Heilbrigðisþjónusta

Þriðjudaginn 04. júní 1996, kl. 16:42:52 (7226)

1996-06-04 16:42:52# 120. lþ. 160.13 fundur 524. mál: #A heilbrigðisþjónusta# (svæðisráð sjúkrahúsa) frv., GÁS
[prenta uppsett í dálka] 160. fundur

[16:42]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Það verður ekki hjá því komist að fara nokkrum orðum um undarlegan aðdraganda þessa máls. Þetta frv. til laga sem í fljótu bragði virðist ákaflega einfalt í sniðum kemur hér inn á þingið og er dreift í þingsölum um miðjan maímánuð og hefur eftir mikið japl, jaml og fuður loks verið tekið á dagskrá á síðasta degi þingsins. Og ekki nóg með það. Nú er líka upplýst af hæstv. ráðherra að áður en mælt er fyrir frv. eru komnar fram brtt. á því. Með öðrum orðum, hér í framsöguræðu hæstv. ráðherra er gerð grein fyrir því að hún leggi til brtt. á því frv. sem hún dreifði hér fyrir hálfum mánuði. Allt vorið og allur þessi langi meðgöngutími, sem gerði það að verkum að frv. kemur ekki hér í þingsali fyrr en um miðjan maímánuð eða nokkru eftir að þingi átti að vera lokið samkvæmt starfsáætlun þingsins, dugði sem sagt ekki til. Það er verið að gera breytingar á frv. og með vísan til ábendinga Reykjavíkurborgar sem ég kann ekki að skýra og hef hvorki séð eða heyrt neitt af þótt þær kunni að vera réttmætar.

Menn hljóta að gagnrýna mjög harðlega þennan aðdraganda málsins. Annað er ekki hægt. Því hlýt ég líka að halda því til haga hér strax í upphafi að ég geng út frá því sem vísu að þetta mál fari eftir 1. umr. til meðhöndlunar heilbr.- og trn. Menn hafa þá tímann fram á haust til að gaumgæfa það, leita umsagna og viðhorfa og gera það þannig úr garði að nefndinni eða meiri hluta hennar komi til með að hugnast það. Það kemur þá til endanlegrar afgreiðslu, ef af verður, á hausti komanda. Ég geng út frá því, virðulegi forseti, að það sé tilgangur þessarar 1. umr. að málsmeðferð verði með þeim hætti. Ég miða við það alveg sérstaklega og mun haga mínum orðum í samræmi við það. Ég bið þá um að verða leiðréttur strax að ræðu minni lokinni ef ég hef ekki skilið þetta rétt.

[16:45]

Ég sagði rétt áðan, virðulegi forseti, að þetta frv. lætur ekki mikið yfir sér. En hvað stendur í raun í því? Það stendur að hæstv. ráðherra ætli að skipa svæðisráð sem í verði formenn stjórna fjögurra sjúkrahúsa, tveggja í Reykjavík, eins í Hafnarfirði og þess fjórða í Reykjanesbæ. Þar til viðbótar skipi ráðherra sjálfur sína trúnaðarmenn, einn formann og tvo aðra. Hér er ekki eingöngu um það að ræða eins og kannski mátti skilja við fyrsta yfirlestur að þetta ráð verði eins konar samræmingaraðili, eins konar batterí sem reyni að laða fram aukið samstarf þessara stofnana á heildstæðan hátt. Nei. Í raun og sanni er þetta ráð sjálfstætt apparat þegar lesið er milli lína og þessar setningar eru skilgreindar. Hér segir, með leyfi forseta:

,,Ráðherra getur falið ráðinu framkvæmd einstakra verkefna á sviði öldrunar og endurhæfingar, samninga við starfsfólk og samræmingu starfsmannastefnu.``

Hvað þýðir þetta í raun? Þetta ráð á að vísu að hafa framkvæmdastjóra en hvaða möguleika hefur þetta samstarfsráð til að framkvæma einstök verkefni á sviði öldrunar og endurhæfingar? Hvaða húsnæði hefur þetta ráð til ráðstöfunar til þess að framkvæma slíka þjónustu og inna hana af hendi? Það kemur hvergi fram í frv. og þaðan af síður í athugasemdum með því. Erum við að búa hér til einhvers konar ígildi þjónustustofnunar til viðbótar við þær fjórar stofnanir sem ég hefi hér nefnt, Landspítalann, Sjúkrahús Reykjavíkur, St. Jósefsspítala og Suðurnesjasjúkrahúsið? Er verið að búa til eitt batteríið í viðbót eða einhvers konar yfirstjórn sem hafi framkvæmd öldrunarþjónustu með hendi? Er það hugsunin? Og hvernig á hún þá að verða framkvæmd ef þetta er rétt skilið?

