Heilbrigðisþjónusta

Þriðjudaginn 04. júní 1996, kl. 17:56:20 (7235)

1996-06-04 17:56:20# 120. lþ. 160.13 fundur 524. mál: #A heilbrigðisþjónusta# (svæðisráð sjúkrahúsa) frv., heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 160. fundur

[17:56]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Af því að það hefur ekki komið fram í þessari umræðu, þá er það rétt að það komi fram núna að það eru í núgildandi lögum ákvæði um samstarfsráð sjúkrahúsanna sem er nauðsynlegt að breyta þó ekki væri nema vegna þess að það er búið að sameina Landakot og Borgarspítalann í eitt sjúkrahús. En það þarf líka að breyta lögunum vegna þess að núgildandi ákvæði gera það að verkum að það er of lint og þetta svæðisráð þarf meiri völd til að geta komið hlutum í framkvæmd. Það sem er gert með þessu frv. er að gefa þessu meira vægi sem skiptir mjög miklu máli sérstaklega vegna fyrirspurnar sem hefur komið fram nokkrum sinnum um það af hverju við erum að sameina öldrun og endurhæfingu sérstaklega.

Faglega blasir það við að það er miklu, miklu skynsamlegra að hafa þessa þætti á einum stað en dreifa þeim á marga staði. Það er líka þannig að á sjúkrahúsunum öllum eru nokkrir þessara sjúklinga í bráðarúmum sem eru miklu dýrari en öldrunarrúm eða endurhæfingarrúm þannig að ef maður skoðar það sérstaklega þá sparar það mikla peninga að koma því heim og saman.

Við höfum oft rætt um það á hinu háa Alþingi að okkur finnst lokun deilda og hækkun þjónustugjalda vera eitthvað sem við sættum okkur ekki við. Hér er verið að koma með tillögur sem draga úr því að það þurfi að hækka þjónustugjöld eða loka deildum. Það er verið að samræma hlutina betur og þess vegna trúi ég ekki öðru en þingmenn horfi á það réttum augum og ætla ekki að tefja það mál meira en þörf er á vegna þess að þetta eru staðreyndir sem blasa við.

Hv. þm. spurði líka að því hvort þarna væri verið að tala um einkavæðingu þegar verið væri að tala um t.d. teymi sérfræðinga. Það er af og frá. Það er einfaldlega verið að tala um það að læknum sem fara á milli sé greitt á einum stað. Í dag er það þannig að þeir vinna kannski á þrem stöðum, jafnvel fjórum stöðum og fá greidd laun alls staðar að sjálfsögðu vegna þess að þetta er sín stofnunin hver. Það væri mjög mikilvægt ef það væri hægt að greiða þessum læknum laun á einum stað en þeir væru færanlegir með sína sérfræðiþjónustu vegna þess að greiðandinn er einn og hinn sami, það er ríkið sem greiðir þetta allt saman. Við erum sem sagt með þessu frv. að ná utan um hlutina miklu betur en við náum utan um þá nú.