Fiskveiðar utan lögsögu Íslands

Þriðjudaginn 04. júní 1996, kl. 20:52:20 (7260)

1996-06-04 20:52:20# 120. lþ. 160.14 fundur 519. mál: #A fiskveiðar utan lögsögu Íslands# frv. 88/1996, Frsm. meiri hluta ÁRÁ
[prenta uppsett í dálka] 160. fundur

[20:52]

Árni R. Árnason:

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. og brtt. meiri hluta sjútv. Nál. hefur legið frammi á þskj. 1078 og brtt. á þskj. 1079.

Málið sem við köllum frv. til laga um úthafsveiðar hefur legið fyrir nefndinni og verið um það fjallað eins og frá er greint í nál. með viðræðum við ýmsa aðila sem þar eru tilgreindir og þeim umsögnum sem fengust.

Það kemur fram í greinargerð með frv. að það er flutt vegna aðildar okkar og væntanlega staðfestingar á úthafsveiðisamningnum svonefnda og er byggt á starfi nefndar sem hefur starfað á vegum sjútvrh. allt frá árinu 1993. Eftir að þessi greinargerð var samin er ljóst að við höfum síðar gerst aðilar að samkomulagi við nokkur grannríki okkar um veiðar á a.m.k. tveimur mikilvægum stofnum sem þessi lög munu taka til auk þátttöku okkar í veiðum á Flæmska hattinum þar sem við erum nokkurn veginn skuldbundnir til að fara eftir samþykktum í Norður-Atlantshafsfiskveiðistofnuninni sem svo heitir, NAFO, þó við höfum ekki lýst yfir að við værum þeim sammála. Mótmæli okkar hafa ekki breytt því að við hljótum að hlíta þeim á meðan þær teljast í gildi.

Meiri hlutinn gerir tilteknar brtt. sem koma fram á þskj. 1079 og er gerð grein fyrir þeim á þskj. 1078. Það eru í fyrsta og öðru lagi tvær tillögur um breytt orðalag. Fyrra atriðið skýrir sig nánast sjálft en annað atriðið fjallar um niðurlagsákvæði 2. mgr. í 4. gr. Að mati okkar í meiri hluta nefndarinnar er þar um að ræða skýrari útfærslu á ákvæðinu en kom fram í frv. eins og gerð er grein fyrir í nál. þar sem vísað er til þeirra laga sem við er átt. Um er að ræða að þeir aðilar sem sækja um slík veiðileyfi þurfi að fullnægja skilyrðum þeirra laga en ekki endilega að hafa hlotið leyfi samkvæmt þeim til veiða innan lögsögunnar. En þeir þurfa að fullnægja slíkum skilyrðum að öðru leyti.

Í þriðja lagi er brtt. við 5. gr. þar sem við leggjum til í fyrsta lagi að komi inn hugtakið ,,íslenskir deilistofnar`` sem gæti orðið til þæginda í umræðu og í lögum um þá deilistofna sem ganga inn og út úr íslensku lögsögunni og við teljum okkur hafa með vissum hætti lögsögu yfir og þessi lög munu taka til. En í liðum b og c gerum við þá tillögu að heimild til skerðingar á veiðum innan lögsögunnar vegna úthlutunarheimilda samkvæmt 5. gr. verði ekki eins há og gert var ráð fyrir í frumvarpinu og síðan að heimild til sérstakrar úthlutunar til þeirra sem hófu veiðarnar, sem nefnt hefur verið frumkvöðlaákvæði, verði hærri en frumvarpið gerði ráð fyrir.

Við gerum einnig brtt. við 6. gr. sem er sambærileg þeirri skerðingarheimild sem ég ræddi um áðan, að í stað 10% hámarks verði hámarkið 7%.

Síðan gerum við tillögur um nýjar málsgreinar í 8. gr. þar sem fram koma breyttar tillögur um ákvörðun veiðieftirlitsgjalds og er ætlunin með þeim tillögum að auðveldara verði að sjá fyrir að hverju stefnir um gjaldið fyrir þau skip sem við það verða að búa. Væntanlega hefur þar tekist að byggja á upplýsingum sem fram komu fyrir nefndina um raunkostnað eða reynslu af kostnaði við slíkt eftirlit.

Virðulegi forseti. Ég hef með þessum orðum gert grein fyrir brtt. meiri hluta nefndarinnar og áliti hans. Tveir hv. nefndarmanna sem skrifa undir álitið gera það með fyrirvara. Formaður nefndarinnar, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, setur fyrirvara sem lýtur að því að æskilegt hefði verið að hans mati að hafa lengri tíma til ráðstöfunar til umfjöllunar um frv. eða málið auk fyrirvara um einstaka efnisþætti málsins sem hann væntanlega fær tækifæri til að gera grein fyrir síðar í umræðunni. Auk þess setur hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson fyrirvara sem lýtur að athugasemdum sem fram koma í sameiginlegri umsögn Farmanna- og fiskimannasambands Íslands og Sjómannasambandsins varðandi það að heimildirnar verði framseljanlegar.

Virðulegi forseti. Ég hef þá gert grein fyrir nál. og fyrirvörum þeirra hv. þm. sem undir það rita.