Heilbrigðisþjónusta

Þriðjudaginn 04. júní 1996, kl. 17:07:57 (7230)

1996-06-04 17:07:57# 120. lþ. 160.13 fundur 524. mál: #A heilbrigðisþjónusta# (svæðisráð sjúkrahúsa) frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 160. fundur

[17:07]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit satt að segja ekki hvort nokkur ástæða sé til þess að við séum að lengja orðaskipti okkar hæstv. ráðherra. Þetta verður rætt í heild í heilbrrn. í allt sumar og fram á haust. Menn hafa þar nægan tíma til þess að fara ofan í þessi mál. En ég vildi bara leiðrétta það af því að ég sagði áðan að meðal þeirra aðila sem komu að þessu nefndarstarfi, meðal þessara hundrað frestunaraðila, eru þeir ófáir á tveimur sjúkrahúsum sem ég þekki best til, á Suðurnesjum og St. Jósefsspítala í Hafnarfirði sem hafa verulegar efasemdir einmitt við þessa stefnumörkun sem hér er að finna. Enn og aftur hlýt ég auðvitað að kalla eftir því, virðulegi forseti, því að þetta frv. segir ekki neitt. Ég kallaði eftir því hvað er að baki. Á þetta svæði að vera rekstraraðili? Á það eins og hér segir að framkvæma einstök verkefni á sviði öldrunar og endurhæfingar? Á það að semja við starfsfólk um samræmingu starfsmanna, um samræmingu starfsmannastefnu? Hvað með stjórnirnar? Verða þær handarhöggnar? Hver verður staða þeirra eftir það? Og einnig hitt: Hæstv. ráðherra kom ekkert inn á það hvort þetta svæðisráð á að hafa rekstur með höndum, þ.e. það verði eins konar sérfræðingateymi sem fari út um víðan völl og styttir væntanlega biðlistann. Ég held að það sé ein hugmyndafræðin og það er allt gott um það að segja en það verður auðvitað að útlista þetta. Frv., í einni grein eða tveimur greinum upp á 20 blaðsíður, svarar þessu ekki neitt og því miður athugasemdirnar ekki heldur upp á eina síðu þannig að þessi lykill að framtíðinni er ekki á minni kippu og þá verður að útskýra miklu betur fyrir mér hvernig ég get látið lykilinn sem ég er með í vasanum ganga að þessum dyrum sparnaðar og bættrar þjónustu í heilbrigðiskerfi á Stór-Hafnarfjarðarsvæðinu. Það verður ráðherra að gera miklum mun betur.