Fjárhagsstaða sjúkrahúsanna og sumarlokanir

Þriðjudaginn 04. júní 1996, kl. 13:20:58 (7178)

1996-06-04 13:20:58# 120. lþ. 160.92 fundur 342#B fjárhagsstaða sjúkrahúsanna og sumarlokanir# (umræður utan dagskrár), KÁ
[prenta uppsett í dálka] 160. fundur

[13:20]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég hafði hugsað mér að ræða hér málefnalega um lokanir sjúkrahúsa en málflutningur hæstv. heilbrrh. er slíkur að það er ekki hægt annað en að mótmæla honum. Að leyfa sér að halda því fram að við í stjórnarandstöðunni séum að stöðva þetta frv. Þetta er þvílík ósvífni að ég hef ekki heyrt annað eins í þingsölum. Þetta er stórmál, stórpólitískt mál. Ég veit ekki annað en að það hafi verið rætt ítarlega innan Sjálfstfl. og mér heyrist á þingmönnum þeirra að það sé ekki nein sérstök hrifning á þessu máli. Þetta er mál sem snertir Reykjavíkurborg og samstarf sjúkrahúsanna. Ég hef ekki tekið neina afstöðu í þessu máli og ég er tilbúin til að ræða það hér í dag, en þá skulum við líka ræða það ítarlega. Það kallar á ítarlega umræðu. Ég veit ekki hvort aðrir taka undir það með mér. Þetta kallar á ítarlega umræðu og ítarlega skoðun. Þetta er stórmál. Ég mótmæli svona málflutningi.

Það breytir ekki því, hæstv. forseti, að við stöndum frammi fyrir miklum vandamálum varðandi stóru sjúkrahúsin. Hæstv. ráðherra hélt því fram að lokanir væru svipaðar í ár og í fyrra. Það kom fram hjá fulltrúum Ríkisspítalanna að það væri 2% aukning á lokunum og það munar auðvitað um hvert einasta rúm sem tekið er úr notkun. Við þurfum einfaldlega að horfa á þessi mál í heild og átta okkur á því að það er mikið verk fram undan í heilbrigðismálum. Öldruðum fjölgar stöðugt. Það kallar á aukna þjónustu og aukinn kostnað. Við þurfum að gera okkur grein fyrir hvernig við ætlum að taka á þessum málum. Við hljótum að verða að horfast í augu við að þessi málaflokkur kallar á auknar fjárveitingar. Við verðum einfaldlega að afla þeirra tekna eða skera niður annars staðar. Við getum líka nýtt betur það fjármagn sem við höfum og við getum bætt mikið úr með því að stórauka forvarnir. Leiðirnar eru margar. Við erum að tala um stórpólitískt mál sem þarf að reyna að ná samstöðu um. Ég veit ekki betur en menn hafi reynt að vinna málefnalega að þessum málum. Hæstv. heilbrrh. kemst nú ekki langt í sínum aðgerðum og fær ekki mikinn stuðning ef hann ætlar að ganga þannig fram að ráðast á stjórnarandstöðuna og saka okkur um að vera að valda milljónatjóni og skaða og að koma í veg fyrir sparnað. Ég mótmæli þessu enn og aftur.