Heilbrigðisþjónusta

Þriðjudaginn 04. júní 1996, kl. 17:59:47 (7236)

1996-06-04 17:59:47# 120. lþ. 160.13 fundur 524. mál: #A heilbrigðisþjónusta# (svæðisráð sjúkrahúsa) frv., ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 160. fundur

[17:59]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég dró alls ekki í efa að það væri einhver hagræðing fólgin í frv. heldur varpaði spurningum fram um hluti sem mér fundust óljósir. Ég efast ekkert um að það sé hægt að vera með ákveðna hagræðingu í þessum málum.

Það var heldur ekki dregið í efa að það þyrfti að gera breytingar á heilbrigðisþjónustunni. Ég tel að það þyrfti að gera ýmsar breytingar á henni og auðvitað verður maður að vera opinn fyrir því að horfa á nýjar leiðir í helbrigðisþjónustu. Ég tek alveg undir það hjá hæstv. ráðherra.

Ég þakka fyrir skýringar ráðherrans á þessu með rekstur þjónustukjarna sérfræðinga á einstökum lækningasviðum en ég áttaði mig ekki alveg á hvað fólst í þeim orðum. Og ég tek undir það að ég tel það kost að læknar sem fara á milli vinnustaða fái greitt á einum stað. Ég tel það skref í rétta átt. Hæstv. ráðherra má því ekki skilja orð mín þannig að ég sé andvíg þessu máli. Ég tel aftur á móti að það séu mörg atriði sem þarf að skoða. Ég tel rétt að fulltrúar sem hafa óskað eftir því að koma að þessu máli komi sínum sjónarmiðum á framfæri og e.t.v. þyrfti að vinna þetta betur. Þess vegna talaði ég um að ég teldi réttast að málið biði haustsins og heilbr.- og trn. notaði sumarið til þess að vinna frekar í málinu, fá viðhorf þessara einstaklinga og stofnana og síðan gætum við tekið málið aftur upp í haust ef svo býður við að horfa.