Fjárhagsstaða sjúkrahúsanna og sumarlokanir

Þriðjudaginn 04. júní 1996, kl. 13:41:31 (7186)

1996-06-04 13:41:31# 120. lþ. 160.92 fundur 342#B fjárhagsstaða sjúkrahúsanna og sumarlokanir# (umræður utan dagskrár), ÁÞ
[prenta uppsett í dálka] 160. fundur

[13:41]

Ásta B. Þorsteinsdóttir:

Herra forseti. Ég vil taka undir þau orð sem hér hafa fallið og harma það líka að hæstv. heilbrrh. hefur séð tilefni til þess að snúa þessari umræðu upp í eitthvert pólitískt deilumál sem var alls ekki meiningin. Ég vildi ræða stöðu sjúkrahúsanna í dag, um fjárhagsvanda þessara sjúkrahúsa og það hvernig þau eiga að leysa þann vanda sem þau standa frammi fyrir nú í sumarbyrjun. Ég spurði ákveðinna spurninga og við þeim hef ég ekki fengið neitt svar. Ég spyr þessara spurninga því aftur nú í lok máls míns.

Ég spurði hæstv. heilbrrh.: Hver er fjárhagsvandi þessara sjúkrahúsa? Hefur ráðherrann í hyggju að leysa þann vanda? Það var minnst á 200 millj. kr. hér áðan. Jú, vissulega fengu sjúkrahúsin 200 millj. kr. til baka af þeim fjármunum sem voru skornir af þeim við fjárlagagerð í haust og vetur. Ég veit að það vantar enn töluverða fjármuni til að endar nái saman á sjúkrahúsunum í Reykjavík þrátt fyrir stórfelldan niðurskurð og stórfelldar lokanir. Þannig að ef ekki kemur til frekari stuðningur við sjúkrahúsin þá mun þurfa að grípa til enn meiri lokana.

Hæstv. heilbrrh. vitnaði hér til skýrslu Ríkisendurskoðunar um fjarvistir hjúkrunarfólks á Ríkisspítölum. Ég vil, með leyfi forseta, vitna hér til skýrslunnar. Þar stendur að árið 1995 hafi 106 ársverk tapast vegna veikindafjarvista á sjúkrahúsunum. Það er enginn búinn að mæla það enn þá, við erum ekki komin til ársloka 1996. Við vitum ekkert hvernig þetta ár endar. En ég vil bara minna á að þetta er alvarlegt ástand sem þarna er að skapast.

Ég minntist á vanda geðsjúklinga. Hver ætlar að leysa þau vandamál í sumar? Hefur hæstv. ráðherra gert sér grein fyrir því hver staðan verður á geðdeildunum í sumar? Það var vitnað hér áðan í bréf frá Geðhjálp sem lýsir í hnotskurn því sem blasir við. Mig langar líka til að spyrja hæstv. heilbrrh.: Hefur hún skoðun á því hvað þessir biðlistar kosta einstaklingana, fjölskyldurnar og samfélagið í heild? Það hefur enginn mælt það. Það eru stórfelldir biðlistar á sjúkrahúsunum í Reykjavík. Það er 1.200 manns sem bíða a.m.k. eftir aðgerðum. Þetta er allt ungt fólk sem er óvinnufært vegna biðar eftir viðunandi úrræðum.

Að lokum: Hefur hæstv. heilbrrh. í hyggju að vernda stöðu Íslands og halda þeim gæðum í heilbrigðisþjónustu sem við erum vön eða hyggst hún grípa til annarra aðgerða og þá hverra?