Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Þriðjudaginn 04. júní 1996, kl. 16:21:17 (7223)

1996-06-04 16:21:17# 120. lþ. 160.3 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, ÖJ (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 160. fundur

[16:21]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég mótmæli þessu frv. á þeirri forsendu að undir fölsku flaggi er verið að sigla með Póst og síma inn í einkavæðingu. Sterkir fjárfestar líta á þennan gullkálf vonarauga og er hætt við að einkavæðing á þessu sviði muni ýta undir enn frekari samþjöppun á valdi og fjármagni í efnahagslífinu, en ekki er á bætandi. Einnig vek ég athygli á að hlutafélagavæðing með einu hlutabréfi sem heyrir undir einn mann takmarkar aðhald og eftirlit með þessari starfsemi sem veltir milljörðum króna en sjálf stofnunin er metin á tugi milljarða. Póstur og sími er færður undan almannavaldi og undir fámennisvald, úr opinberu kastljósi og á bak við lokuð tjöld. Sérstaklega mótmæli ég því að þessi lög um að breyta Pósti og síma í hlutafélag verði samþykkt áður en gengið er frá samningum við starfsfólk því þar er allt ófrágengið gagnstætt því sem hæstv. samgrh. hefur haldið fram og er gersamlega óforsvarandi að samþykkja þessi lög áður en frá þeim málum hefur verið gengið. Ég segi nei.