Í annan stað er kveðið á um það að ráðherra geti falið ráðinu rekstur þjónustukjarna sérfræðinga á einstökum lækningasviðum. Hvernig ber að skilja þetta, virðulegi forseti? Þýðir þetta að ráðið eigi að búa til einhvers konar læknateymi og þessi læknateymi heyri beint undir þetta samstarfsráð og að það geti sent læknateymin eftir því sem því sýnist inn á einstök sjúkrahús í afmarkaðan tíma? Hvernig er þetta hugsað í framkvæmd? Hvað felur þessi hugsun sem frv. gerir ráð fyrir í raun í sér þegar að framkvæmdinni sjálfri kemur? Ég hlýt að kalla mjög ákveðið eftir því og hlýt að reikna með því að hæstv. ráðherra hafi fullnægjandi skýringar í þeim efnum, þ.e. hvernig á það að gerast að þetta ráð, skipað fjórum formönnum stjórna ólíkra stofnana og sjálfstæðra stofnana auk þriggja fulltrúa ráðherra, geti rekið þjónustukjarna sérfræðinga? Eru þessir þjónustukjarnar sérfræðinga með öðrum orðum í vinnu hjá þessu ráði? Eða eru þeir í vinnu einhvers staðar annars staðar hjá þeim hefðbundnu stofnunum sem þeir hafa starfað hjá? Hvar á þessi rekstur að vera til húsa? Á þetta að vera hlaupandi rekstur eða á að stofna sjálfstæða stofnun í þessu sambandi? Þetta er algjörlega óútskýrt og er auðvitað langtum mun meira en það sem látið er í veðri vaka í fyrstu setningu þessa frv. þar sem um er að ræða tiltölulega heildstæða mynd af svæðisráði sjúkrahúsa hér á þéttbýlasta svæði landsins sem hafi heildaryfirsýn með því sem er að gerast, geti komið með almennar ábendingar í stjórnir stofnana og gripið í taumana, komið með tillögur um skörun verkefna o.s.frv. En hér er um langtum mun meira að ræða þegar grannt er skoðað. Ég hlýt kalla eftir því.

Ég hlýt líka að spyrja hana beint: Hvaða áhrif hefur þessi breyting á stöðu og vald stjórna þessara sjúkrahúsa sem einnig er að finna í sömu lögum um heilbrigðisþjónustu? Er verið með öðrum orðum að þurrka þær út? Og þá spyr ég á nýjan leik: Hvað með vald heimamanna sem vegur þungt í stjórnum þessara sjúkrahúsa? Þeir skipa þar ef ég man rétt fjóra af sjö eða fleiri. Ég man ekki nákvæmlega töluna. Hver verður staða stjórna þessara sjúkrahúsa svo ég tali nú ekki um stjórnar Landspítalans, hinnar stóru stofnunar í þessu sambandi, til hliðar eða neðan eða ofan við þetta svæðisráð? Það kemur ekki fram í þessu frv.

Einnig hlýt ég að spyrja, ekki síst í ljósi þess að hæstv. ráðherra er 1. þm. Vesturl: Af hverju er ekki Sjúkrahúsið á Akranesi með í þessari upptalningu? Ef við skoðum þennan radíus, þéttbýlið sem við erum að tala hér um, þá liggur í augum uppi að jafnskynsamlegt er að taka Sjúkrahúsið á Akranesi inn í þessa heildarmynd eins og Sjúkrahúsið í Reykjanesbæ. Hvers vegna er það ekki gert? Og hvers vegna hefur Sjúkrahúsið á Akranesi verið útilokað í öllum undirbúningi málsins fram að þessu þegar kemur að þessari samhæfingu og samráði, betri nýtingu tækja, betri skipan mála? Kann skýringin að vera sú að enginn er spámaður í sínu föðurlandi og hæstv. ráðherra eigi erfitt með það á sínum heimaslóðum? Það mætti bæta Selfossi við, Sjúkrahúsinu á Suðurlandi. Hvers vegna er það ekki tekið inn í þetta dæmi?

