Afgreiðsla mála fyrir þinghlé og framgangur þingmannamála

Miðvikudaginn 05. júní 1996, kl. 10:25:05 (7280)

1996-06-05 10:25:05# 120. lþ. 161.93 fundur 345#B afgreiðsla mála fyrir þinghlé og framgangur þingmannamála# (aths. um störf þingsins), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 161. fundur

[10:25]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Mér finnst að þetta þing sýni það eins og kannski svo mörg önnur að þetta er fyrst og fremst framkvæmdarvaldsþing orðið. Og þetta þing hér eins og svo mörg önnur er fyrst og fremst afgreiðslustofnun fyrir frumvörp ríkisstjórnarinnar. Frumvörp þingmanna mega sitja á hakanum og mæta afgangi og næsta einhlítt að niðurstaðan er að málunum er vísað til ríkisstjórnarinnar í staðinn fyrir að þing taki afstöðu til mála eins og þing á að gera. Mér finnst að þingið þurfi að fara að athuga sinn gang vegna þess að það setur niður við slík vinnubrögð og mér finnst að það þurfi að fara að endurskoða það hvernig við breytum þessum framkvæmdarvaldsþingi í löggjafarsamkomu.

Ég stóð upp til þess að minna á frv. sem ég hef lagt mikla áherslu á að kæmi á dagskrá. Það er frv. til breytingar á stjórnarskipunarlögum og fjallar um aukinn rétt fólks til þjóðaratkvæðagreiðslu. Það var lagt fram fyrir mörgum vikum síðan og ég taldi mig hafa samkomulag við forseta um að málið fengi að komast á dagskrá og til umræðu. Frv. var á dagskrá í gær og í fyrradag en fékkst þá ekki rætt. Nú sé ég á dagskránni að það frv. er ekki á dagskrá þessa þings í dag og ég vil spyrja hæstv. forseta hverju sætir.