Málefni fatlaðra

Þriðjudaginn 04. júní 1996, kl. 12:11:08 (7166)

1996-06-04 12:11:08# 120. lþ. 160.91 fundur 341#B málefni fatlaðra# (umræður utan dagskrár), landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 160. fundur

[12:11]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Ekki veit ég hvort það er lof eða last að flokka mig ekki í þungavigtina en ég viðurkenni það hins vegar eins og fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda að e.t.v. verður minna úr umræðunni en verið hefði ef hæstv. félmrh. hefði sjálfur verið til svara. Ég verð líka að segja það að hæstv. fémrh. er ekki þekktur að því að hlaupa frá verkefnum sínum jafnvel þó að þau kunni að vera erfið og óþægileg eins og hv. fyrirspyrjandi sagði. Hér hlýtur eitthvað annað að hafa ráðið sem ég á ekki því miður skýringar við af því að mál þetta hafði ekki verið rætt við mig fyrir fram fyrr en málshefjandi bað um umræðu í gær. En nóg um það.

Það hafa ekki verið lagðar fram beinar fyrirspurnir eins og hv. málshefjandi greindi frá heldur virðist þetta líkara eldhúsdegi sem var reyndar fyrir nokkrum dögum og hefði umræðan kannski fremur átt að fara fram þá þar sem ekki er verið að spyrja eða taka fram einstök efni sem ég sem starfandi ráðherra eða ráðuneyti gæti brugðist við. Hitt er ljóst að auðvitað er það þegar aðhald er í ríkisfjármálum og reynt er að draga úr útgjöldum og spara og hagræða í rekstri kemur það því miður einhvers staðar við og það þekkir fyrrv. hæstv. félmrh., hv. málshefjandi, alveg örugglega af eigin reynslu. Þrátt fyrir þetta aðhald og þennan samdrátt væri sannleikurinn sá að það hafa orðið umtalsverðar hækkanir á fjárveitingum til reksturs stofnana og heimila stofnana fyrir fatlaða á árinu 1996 miðað við fyrri fjárlög, miðað við fjárlög 1995. Að vísu skýrist það að hluta til vegna kjarasamninga og vegna þess að verið er að útskrifa af Kópavogshæli, það er tilfærsla á fjármunum frá Ríkisspítölum vegna útskrifta á Kópavogshæli, en viðbótarfjármunir til nýrrar og aukinnar starfsemi er um 50 millj. kr. Það er þá alltént tvöfalt hærri fjárhæð en var milli fjárlaga 1994 og 1995 sem hv. málshefjandi bar ábyrgð á. Í því frv. sem lagt var fram 1994 vegna ársins 1995 var ekki að finna fjármuni til nýrra framkvæmda. Þetta þekkir auðvitað málshefjandi. Það leysir ekki vandann í dag en menn þurfa stundum aðeins að velta fyrir sér fortíðinni og nokkurn hluta þeirra vandamála sem nú er við að etja í málaflokknum má rekja til fyrri ákvarðana, bæði hv. málshefjanda sem fyrrv. fémrh. og forvera hans í starfi. Þar má nefna t.d. útskriftirnar af Kópavogshæli og mér er líka tjáð að setning reglugerðar um stuðningsfjölskyldur kosti umtalsverða fjármuni sem auðvitað eru þörf mál hvoru tveggja. Það er ekki skoðanaágreiningur um nauðsyn þess að gera þetta en forverum núv. hæstv. félmrh. hefur láðst að tryggja að nægilegt fjármagn væri fyrir hendi. Núv. ráðherra hefur hins vegar lagt á það þunga áherslu í komandi fjárlagagerð að glíma við þessa veikleika, draga úr þessum veikleikum.

Af því að hv. málshefjandi nefndi stefnu varðandi fjárlög næsta árs er það að vissu leyti rétt að það er enn reynt að gæta þar aðhalds. Enn er reynt að stefna að því að hafa fjárlög næsta árs hallalaus og það kemur auðvitað einhvers staðar við. Því hefur verið beint til stofnana í tengslum við fjárlagagerðina að skoða það hvernig mætti draga úr útgjöldum stofnananna ef mögulegt er en í bréfi sem félmrn. sendi undirstofnunum sínum og beindi þessum tilmælum til þeirra er ekki verið að gefa til kynna að flöt útgjaldalækkun væri fyrirhuguð.

Ég vil aðeins árétta það að auðvitað er fjárlagagerð í gangi um þessar mundir. Ráðherra félagsmála hefur lagt mikla áherslu á að hann muni verja þennan málaflokk svo sem kostur er og fjárveitingar til málefna fatlaðra. Það er ekki fyrr en um mitt sumar, það er reyndar um miðjan ágúst, sem ríkisstjórnin reiknar með því að gera ráð fyrir því að farið verði að sjá fyrir endann á því hvernig tekst að glíma við þetta fyrirheit um hallalaus fjárlög.

[12:15]

Ég kann ekki að greina frá hinum ýmsum stofnunum í einstökum atriðum en ég geri mér þó ljóst að sjálfsagt er hægt að finna mörg dæmi um brýn viðfangsefni. Fyrir nokkrum dögum var mikið rætt um heimilið að Árlandi. Hjá hæstv. ráðherra hefur m.a. komið fram í fréttatilkynningu að ráðuneytið hefur í samráði við svæðisskrifstofu í Reykjavík ákveðið að endurskoða ákvörðun um lokun heimilisins. Það er sem sagt ákveðið að heimilinu verði ekki lokað. Nú fer fram úttekt á starfseminni og þjónustuþörf barnanna sem þar búa og þegar þeirri úttekt er lokið verður líka skoðað með hvaða hætti hægt er að treysta reksturinn með viðbótarfjárframlögum ef það er sú eina lausn sem þar kemur til greina en það er ekki tímabært að taka þær ákvarðanir fyrr en að þessari úttekt lokinni.

Ég sé að því miður er tími minn hlaupinn, hæstv. forseti, en ég hef örfáar sekúndur eftir til þess að svara einnig því sem bæta mætti við. Núna er unnið að því að takast á við biðlistana sem eru vissulega fyrir hendi í Reykjavík og Reykjanessvæðinu en ekki í umtalsverðum mæli annars staðar. Á þessu ári og því næsta eiga að vera tilbúin til notkunar tvö ný sambýli í Reykjavík. Á þessi ári hefur verið úthlutað úr framkvæmdasjóðnum fjármagni til stofnkostnaðar tveggja nýrra sambýla, skammtímavistunarheimilis og heimilis fyrir börn með atferliserfiðleika eða einhverf börn, þannig að það er sannarlega unnið að málaflokknum á ýmsum sviðum og það mun hæstv. ráðherra auðvitað gera og fylgja því eftir í sambandi við fjárlagagerðina.