Umræður um dagskrármál

Þriðjudaginn 04. júní 1996, kl. 20:36:47 (7250)

1996-06-04 20:36:47# 120. lþ. 160.98 fundur 355#B umræður um dagskrármál# (um fundarstjórn), SighB
[prenta uppsett í dálka] 160. fundur

[20:36]

Sighvatur Björgvinsson (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Þegar fundinum var frestað kl. tíu mínútur yfir sjö þá var tilkynnt að umræðum yrði haldið áfram að loknu matarhléi. Við þingmenn vissum ekki annað en að hér mundi hefjast á ný umræða um frv. hæstv. ráðherra um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu. Ég er alveg sannfærður um að hæstv. ráðherra átti ekki á öðru von því hæstv. ráðherra var mættur hér í salinn kl. hálfníu þegar þingfundur hófst áreiðanlega vegna þess að hæstv. ráðherra var við því búin að umræðurnar mundu halda áfram og vildi því vera hér við til að geta hlusta á umræður og svarað spurningum ef ástæða væri til. Þannig að það eru ekki bara þingmenn sem hafa ekki haft hugmynd um þessa breytingu heldur hefur hæstv. heilbrrh. ekki verið tjáð að þessi breyting stæði til. En það virðist vera að hæstv. sjútvrh. hafi verið sagt frá því. Hann er hér mættur.

Virðulegi forseti. Ef við hefðum vitað af þessari breytingu þá hefði okkur gefist tími til að undirbúa okkur undir það að nýtt mál kæmi hér dagskrá. En það höfum við ekki getað gert þannig að við erum ekki undirbúin að hefja umræðu um nýtt mál. Ég vildi því nú gjarnan óska eftir því að hæstv. forseti gæfi nú örstutt hlé til þess að ræða við þingflokksformenn og reyna að ná samstöðu um það hvernig þinghaldinu verður hagað í kvöld svo menn geti komið undirbúnir ef til stendur að skipta um mál á dagskránni. Ég fer þess eindregið á leit við hæstv. forseta að hann geri stutt hlé og reyni að ná samkomulagi við þingflokksformenn um það hvaða mál verði nú tekið fyrir, hversu lengi það verði rætt, hvaða mál verði síðan tekið fyrir að því búnu og hvaða málum verði e.t.v. reynt að ljúka á þessum kvöldfundi þannig að þingmenn og ráðherrar þurfi ekki að sitja óviðbúnir eins og dæmin sanna að hefur verið hér í kvöld.