Umræður um dagskrármál

Þriðjudaginn 04. júní 1996, kl. 20:44:00 (7254)

1996-06-04 20:44:00# 120. lþ. 160.98 fundur 355#B umræður um dagskrármál# (um fundarstjórn), MF
[prenta uppsett í dálka] 160. fundur

[20:44]

Margrét Frímannsdóttir (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það hefur komið fram í máli forseta að þetta mál, heilbrigðismálin, 13. mál á dagskrá, taki langan tíma og þess vegna sé rétt að skipta út og taka nú umræðu um frv. um úthafsveiðar. Ég vildi því gjarnan fá að vita hjá virðulegum forseta hvort búið sé að semja um það sérstaklega að það taki styttri tíma en umræðan um heilbrigðismálin. Þvert á móti hefði ég haldið að verði hér myndarleg, löng og málefnaleg umræða um heilbrigðismálin þá verði umræðan um frv. um úthafsveiðar ekki síður myndarleg, löng og ítarleg en umfram allt málefnaleg. Ég á von á því. Það voru aðeins þrír stjórnarandstæðingar á mælendaskrá í frv. hæstv. heilbrrh. um heilbrigðismálin og við höfum nú 20 mín. í hámarksræðutíma við 1. umr. þannig að ætla mætti að þeirri umræðu hefði lokið svona eftir u.þ.b. klukkutíma. Ekkert hefur komið fram að annað verði. Í ljósi þess að hæstv. ráðherra sagði að m.a. andóf stjórnarandstöðunnar gegn því að þetta mál kæmi hér á dagskrá yrði jafnvel til þess að auka fjárhagsvanda sjúkrahúsanna í landinu þá tel ég einsýnt að við höldum áfram með þessa umræðu og ljúkum henni sem allra fyrst þannig að því verði alla vega ekki um kennt að stjórnarandstaðan, eins og þetta var nú reyndar óréttlát ásökun, auki á fjárhagsvanda heilbrigðiskerfisins með hverri mínútunni sem líður. Það stendur ekki á okkur að ræða þetta mál og ná góðri og málefnalegri niðurstöðu. Síðan þarf málið að fara til nefndar og koma væntanlega aftur til umræðu og þá verður hún að sjálfsögðu álíka löng og málefnaleg. Ég á hins vegar von á því að umræðan um úthafsveiðar verði síst styttri en þessi umræða.