið að mismuna gróflega stóreigna- og hátekjumönnum annars vegar meðan launþegar borga eins og ævinlega skerf sinn, sína háu prósentu fram að þessu af launum sínum, eignum o.s.frv. Nú bætist við að meðan kallað er eftir að einstaklingar með litlar fjármagnstekjur greiði af vöxtum sínum það sem kemur í þeirra hlut að þá er lækkað á stóreignamanninum sem hingað til hefur nokkurn veginn í gegnum greiðslur af arði verið að leggja til sinn skerf. Þessi gjörningur og umræðan um lagasetninguna snertir réttlætið í skattheimtu og ég fullyrði það að allir réttsýnir menn vilja fjármagnstekjuskatt eins og fjármagnstekjuskattur sá er sem við höfum séð fyrir okkur og búist við að yrði lögfestur næðist einhvern tímann um það sátt að leggja slíkan skatt á.

Ég fullyrði að fólk vill borga skatt af tekjum sínum, þ.e. allir þeir launamenn sem ég hef kynnst vilja borga af launum sínum það sem til þarf og bera sinn skerf, jafnvel þeir sem lítið hafa, en þetta fólk vill að aðrir borgi af tekjum sínum hvers eðlis svo sem þær eru. Þarna komum við að réttlætishugmyndunum og hvernig við lítum á þessi mál. Í öllu sem lýtur að tekjuöflun ríkissjóðs erum við að nálgast málin út frá eigin viðhorfum okkar um þetta réttlæti, út frá eigin viðhorfum um hver eigi að borga hvað. Matið er ekki alltaf það sama og ákvarðanir sem teknar eru af stjórnvöldum eru ekki alltaf teknar út frá þessu viðhorfi. Stundum ráðast ákvarðanir af sjónarmiðum hagstjórnunar, samanber þegar ákvörðun er tekin um lækkun skatta á fyrirtæki á samdráttartímum sem þá er tekin í tilraun til þess að örva vöxt fyrirtækja og afstýra því að fækkun starfsfólks verði meiri en við blasir fremur en að verið sé að taka afstöðu til þess hvað fyrirtæki af þessari eða hinni stærðinni og þessari og hinni getunni leggi til samfélagsins eins og ætlast er til af einstaklingunum sem mynda þetta samfélag. Þannig upplifðu margir að sínu réttlæti væri misboðið þegar síðasta ríkisstjórn aflétti eða lækkaði skatta af fyrirtækjum meðan einstaklingar, oft með litlar eða takmarkaðar tekjur, báru skattana sína af þeim þunga sem þeim var ætlað. Ég er mjög meðvituð um þetta og ég er mjög meðvituð um það að stundum stendur maður að ákvörðunum sem byggjast á sjónarmiðum sem verður að virða eða að minnsta kosti að lúta meirihlutaafstöðu í en það er ekki alltaf að þær sömu ákvarðanir snerti það réttlæti sem maður vill sjá í framkvæmd í þjóðfélaginu.

Þegar verið var að tekjutengja sem mest af endurgreiðslum ríkisins, bótum almannatrygginga, vaxtabótum til fólks sem var með mikil lán og borgaði mikla vexti og tekjutengingar ýmsar af þjónustugjöldum þá var það gert í nafni þessa sama réttlætis, að þeir sem meira hefðu ættu að fá minna, þeir sem meira hefðu ættu að greiða meira og þar með var stofnað til þess fyrirbæris sem gjarnan er nefnt jaðarskattar.

Í desember fjölluðum við um fjárlög og niðurskurð, skattheimtu og tekjur ríkisins og útgjöldin sem tekjurnar duga engan veginn fyrir. Þá hefðu margir viljað finna tekjur til að komast hjá erfiðum niðurskurði og oft við fjárlagagerð hefur það einmitt verið nefnt að ef ríkisstjórnir mönnuðu sig upp í að leggja á fjármagnstekjuskatt kæmu nýjar tekjur og auknar tekjur til ýmissa velferðarþátta og til að greiða niður skuldir og annað það sem hefur skapað þenslu, verðbólgu eða hækkaða vexti hjá okkur.

Ég fullyrði að í umræðunum í desember hafi enginn búist við lækkun vegna skattabreytinga á tekjum ríkisins en það er það sem við blasir með þessari lagasetningu sem hér er að verða að þeir sem hafa greitt skatt af arði þeir munu borga minna og þrátt fyrir að útreikningar miðað við núverandi arðgreiðslur sýni e.t.v. ekki miklar tekjubreytingar ríkissjóðs er það alveg kristaltært að eftir þessa breytingu munu fyrirtæki í auknum mæli breyta rekstrarformi sínu. Það mun í auknum mæli verða farið yfir í rekstrarform einkahlutafélaga þar sem einmitt skapast grundvöllur til þess að fara með arðtekjurnar eins og kemur fram í þessum lögum. Það er til umhugsunar vegna þess að þetta boðar að það verði miklar tekjubreytingar hjá ríkinu.

