Heilbrigðisþjónusta

Þriðjudaginn 04. júní 1996, kl. 16:35:03 (7225)

1996-06-04 16:35:03# 120. lþ. 160.13 fundur 524. mál: #A heilbrigðisþjónusta# (svæðisráð sjúkrahúsa) frv., heilbrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 160. fundur

[16:35]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 97/1990. Um er að ræða breytingu á 3. mgr. 24. gr. laganna en þar er að finna ákvæði um samstarfsráð sjúkrahúsanna í Reykjavík.

Samstarfsráð sjúkrahúsanna í Reykjavík var stofnað með lögum nr. 128/1990, um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 97/1990. Í því eiga m.a. sæti fulltrúar tilnefndir af Borgarspítala og St. Jósefsspítala, Landakoti. Nú hafa þessir spítalar verið sameinaðir undir heitinu Sjúkrahús Reykjavíkur og er því óhjákvæmilegt að breyta núgildandi ákvæði um samstarfsráð sjúkrahúsa í Reykjavík. Þá skilaði nefnd sem skipuð var af heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra tillögum sínum um hagræðingu og sparnað með aukinni samvinnu og verkaskiptingu sjúkrahúsanna í Reykjavík og á Reykjanesi hinn 18. mars 1996. Þau sjúkrahús sem þetta tekur til eru Ríkisspítalar, Sjúkrahús Reykjavíkur, Sjúkrahús Suðurnesja, Reykjanesbæ, og St. Jósefsspítali í Hafnarfirði. Í tillögum nefndarinnar er m.a. gert ráð fyrir nánu samstarfi á sviði öldrunar- og endurhæfingarlækninga, og jafnvel tilfærslu verkefna milli sjúkrahúsa. Þá er lagt til að stofnaðir verði svonefndir þjónustukjarnar eða kjarnahópar sérgreinalækna er starfi að sínum sérgreinum án tillits til sjúkrahússveggja. Þeir vinni t.d. að lækningum á því sjúkrahúsi sem hagkvæmast er og auki þannig sérhæfingu og hagræðingu og tryggi betri nýtingu á skurðstofuaðstöðu og mannafla.

Sem kunnugt er hafa einstök sjúkrahús þegar gert verulegt átak í hagræðingu og sparnaði og hæpið er að náð verði lengra á þeirri braut nema til komi aukið samstarf og skýrari verkaskipting sjúkrahúsanna. Ég tel að þetta sé eina raunhæfa leiðin til að ná verulegum sparnaði í rekstri sjúkrahúsa án þess að draga úr þjónustu við sjúklinga. Ég legg þess vegna mikla áherslu á að slíkt samstarf komist á sem allra fyrst.

Í samræmi við tillögur nefndarinnar sem í voru fulltrúar fyrrnefndra fjögurra sjúkrahúsa er því lagt til að í stað samstarfsráðs sjúkrahúsanna í Reykjavík komi svæðisráð sjúkrahúsanna í Reykjavík og á Reykjanesi. Gert er ráð fyrir að formenn stjórna sjúkrahúsanna fjögurra taki sæti í ráðinu og auk þess skipi ráðherra þrjá fulltrúa án tilnefningar og sé einn þeirra formaður ráðsins. Ráðinu er m.a. ætlað að vera samræmingar- og samhæfingaraðili sem hafi á hverjum tíma yfirlit og upplýsingar um hvernig best og hagkvæmast megi nýta fjármuni til að þjóna sjúklingum. Til þess að þetta megi verða er nauðsynlegt að tryggja náið samstarf stjórna fyrrgreindra sjúkrahúsa. Því er gert ráð fyrir að ráðinn verði framkvæmdastjóri ráðsins og samkvæmt núgildandi ákvæði skal framkvæmdastjóri þess sjúkrahúss sem formaður kemur frá annast framkvæmd mála fyrir ráðið samhliða aðalstarfi sínu. Hér er hins vegar gert ráð fyrir miklu meira og nánara samstarfi og samvinnu en áður og því er útilokað að hægt verði að sinna því nema ráðinn verði starfsmaður. Gera má ráð fyrir nokkrum kostnaði samfara þessum breytingum vegna launa framkvæmdastjóra og vegna aukinna verkefna. Hins vegar er hér um að ræða nauðsynlegan kostnað til þess að hægt verði að ná markmiðum um verulegan sparnað og hagræðingu í rekstri sjúkrahúsa á svæðinu samkvæmt tillögum nefndarinnar.

