Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 04. júní 1996, kl. 14:21:33 (7201)

1996-06-04 14:21:33# 120. lþ. 160.6 fundur 421. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjármagnstekjur) frv. 97/1996, 422. mál: #A staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur# frv. 94/1996, PHB
[prenta uppsett í dálka] 160. fundur

[14:21]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Ég mæli fyrir brtt. meiri hluta hv. efh.- og viðskn. á þskj. 1145. Eins og fram kom í framsöguræðu formanns nefndarinnar, hv. þm. Vilhjálms Egilssonar, var í nefndinni rætt um þá stíflu sem brysti 1. jan. 1997 þegar áratuga ofsköttun á söluhagnað hlutabréfa linnir. Þá voru teikn á lofti um að þegar gætti tregðu til að selja hlutabréf vegna væntinga um lækkun skatta úr 42% í 10% þannig að jafnvel sá litli söluhagnaður sem alla jafnan fellur til, 303 millj. kr. árið 1994, verði hverfandi og að tekjur ríkissjóðs verði óverulegar vegna söluhagnaðar 1997.

Hin háa skattlagning söluhagnaðar, 42% og jafnvel 47%, hefur staðið efnahagslífinu fyrir þrifum. Eðlileg kynslóðaskipti og hagkvæm yfirtaka eða sameining fyrirtækja hefur vegna þessa ekki átt sér stað. Af þessari ástæðu og vegna fyrirsjáanlegra lítilla skatttekna ríkissjóðs 1997 leggur meiri hluti hv. efh.- og viðskn. til að flýtt verði gildistökuákvæða frv. um söluhagnað hlutabréfa. Það er innihald þessarar brtt.

Herra forseti. Brtt. er svohljóðandi:

,,Við 13. gr. bætist ný málsgrein, svohljóðandi:

Nú selur maður hlutabréf á árinu 1996 og skal þá hagnaður af sölu þeirra skattlagður með 10% skatthlutfalli, enda sé salan ekki þáttur í atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi mannsins og hagnaðurinn nemi lægri upphæð en 3.000.000 kr. hjá einstaklingi eða 6.000.000 kr. hjá hjónum. Söluhagnaður sá er þessi málsgrein tekur til telst ekki til útsvarsstofns. Ákvæði lokamálsgreinar 17. gr., um heimild til frestunar á tekjufærslu og um ráðstöfun á söluhagnaði til kaupa á hlutabréfum, skulu gilda um söluhagnað umfram fjárhæðarmörk í 1. málsl.``

Herra forseti. Brtt. gerir ráð fyrir að mörk verði sett á þann arð sem fellur undir 10% skattlagningu. Þessi mörk verði 3.000.000 fyrir einstaklinga og 6.000.000 fyrir hjón. Sá hluti söluhagnaðar sem umfram er þessi mörk er skattlagður með 42% eða 47% nema hann sé notaður til að fjárfesta í atvinnulífinu með kaupum á hlutabréfum að nýju en þá frestast skattlagning á söluhagnaðinn. Þetta ákvæði mun að vísu takmarka nokkuð tekjur ríkissjóðs um næstu framtíð en tryggir að hagnaðurinn helst í atvinnulífinu.