Það er til umhugsunar fyrir launamanninn að tekjur og tekjur er ekki það sama eftir því hver er að afla teknanna. Þegar tekjur eru laun þess sem vinnur hjá öðrum og allt er skráð og eftir föstum reglum þá borgar viðkomandi skatta og skyldur af öllum tekjum sínum. Þegar tekjurnar eru af fjármagni eru viðhorfin önnur. Það virðist tvennt ólíkt hvort greiða á skatta og skyldur af þeim tekjum sem eru laun fyrir beinharða vinnu þar sem hver einasti klukkutími er mældur eða hvort á að borga skatta af tekjum, fjármagni sem verður til við það að fjármagn ávaxtar sig, við fjárfestingar, ávöxtun í rekstri fyrirtækja o.s.frv. Núna er það svo að þegar launamaður nurlar einhverju saman af því sem hann hefur haft tekjur af eða laun af og á eitthvert smáræði í bönkum og sparisjóðum verður það skattað á meðan að arðurinn úr fyrirtækjarekstrinum, skatturinn af arði verður lækkaður. Þetta hlýtur að vekja okkur til umhugsunar og vekja upp umræður um það hverjir borga skattana, hvaða álögur eru lagðar á þjóðina og hvernig skiptast greiðslurnar. Hvernig skiptast þessar álögur á þegnana? Launafólki finnst að þessi skipti séu ójöfn og þess vegna skapast mjög hættuleg viðhorf og við höfum kynnst þeim á liðnum árum þar sem vammlaust fólk sem í flestum tilfellum er með þannig viðhorf að það vill gera allt samkvæmt lögum, það vill axla byrðar sínar, sinna skyldum sínum og borga skatta sína svo fremi --- og það fær maður oft að heyra --- að allir aðrir borgi sitt. Þetta vammlausa fólk er nú í auknum mæli farið að láta í sér heyra með sjónarmið eins og þessi: Uss, ég hika ekki við það að taka því þegar mér eru boðin nótulaus viðskipti með viðgerð á bílnum mínum. Ég sem borga allt mitt og af öllu mínu til samfélagsins á meðan maður horfir á þá sem fjármagninu velta borga svokallað vinnukonuútsvar, reka stór hús, bíla og vera með flottan og dýran einkarekstur, þá finnst mér það ekki of mikið að ég sleppi þar sem hægt er. Það er skelfilegur hlutur að löggjafinn með lagasetningu skuli hafa vakið upp sjónarmið af þessu tagi hjá annars vammlausum launþegum, sem vilja standa við sitt, eru meðvitaðir um velferðarkerfið, sem vilja taka þátt í að búa til ákveðna þjóðfélagsgerð þar sem enginn verður undir og vilja greiða sitt til þeirrar samneyslu.

[11:45]

Það er margt sem við gerum sem virkar mjög óréttlátt á fólk. Þannig vorum við fyrir örfáum dögum að renna í gegn frv. frá efh.- og viðskn. með breytingum á vörugjaldi. Og hverjir eru það sem njóta? Það eru þeir sem hafa fjármagn til að fjárfesta í dýrari bílum vegna þess að það eru sáralitlar breytingar á verði svokölluðu fjölskyldubílanna. Ég get nefnt það hér, án þess að ég vilji sómans vegna tilgreina hvaða umboð það var, að kunningi minn sem starfaði við bílasölu í einu umboðinu sagði mér: ,,Það verða engar breytingar á almennu bílunum hjá okkur. Það verða engar verðbreytingar á fjölskyldubílunum sem við liggjum með. Það verða breytingar á einum bíl, sjö manna stórum bíl sem átti að kosta 3,1 millj. og hann mun sennilega fara niður í 2,7--2,8 millj. Það verða ekki breytingar á hinum.`` Og ég spyr: Hvað erum við að hugsa hér sem eigum að gæta réttlætisins, sem eigum að huga að sóma þess fólks sem er að leggja sitt af mörkum, að bjóða fólki sem margt hvert getur ekki keypt nokkurn skapaðan hlut nema gamla druslu að vera að aflétta gjöldum af þessu tagi?

