Heilbrigðisþjónusta

Þriðjudaginn 04. júní 1996, kl. 18:43:38 (7243)

1996-06-04 18:43:38# 120. lþ. 160.13 fundur 524. mál: #A heilbrigðisþjónusta# (svæðisráð sjúkrahúsa) frv., heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 160. fundur

[18:43]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér heyrist að við séum nú meira sammála en ósammála, ég og hv. síðasti ræðumaður. Við erum þó ekki sammála um að málefni dagsins í dag og málefni dagsins á morgun séu tvö aðsklin mál vegna þess að einhvers staðar verður að byrja. Og þegar menn tala um að það vanti heildarsýn í heilbrigðismálum, þá er ég sammála því.

Hér erum við að sjá heildarsýn varðandi málefni sjúkrahúsanna í Reykjavík og á Reykjanesi og ég endurtek, sem velta um 11--12 milljörðum á ári. Það skiptir máli. Við erum þessa dagana að fá tillögur um skipan mála í héruðum. Þetta rímar við það nákvæmlega, eins og ég sagði áðan, þannig að núna fyrst erum við að fá þessa heildarsýn og þá hljóta menn að vera tilbúnir að vinna að því sameiginlega. Ég trúi ekki öðru. Og af því að menn tala um að þetta komi seint og það sé útilokað að afgreiða þetta fyrir þinglok o.s.frv., þá minni ég á að það voru tekin svo stór skref í Kaupmannahöfn fyrir ekki alllöngu síðan að á einni nóttu voru öll sjúkrahúsin á Kaupmannahafnarsvæðinu sameinuð. Við erum þó ekki að tala um sameiningu sjúkrahúsa hér. Við erum aðeins að tala um aukna samvinnu.