Það er ljóst að hæstv. heilbrrh. hefur í raun og veru öll tök á því að ná fram þessu margumtalaða heildstæða, samhæfða samstarfi sem hún talar svo mikið um. Hún getur einfaldlega gert það í krafti síns valds og samkvæmt laganna hljóðan. Hún getur búið til svona samstarfsráð formanna fleiri eða færri stofnana og sjúkrahúsa úti á landsbyggðinni, margra eða fárra án þess að spyrja hið háa Alþingi þar um. Og hún getur náð þessari samhæfingu og heildstæðum tillögum frá slíku svæðisráði án þess að þurfa að koma hér á síðasta degi þingsins og reyna að knýja það í gegn. Það er augljóst mál að hér liggur eitthvað miklu meira að baki en það sem stendur í megintexta frv. Það vekur manni ugg og tortryggni.

Ég hef fylgst grannt með því, virðulegi forseti, hvernig kaupin hafa gerst á eyrinni í þessum sjálfstæðu sjúkrahúsum í Reykjaneskjördæmi alveg sérstaklega, St. Jósefsspítala annars vegar og Sjúkrahúsinu á Suðurnesjum hins vegar. Þar hefur valdi ráðuneytisins verið beitt alveg til hins ýtrasta. Þar hefur verið notuð heimild í lögum um skipan tilsjónarmanns. Heimamenn hafa út af fyrir sig engar sérstakar athugasemdir gert við hans þangaðkomu og þátttöku en það er alveg augljóst mál að tilgangurinn helgar þar meðalið. Þar er heimamönnum og stjórnum viðkomandi sjúkrahúsa sagt: ,,Ef þið dansið ekki með þá njótið þið ekki velþóknunar ráðuneytisins. Þá lendið þið fljótlega í vandræðum með peninga, því þá lokast fyrir streymið.`` Skilaboðin eru alveg skýr og klár í þessi héruð. Það eru blindir og heyrnarlausir menn sem skilja ekki hvað þarna er á ferðinni. Þarna er þumalskrúfunni beitt og sagt: ,,Ef þið takið ekki þátt að fullu og öllu í þeim hugmyndum og tilraunum sem hæstv. ráðherra hefur áform um, þá bara skrúfast fyrir fjárstreymið. Þá verður St. Jósefsspítali ekkert með í þessu lengur. Eða spítalinn á Suðurnesjum.`` Ég hef fylgst með því og með vaxandi undrun satt að segja hvernig annars hinn látlausi og ljúfi hæstv. ráðherra hefur farið fram í þessum efnum og beitt þumalskrúfunni, að vísu í gegnum þriðja mann, tilsjónarmann eða aðra fulltrúa síns ráðuneytis. En skilaboðin hafa verið þessi. Ég hef það á tilfinningunni að þetta frv. sé enn eitt skrefið í herferð hæstv. ráðherra.

Það hefur verið eftirtektarvert hversu það hefur verið rólegt yfir hæstv. heilbrrh. núna eftir jólin. Satt að segja höfum við hv. þm. varla séð hana nema í svip og þá yfirleitt kyrra og prúða. Það hafa held ég, ef ég man rétt, engin mál verið sérstaklega á hennar snærum hér á vorþingi fyrr en hér hrynur inn eftir 15. maí frv. sem hér um ræðir. Það kann að vera að eitt eða tvö smámál hafi runnið inn, en í stórum dráttum hefur ekki orðið vart neinnar stórmerkilegrar stefnumörkunar af hálfu nýs heilbrrh. horfandi til framtíðar. Ég veit ekki af hvaða orsökum það er enda kemur mér það lítið við hvort hún er hér mikið eða lítið eða uppi í sínu ráðuneyti. Það vekur hins vegar athygli að núna, eins og rétt fyrir jólin, birtist hún með frv. til laga um breytingar á stjórnskipan. Rétt fyrir jólin var hugmyndafræðin sú að það átti að skipta út öllum formönnum stjórna sjúkrahúsa og heilsugæslustofnana í einni svipan svo hæstv. gæti skipað nýja, væntanlega þá með réttum lit. Nú er farið öðruvísi í þetta mál og tekið þrengra svæði í einu og hæstv. ráðherra ætlar að koma eilítið öðruvísi að málinu en þá enda gekk sú atlaga ekki upp.