Sama má segja um umræðuna í gær varðandi breytingu á virðisaukaskatti sem stjórnarandstaðan sameinuð lagðist gegn. Þar var verið að lækka endurgreiðslur vegna viðhalds húseigna til þess að fjármagna tekjumissi í kerfisbreytingum í vörugjaldi. Og hverja hittir sú breyting? Alla? Alla sem eru að viðhada sínum húsum, smáa og stóra, litlu heimilin, þungu heimilin, dýru heimilin. Þar er ekki farið í manngreinarálit. Allir skulu lúta hinu sama. Það verður lækkað það sem þú færð endurgreitt vegna viðhalds.

Hvar eru teknir peningarnir þegar þarf að fjármagna aðgerðir til snjóflóðavarna? Hvar eru þeir teknir? Bregst ríkisstjórn stórmannlega við og segir: ,,Nú þurfum við að skoða hvernig við höfum verið að afla tekna og í hvað þær tekjur fara. Við verðum að skoða hvernig við getum fundið leiðir til þess að fjármagna snjóflóðavarnir.`` Bregst hún þannig við? Nei. Hún hugsar greinilega: ,,Æ, hvar er nú liðið sem við leggjum alltaf álögurnar á þegar okkur vantar pening fyrir stóru hlutunum? Hvar er liðið? Það eru heimilin í landinu. Það er liðið sem lög eru sett á þegar menn vilja ekki virða samkomulag á vinnumarkaði og þá er prósentuhlutfallið hækkað eða miðað við eignarskattsstofninn og lögð viðbót á heimilin í landinu. Það er vegna þess að það er nú einu sinni þannig að það hefur verið lögð mikil áhersla á það alla tíð af einstaklingunum, stjórnmálaflokkunum og öllum sem huga að uppbyggingunni í okkar þjóðfélagi, það hefur verið viðvarandi, að flestir vilja eiga sitt heimili, eiga þak yfir höfuðið. Þangað er sótt. Þangað hækkum við. Eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal benti á fyrir nokkru, þá er farið og kannski sóttur helmingurinn af þeirri upphæð sem fjármagnstekjuskatturinn mun gefa þó að ég hafi reyndar efasemdir um að fjármagnstekjuskatturinn yfirleitt mun gefa það sem áætlað var vegna þessara breytinga sem voru gerðar.

Það er alvarlegur hlutur að alltaf þyngist skattbyrði heimilanna, ekki síst eins og ég hef áður nefnt, launþeganna sem allir eru tilbúnir til að bera þungann af velferðarkerfinu og af hinum almennu öryggisþáttum. M.a. geri ég alveg ráð fyrir því að það muni ekki verða kvartað undan því að heimilin í landinu beri þungann vegna snjóflóðavarnanna. En það sem stendur upp úr er þetta: Ríkisstjórnin kann ekki önnur ráð þegar þarf að kosta einhverju til, svo sem að verja heimilin á snjóflóðasvæðinu. Hún kann ekki önnur ráð en sækja fjármagnið til heimilanna þar sem allir skulu borga jafnt. Þetta er umhugsunarefni eftir umræðuna í desember þegar niðurskurður var svo mikill og áhersla var lögð á það að ríkisstjórnin væri ekki tilbúin til að leita nýrra tekna og væri ekki tilbúin til þess að auka tekjur ríkisins. Hér yrði að ná hallanum niður með því að skera niður og draga úr velferðarkerfinu.

Það voru miklar væntingar, virðulegi forseti, þegar ljóst var að stjórnmálaflokkar mundu sameinast um að setja á fjármagnstekjuskatt þó engan hefði órað fyrir niðurstöðunni, þ.e. að lækkað yrði á þeim sem meira hafa. Og fjármagnstekjuskatturinn hefur verið langþráð pólitískt stefnumarkmið margra flokka, okkar í Alþfl. og eins og ég hef áður sagt, flestra sanngjarna manna, a.m.k. þeirra sem eru á miðju og vinstri væng stjórnmála.

Við höfum sagt að það væri ekki réttlætanlegt að launamenn greiddu 42--47% af tekjum sínum í skatt á meðan þeir sem ættu peninga á vöxtum í bréfum, verðbréfum, í bankabókum, greiddu ekki neitt. Okkur óraði aldrei fyrir því að hin nýju lög mundu ekki taka á þessu. Það var því mjög kærkomið þegar ríkisstjórnin ákvað að reyna að ná samkomulagi um fjármagnstekjuskatt. Ég lít svo á að það hafi verið eins konar æfing fyrir það sem koma skyldi á sínum tíma þegar Alþýðusambandið óskaði eftir að það yrði lagður á 10% vaxtaskattur í tengslum við samkomulag aðila vinnumarkaðarins og ríkisstjórnarinnar um kjaramál á sínum tíma. Eftir þá æfingu var ég, virðulegi forseti, aldrei í vafa um að allir þeir sem höfðu talið að 10% vaxtaskattur væri eitthvað sem ætti að huga að mundu hafa sannfærst um að það væri ekki leiðin. Ég var svo sannfærð um það að 10% vaxtaskattur væri út af borðinu eftir vinnuna í þeirri nefnd, að allir sæju gallann á slíkum lögum, að það kom eins og þruma úr heiðskíru lofti þegar stefndi í það frv. sem hér hefur komið fram, verið til umræðu og verður nú að lögum.