Meginatriði frv. er eftirfarandi: Í stað samstarfsráðs sjúkrahúsanna í Reykjavík kemur svæðisráð sjúkrahúsanna í Reykjavík og á Reykjanesi. Fulltrúar í svæðisráðinu verða sjö eins og áður samkvæmt frv. og eiga formenn stjórnar Ríkisspítala, Sjúkrahúss Reykjavíkur, Sjúkrahúss Suðurnesja og St. Jósefsspítala, Hafnarfirði, sæti í ráðinu auk þriggja fulltrúa sem heilbr.- og trmrh. skipar án tilnefningar og skal einn þeirra vera formaður ráðsins. Breytingar felast í því að formenn stjórnar Sjúkrahúss Suðurnesja og St. Jósefsspítala, Hafnarfirði, bætast í ráðið en í stað formanna stjórnar Borgarspítala og St. Jósefsspítala, Landakoti, kemur formaður stjórnar Sjúkrahúss Reykjavíkur. Í stað formanna þriggja sjúkrahúsa áður koma þannig formenn fjögurra sjúkrahúsa. Hins vegar falla niður ákvæði um fulltrúa tilnefndan af stjórnarnefnd Ríkisspítala og fulltrúa tilnefndan af borgarstjórn Reykjavíkur. Þá skipar ráðherra þrjá fulltrúa, þar á meðal formann, án tilnefningar en samkvæmt núgildandi lögum kýs ráðið formann úr hópi fulltrúa sjúkrahúsanna.

Hlutverk ráðsins verður að gera tillögur um mótun framtíðarstefnu áðurnefndra sjúkrahúsa, flokkun þeirra og starfssvið, þróunar- og fjárfestingaráætlanir og samræmingu starfsmannastefnu og stuðla þannig að sem hagkvæmastri verkaskiptingu þeirra, m.a. annars með auknu samstarfi. Svæðisráð skal fylgjast með að gætt sé fyllstu hagkvæmni í rekstri sjúkrahúsanna og að þau starfi í samræmi við fjárveitingar og þær áætlanir sem gerðar hafa verið. Svæðisráðið skal taka við þeim verkefnum sem Heilbrigðismálaráð Reykjavíkurlæknishéraðs og Reykjaneslæknishéraðs hafa haft með höndum og snerta þessi sjúkrahús. Í samræmi við tillögur nefndar um aukna samvinnu sjúkrahúsanna í Reykjavík og á Reykjanesi er gert ráð fyrir að ráðherra geti falið ráðinu framkvæmd einstakra verkefna á sviði öldrunar og endurhæfingar. Þá geti ráðherra falið ráðinu rekstur þjónustukjarna sérfræðinga á einstökum lækningasviðum.

Þá er eins og áður er sagt gert ráð fyrir því í frv. að ráðinn verði framkvæmdastjóri ráðsins.

Ég vil geta þess hér sérstaklega vegna athugasemda fulltrúa Reykjavíkurborgar sem vörðuðu sérstaklega Sjúkrahús Reykjavíkur sem borgarstofnun að ég tel ég rétt að gera lítils háttar breytingar á frumvarpinu. Breytingarnar felast í því að niður falli orðin ,,samningar við starfsfólk`` í 9. línu, 1. gr. frumvarpsins. Nú er gert ráð fyrir að ráðið geri tillögur um samræmingu á starfsmannastefnu til ráðherra í stað þess að ráðherra geti falið ráðinu samræmingu á starfsmannastefnu. Þá vil ég undirstrika að séu verkefni flutt milli sjúkrahúsa verði gert ráð fyrir nauðsynlegum fjárveitingum.

Virðulegi forseti. Ég vil að lokum ítreka mikilvægi þess að það samstarf sjúkrahúsanna sem frv. gerir ráð fyrir komist á sem allra fyrst svo unnt verði að ná þeim sparnaði sem að er stefnt. Ég legg til að frv. með þeim breytingum sem ég lýsti hér í upphafi verði vísað til heilbr.- og trmn. að lokinni 1. umr.