Heilbrigðisþjónusta

Þriðjudaginn 04. júní 1996, kl. 19:09:45 (7247)

1996-06-04 19:09:45# 120. lþ. 160.13 fundur 524. mál: #A heilbrigðisþjónusta# (svæðisráð sjúkrahúsa) frv., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 160. fundur

[19:09]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Um leið og ég taldi upp tillögurnar gat ég þess hver á að framkvæma þær. Til þess að hægt sé að framkvæma þessar 22 tillögur vantar ekki svæðisráð sjúkrahúsa. Það er í flestum tilvikum hæstv. heilbrrh. sjálfur sem hefur frumkvæði um framkvæmdina, í mörgum tilvikum Alþingi sem þarf að samþykkja þær tillögur.

Það held ég að sé ekki til bóta í því efni að skipa svæðisráð sjúkrahúsa með svipuðu verksviði og samstarfsnefnd sjúkrahúsanna hafði áður vegna þess að áfram eru til staðar stjórnir hvers sjúkrahúss fyrir sig sem samkvæmt heilbrigðisþjónustulögunum bera rekstrarlega ábyrgð. Því hefur ekki verið breytt. Ég óttast mjög að svæðisráð sjúkrahúsanna verði fyrir sömu örlögum og samstarfsnefndin sem átti að vinna sama verkefni. Þar gerðist lítið annað en að forsvarsmenn Borgarspítalans deildu við forsvarsmenn Landspítalans og öfugt. Allar vonir sem menn höfðu um góðar og gagnlegar niðurstöður af starfi samstarfsnefndar sjúkrahúsanna í Reykjavík brugðust því miður vegna þess að það voru aðrir sem höfðu hina rekstrarlegu ábyrgð. Það sama er ég hræddur um að geti gerst hér. Svæðisráð sjúkrahúsanna hefur ekki hina rekstrarlegu ábyrgð á rekstri sjúkrahúsanna samkvæmt heilbrigðisþjónustulögum heldur er hún áfram hjá stjórnum þessara stofnana. Ég er því ansi hræddur um að svæðisráðið verði ekki sá framkvæmdaaðili sem hæstv. ráðherra er að vonast eftir. Ef hæstv. ráðherra vill fá slíkan samræmingaraðila á hún að sjálfsögðu að flytja tillögu hér á Alþingi um þær breytingar að ein og sama stjórn verði sett yfir Sjúkrahús Reykjavíkur og Landspítalann og aðra þá spítala sem hún vill sameina undir einni raunverulegri sameiginlegri yfirstjórn. Það á hún að gera en ekki að flytja tillöguna eins og hún liggur hér fyrir.