Fjárhagsstaða sjúkrahúsanna og sumarlokanir

Þriðjudaginn 04. júní 1996, kl. 13:35:51 (7184)

1996-06-04 13:35:51# 120. lþ. 160.92 fundur 342#B fjárhagsstaða sjúkrahúsanna og sumarlokanir# (umræður utan dagskrár), viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 160. fundur

[13:35]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Það eru fjölþættar ástæður sem liggja að baki því að samdráttur er í rekstri sjúkrahúsanna á höfuðborgarsvæðinu sem og víða um land á þessum tíma. Í fyrsta lagi, eins og hér hefur fram komið, eru það sumarfrí. Í öðru lagi er verið að endurbyggja og endurbæta á mörgum stofnunum og í þriðja lagi er því ekki að leyna að um er að ræða samdrátt í fjármunum til sjúkrahúsanna og hefur verið á undangengnum árum. Það ættu einstakir þingmenn Alþfl. sem hér hafa talað að þekkja einna best eftir að hafa staðið fyrir því í fyrri ríkisstjórn.

Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að þeir fjármunir sem varið er til heilbrigðisþjónustunnar séu nógir. Ástæðan er sú að við verjum sambærilegri upphæð af okkar landsframleiðslu til heilbrigðisþjónustu eins og þær þjóðir í kringum okkur sem vilja gera best. Okkar vandamál eru hins vegar skipulagsvandamál. Við þurfum að nýta betur þá fjármuni sem við höfum til ráðstöfunar en við höfum gert á undanförnum árum. Hæstv. heilbrrh. hefur lýst því hvaða hugmyndir eru uppi í heilbrrn. til að ná betri tökum á þessum vandamálum sem við stöndum frammi fyrir með skipulagsbreytingum. Skipulagsvandamálin lýsa sér m.a. í því sem þarf að framkvæma. Tökum dæmi af Ríkisspítölunum þar sem stjórnir viðkomandi stofnana taka ákvarðanir um það að loka. Það er ekki hæstv. heilbrrh. sem ákveður að það eigi að loka deildum. Það er Alþingi sem setur lög um það hvaða fjármuni viðkomandi stofnanir hafa til þess að ráðstafa. Það eru síðan stjórnir viðkomandi stofnana sem taka ákvarðanir um það hvernig þessum fjármunum er ráðstafað. Dæmi: Ríkisspítalarnir hafa tæpa 7 milljarða kr. til ráðstöfunar á þessu ári. Þó við hefðum ákveðið um síðustu áramót, Alþingi eða stjórn viðkomandi stofnunar, að setja engan einasta sjúkling inn á Landspítalann árið 1996 þá hefðu þeir fjármunir sem ráðstafað hefði verið eftir sem áður, þrátt fyrir að spítalinn hefði algjörlega verið lokaður, verið 5 milljarðar kr. Við hefðum eytt 5 milljörðum kr. með engan einasta sjúkling inn á Ríkisspítölunum árið 1996. Þetta er m.a. það vandamál sem við stöndum frammi fyrir, sá skipulagsvandi sem er í heilbrigðisþjónustunni. Samningar eru bundnir í ákveðinn farveg sem menn verða að komast út úr. Leiðin að þessu er sú að menn þurfa að gera skipulagsbreytingar og ég trúi því að stjórnarandstaðan hér á Alþingi styðji þær tillögur sem koma fram hjá hæstv. heilbrrh. til skipulagsbreytinga í þessu kerfi þannig að við getum í raun veitt betri þjónustu fyrir minni peninga.