Mér finnst að með frv. sé verið að snúa gjörsamlega á haus öllu því sem við höfum rætt með álagningu fjármagnstekjuskatts, því að í stað þess að afla tekna með skattlagningu fjármagnstekna er búið að koma því þannig fyrir að ríkissjóður mun að öllum líkindum þurfa að sjá af stórum upphæðum skatttekna sem renna munu í vasa stóreignamanna þegar þeir fara að aðlaga sig að hinum breyttu lögum og sjá möguleikana á --- maður getur eiginlega ekki notað orðið undanskot vegna þess að þarna er bara viðurkenndur léttleiki í skattheimtunni sem flestir sem til þess hafa möguleika á, hljóta að laga sig að. Þannig hefur fjármagnstekjuskatti í raun verið breytt í launaskattsauka, í tekjur fyrir þann sem er í aðstöðu til þess að leika sér með arðinn eins og hér hefur margoft verið lýst. Og það verður að viðurkennast að þetta eru einhver mestu pólitísku töfrabrögö sem sést hafa á hv. Alþingi í langan, langan tíma.

Ég hef áður nefnt það að frv. ríkisstjórnarinnar býr til tvenns konar tekjuskatta, annars vegar 42% og 26% skatt á launatekjur og rekstrartekjur einstaklinga og hins vegar 10% tekjuskatt á aðrar fjármagnstekjur en rekstrartekjur einstaklinga. Það er verið að skipta þjóðinni í tvær andstæðar fylkingar. Nú verður það löglegt að borga nánast enga skatta af þeim tekjutegundum sem fjármagnið aflar meðan launaskattar eru sífellt hækkaðir. Þó að ég sé reyndar orðin hundleið á því að minna Framsfl. á hvernig flokkur hann var í fyrra og fyrir kosningar, þá hlýt ég samt að spyrja hvort þetta sé siðferðið sem Framsfl. barðist fyrir við síðustu kosningar því að, virðulegi forseti, það er enginn undrandi á því að hagsmunaflokkurinn sem er við völd til að vera við völd, til að halda völdum, gæti sinna.

Ég tel að frv. ríkisstjórnarinnar muni kalla á meiri eigna- og tekjutilfærslur í samfélaginu en áður hafa sést. Formaður efh.- og viðskn. kallaði þessa tekjutilfærslu til hinna efnameiri í samfélaginu nútímalega skattlagningu. Það er nútímalegt að auka enn frekar skattlitlar tekjur til fólks sem hefur 10--12 millj. kr. árstekjur. Það á að auka þær tekjur enn frekar. Það er nútímalegt að auka verðmæti hlutabréfa einstaklinga með skattalegum ákvörðunum um einhverja milljarða, ekki vegna þess að eigendurnir hafa bætt rekstur þeirra sem væri ánægjulegt ef það væri staðreyndin nú á vordögum. Nei. Vegna þess að ríkisstjórn sjálfstæðismanna og framsóknarmanna telja það nútímaleg vinnubrögð að bæta hag þessa vesalings fólks svona. Nú bíða væntanlega hinir fjölmörgu eigendur, t.d. eigendur Sameinaðra verktaka, þess óþreyjufullir að geta hafist handa með að borga út óskattlagt eigið fé þeirra sem er um það bil um 2,3 milljarðar. Ef það verður gert, ef slíkt fyrirtæki ákveður að borga út samkvæmt óskattlögðu eigin fé af þessari upphæð, þá hefði slíkt fyrirtæki þurft að borga um 850 millj. kr. í ríkissjóð af þessum tekjum sem greiddar yrðu út. En að samþykktu þessu frv. sleppa þessir aðilar með 230 millj. kr. Þetta er einfalt reikningsdæmi því að 230 millj. kr. í stað 850 þýða 620 millj. kr. sem ekki verður borgaður skattur af. Einhverjum finnst þetta réttlæti, virðulegi forseti. Það er alveg sama hversu margar ræður verða haldnar um það réttlæti í þessum sal. Mín vitund hefur ekki burði til að meðtaka slíkt réttlæti.