En lykilatriðið er, virðulegi forseti, að það er alveg nákvæmlega sama, hversu miklu er breytt og stokkað upp í stjórnkerfinu, hve mörgum nefndum og starfshópum er bætt við eða hve skipan þeirra mála er breytt ört því að þannig verða ekki til nýir peningar. Þannig að orð ráðherra áðan og fyrr í dag í utandagskrárumræðu þess efnis að þetta frv. til laga væri grundvöllur fleiri hundruð millj. kr. sparnaðar í rekstri heilbrigðisstofnana hér á Stór-Hafnarfjarðarsvæðinu verður auðvitað að skýra. Þetta frv. eitt og sér sparar ekki eina einustu krónu. Það eru engar vísbendingar um það. Það sparast engir peningar með því einu að búa til nefndir og ráð. Spurningin er þessi: Hvernig eiga þessar nefndir og ráð að vinna og hvað eiga þær að gera? Eftir hvaða forsögn eru þær skipaðar? Hæstv. ráðherra verður að segja okkur hvaða hugmyndir þar liggja að baki. Hvernig að þetta nýja svæðisráð á að vera það tæki sparnaðar sem hún vonast til þegar efnislegi þáttur málsins, bakgrunnur þessa alls er ekki til staðar? Þar er enn og aftur skilað auðu, því miður, virðulegi forseti. Maður hefur á tilfinningunni, ég verð að segja það eins og er, að auðvitað er þessi hugmyndafræði skrifuð allt annars staðar. Hún er skrifuð allt annars staðar og mig rennir í grun hvaðan þessi hugmyndafræði er. Hún á sér rætur ekki langt frá skrifstofu ráðherra en þetta er ekki nýtt af nálinni. Menn hafa séð hugmyndir af þessum toga áður þar sem stóra sjúkrahúsið, Landspítalinn, á að vera eins konar regnhlíf yfir öllu, a.m.k. suðvesturhorninu og helst landinu öllu. Hér eru menn að stíga það skref. En það á auðvitað að viðurkenna þá stefnumörkun. Það getur vel verið að hún sé ekki algalin eða alvitlaus og ýmis jákvæð sjónarmið eru henni meðfylgjandi. En menn eiga að segja hlutina eins og þeir eru og fara í opna almenna umræðu um þá stefnumörkun og vera ekki með svona, ég veit ekki hvað skal segja, einhvers konar kropp eða mjög vafasamar tilraunir til þess að breyta að mjög litlu leyti stjórnskipan hér á mjög þröngu svæði.

Ég ætla ekki að orðlengja þetta. Um málið mætti ræða mjög ítarlega og það þarf auðvitað að gera. Ég áskil mér rétt til þess að gera það hér síðar í umræðunni og síðar í þessari 1. umr. og væntanlega þá næsta haust þegar málið kemur breytt hingað inn í þingið aftur. En meginmálið er að verklagið og vinnubrögðin eru ekki sæmandi og ekki bjóðandi hinu háa Alþingi, að ræða mál af þessum toga á örfáum mínútum á síðasta degi þingsins. Það er kjarni málsins hvað hina formlegu hlið varðar og breytir engu. Og það er algjörlega fráleitt og mótsögn að hæstv. ráðherra skuli halda því fram í þessum ræðustóli að stjórnarandstæðingar, einhverjir vondir þingmenn, séu að reyna að bregða fæti fyrir hana í hinni stórkostlegu sókn hennar til breytinga á íslensku heilbrigðiskerfi. Hún dettur hingað inn með frv. 17. maí sl., þá dettur hér inn frv. upp á eina og hálfa blaðsíðu með athugasemdum. Það var afrakstur vorsins. Og að það sé bara allt hv. þm. Sighvati Björgvinssyni kannski að kenna eða hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur? Nei, svona er ekki hægt að hafa það, virðulegi forseti.