Málefni fatlaðra

Þriðjudaginn 04. júní 1996, kl. 12:22:40 (7169)

1996-06-04 12:22:40# 120. lþ. 160.91 fundur 341#B málefni fatlaðra# (umræður utan dagskrár), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 160. fundur

[12:22]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Virðulegi forseti. Það er vert að rifja upp að í þau sjö ár sem við gengum í gegnum efnahagsþrengingar var pólitísk samstaða um það á Alþingi að skerða ekki tekjur til Framkvæmdasjóðs fatlaðra. Nú bregður við að þegar rofar til í efnahagsmálum og ríkisstjórn Framsfl. og Sjálfstfl. tekur við eru tekjur Framkvæmdasjóðs fatlaðra skertar um 150 millj. kr. á þessu fjárlagaári, þar af 20 millj. kr. sem ganga áttu til uppbyggingar í málefnum geðfatlaðra. Þetta var bara pólitískur leikur að tölum hjá hæstv. ráðherra áðan þegar hann talar um einhverja aukningu. Hér var eingöngu um verðuppfærslu að ræða og tilfærslu á fjármunum vegna vistmanna sem voru að flytjast frá Kópavogshæli yfir á sambýli. Hér er um algera stefnubreytingu að ræða í málefnum fatlaðra undir forustu hæstv. félmrh. og Framsfl. og Sjálfstfl. hafa rofið þá samstöðu sem verið hefur á Alþingi að standa vörð um málefni fatlaðra og Framkvæmdasjóðinn. Þeir virðast láta sér sem vind um eyru þjóta að hundruð fatlaðra bíða eftir búsetuúrræðum og sá biðlisti er alltaf að lengjast. Ég fékk upplýsingar um það fyrir nokkrum dögum að það væri fimm ára bið hjá Öryrkjabandalagi hjá íbúðum fyrir fatlaða.

Þessu til viðbótar er aukinn verulega þáttur Framkvæmdasjóðsins í rekstri stofnana fatlaðra en þrír fjórðu hlutar af tekjum sjóðsins rennur nú beint til reksturs á stofnunum fatlaðra. Það var forsenda fyrir því þegar byrjað var að veita fjármagn úr sjóðnum í litlum mæli til reksturs að tekjur sjóðsins urðu óskertar. Nú bregður svo við í síðustu fjárlagaafgreiðslunni að það eru sett lög um að skerða tekjur til þessa sjóðs en aðeins hluti af erfðafjárskatti gengur til þessa málaflokks en að öðru leyti gengur hann í ríkissjóð. Það er ríkisstjórninni til skammar hvernig haldið hefur verið á þessum málaflokki frá því að hún tók við og ég trúi ekki að hæstv. félmrh. láti það yfir sig ganga að enn eigi að skerða og draga saman í rekstri í þessum málaflokki á næsta fjárlagaári eins og málshefjandi greindi frá áðan. Þá er Framsfl. lengra sokkinn en ég hélt. Uppnám blasir við í þessum málaflokki og ráðherrann gerir ekkert annað en leika sér að tölum í ræðustól sem hafa enga stoð í raunveruleikanum.