Frv. ríkisstjórnarinnar opnar leiðir til að færa tekjur rekstraraðila frá launatekjum til fjármagnstekna í meira mæli en flesta grunar. Mörg skýr dæmi hafa verið sýnd sem færa rök fyrir þessu. Hér er um hundruð ef ekki milljarða tekjutilfærslu að ræða. Dæmin eru bæði af þeim sem skipta úr einkarekstri yfir í einkahlutafélög til að létta af skattgreiðslum sínum, svo og þeim sem stofna formlegt fyrirtæki um tekjur sínar. Hagleiksmenn í skattamálum munu geta leikið sér að skattkerfinu eins og köttur að mús en ekki launamaðurinn. Frv. ríkisstjórnarinnar mun ekki styrkja íslensk fyrirtæki heldur eingöngu eigendur þeirra.

Virðulegi forseti. Ég hef svo sem ekki lokið því sem mér liggur á hjarta í þessari umræðu og ég hlýt að skoða það hvort ég komi aftur inn í umræðuna að loknum utandagskrárumræðum og hádegisverðarhléi. Ég vil þó áður en ég lýk máli mínu nú nefna örfá atriði:

Í fyrsta lagi. Þrátt fyrir yfirlýsingu fjmrh. og félmrh. og Sambands íslenskra sveitarfélaga þann 30. maí, hefur borgarstjórinn í Reykjavík sent alþingismönnum afrit af bréfi til efh.- og viðskn. þar sem lýst er áhyggjum yfir því hver staða sveitarfélaganna verði og ef miðað verði við 11,9% útsvar eftir yfirtöku grunnskólans og fjórðung fyrrgreinds skattstofns, 5,5 milljarða kr., þá nemi fjárhagstjón sveitarfélaganna samtals um 655 millj. kr. og vísar þar til taps borgarsjóðs. Það er mjög mikilvægt að við höldum til haga í þessari umræðu til enda að staðið verði við hlut sveitarfélaganna í þessari ákvörðun ríkisins sem tekur svo oft ákvarðanir sem kippa grundvelli undan einhverju sem sveitarfélögin hafa gengið út frá.

[12:00]

Hinn þátturinn, sem ég hef hug á að nefna, snýr að málflutningi hv. þm. Péturs Blöndals. Honum hefur verið tíðrætt um þá sem tapa. Ef þeir hafa verið með hugmyndir um einhvern blómlegan rekstur en eitthvað það gerðist að hugmyndin gekk ekki eftir, reksturinn brást, væntingarnar um tekjur og arð urðu að engu, tekjurnar að engu, þá hefur mér sýnst að málflutningur þingmannsins væri eitthvað á þessa lund af því að hann verður að taka afleiðingum gerða sinna eftir að hafa stofnað til reksturs sem lukkast ekki og taka tapinu þá á ekki að öfundast yfir því að hann græði ef fyrirtækið eða reksturinn lukkast. Þetta hefur mér fundist efnislegt innihald þess sem hann hefur verið að reyna að leiða okkur í skilning um með vanda þess sem er í rekstri með fyrirtækið. Mér finnst þetta endurspegla það sem ég hef verið að draga fram, virðulegi forseti, að það er önnur hugsun að baki tekjum af rekstri af því að þar liggi hugmyndafræði eða frumkvæði eða viljinn til að taka áhættu að baki og þá eigi hugsunin að vera sú að ef af því verður gróði eigi gróðinn að fá að vera án þess að viðkomandi greiði nákvæmlega sömu prósentu af þeim tekjum eins og launamaðurinn sem vinnur og bara vinnur. En hvað ef einstaklingur með dágóðar vinnutekjur lendir í þeim breytingum í einkalífi sínu að framtíðaráform bregðast og missir hús og eignir? Þessi einstaklingur hefur borgað skatta af öllum tekjum sínum og ef hann réttir sig síðar af og fer að hafa tekjur aftur, fær gott starf aftur, þá borgar hann aftur af öllu sínu. Það hefur verið vilji minn með því að taka þátt í umræðunni, virðulegi forseti, að reyna að draga það fram að það á að vera óleyfilegt að umræðan í þessum sal endurspegli á einhvern hátt mismunandi viðhorf til tekna eftir því hvaðan þær tekjur koma.

Virðulegi forseti. Fyrst og fremst vegna þess að hér hefur hádegisstund runnið upp ætla ég að ljúka ræðu minni á þessum tímapunkti.