Afgreiðsla mála fyrir þinghlé og framgangur þingmannamála

Miðvikudaginn 05. júní 1996, kl. 10:04:35 (7269)

1996-06-05 10:04:35# 120. lþ. 161.93 fundur 345#B afgreiðsla mála fyrir þinghlé og framgangur þingmannamála# (aths. um störf þingsins), GE (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 161. fundur

[10:04]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Ég get ekki annað en kvatt mér hljóðs um störf þingsins þar sem málefni sem ég lagði fram, frv. til laga, 459. mál, hefur ekki verið rætt. Ég verð að lýsa mikilli óánægju með það að mál sem er af þeim toga sem ég tel það vera --- reyndar er það þannig að hverjum finnst sinn fugl fagur þó öðrum kannski þyki hann rýr og magur --- en ég er sannfærður um að þetta mál er af þeim toga að það varðar meira hag almennings en flest annað það sem hefur verið afgreitt og rætt á þingi í vetur. Ég vil lýsa því yfir og láta vita af því að það eru meira en tíu vikur síðan málið var lagt fram á Alþingi. Það var fyrir páska þó að málið kæmi ekki á borð þingmanna fyrr en eftir 1. apríl. Málið var nokkra stund í þinginu vegna þess að það þurfti að þýða nokkur gögn sem fylgdu með.

Ég segi að málið varðar meira hagsbætur til almennings en flest mál sem hér hafa verið afgreidd og ég tala nú ekki um skerðingarfrumvörpin sem hafa verið kýld í gegn á síðustu dögum þingsins og hafa þveröfug áhrif á hag almennings á við það mál sem ég er að tala fyrir.

Ég nefni það að 65 mál hafa komið fram a.m.k. síðan þetta mál var lagt fram og flest þeirra frá ríkisstjórn og flest þeirra eru komin í gegn. Ég mótmæli, herra forseti, að svona skuli að farið. Þetta mál hefur einu sinni komist á dagskrá. Þá var það það aftarlega á dagskrá að nánast var möguleikalaust að fá það rætt. Ég veit að fjölmargir þingmenn höfðu undirbúið sig undir þá umræðu og ætluðu að taka þátt í henni og hafa skoðun á málinu og ég veit ekki um einn einasta þingmann sem hefði lagst gegn megininntaki málsins, þ.e. 80 þús. kr. lágmarkslaun.

Ég mótmæli, forseti, þessum vinnubrögðum. Ég vil láta vita af því að það er ekkert í þeirri skýrsla sem var að koma út og mikið hefur verið umrædd í dag sem ekki er í því plaggi sem ég held á í hendinni og er frv. til laga. Og það er ekkert í henni sem ekki hefði verið hægt að ræða hér fyrir a.m.k. einum og hálfum mánuði síðan.