Málefni fatlaðra

Þriðjudaginn 04. júní 1996, kl. 12:17:33 (7167)

1996-06-04 12:17:33# 120. lþ. 160.91 fundur 341#B málefni fatlaðra# (umræður utan dagskrár), MF
[prenta uppsett í dálka] 160. fundur

[12:17]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur fyrir að taka þessi mál upp þó vissulega sé tekið undir það líka að æskilegt hefði verið að hæstv. félmrh. hefði verið á staðnum þó að ég sé ekki með því að segja að hæstv. starfandi félmrh. viti ekki og þekki ekki þennan málaflokk. Það veit ég að hann gerir eftir störf í fjárln.

Hæstv. ráðherra nefndi að 50 millj. kr. kæmu núna í auknum framlögum til þessa málaflokks þegar búið væri að taka tillit til þeirra færslna sem eiga sér stað vegna Kópavogshælis og launahækkana. Þar inni í er sala á Sólborg sem átti að skila sér inn í málaflokkinn og aukið rekstrarfé sem var tekið úr Framkvæmdasjóði fatlaðra sem er nú notaður í auknum mæli og tekinn beint í rekstur.

Ekki fyrir mjög löngu fórum við og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir yfir þessar tölur og niðurstaða okkar varð ekki sú að það væri um 50 millj. kr. hækkun að ræða þarna á milli ára. En hvort sem það er staðreynd eða ekki, ég er ekki með þessar tölur, þá er það það sem skiptir máli. Það sem skiptir máli er að það eru veruleg vandamál í þessum málaflokki í dag og við höfum heyrt frá því greint í fréttum á nokkrum undanförnum vikum að talað er um lokun á heimilum þar sem m.a. dveljast einhverf börn sem þurfa umfram alla aðra á stöðugleika og öryggi í tilveru sinni að halda. Á þessum málum verður að taka og það hefði vissulega verið þörf að við ræddum þetta lengur en hálftíma því að það er erfitt að fara yfir þetta mál, virðulegi forseti, ég tala ekki um þegar maður hefur aðeins tvær mínútur að fara yfir þau mál sem þarna ber hæst og þarf að taka á. En flatur niðurskurður er það versta sem hægt er að hugsa sér inn í þennan málaflokk í dag, það versta. Það verður að fara fram ákveðin úttekt á því og niðurröðun og forgangsröð verkefna til þess að hægt sé að taka á þessu af einhverju viti. Flatur niðurskurður er það versta sem hægt er að gera.