Munur á launum og lífskjörum á Íslandi og í Danmörku

Miðvikudaginn 05. júní 1996, kl. 11:33:07 (7291)

1996-06-05 11:33:07# 120. lþ. 161.3 fundur 369. mál: #A munur á launum og lífskjörum á Íslandi og í Danmörku# beiðni um skýrslu frá forsrh., GE
[prenta uppsett í dálka] 161. fundur

[11:33]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Sannarlega hefur verið ræddur samanburður á lífskjörum á Íslandi og í öðrum löndum. Þingmenn hafa flutt þingsályktanir, lagt fram fyrirspurnir, beðið um nefndarskipan o.fl. Það hafa birst greinar eftir þingmenn og umræður hafa verið í útvarpi og sjónvarpi um samanburðinn um stöðu heimilanna, um gjaldþrot heimilanna og skuldir eftir efnahagskreppu síðustu ára.

Það ber auðvitað að þakka þá skýrslu sem hér er til umræðu. Í henni eru góðar, aðgengilegar upplýsingar sem hljóta að verða notaðar sem grunnur að því að bæta kjör þeirra sem verða að njóta félagslegra bóta til að geta lifað af lágmarkslaunum og a.m.k. 6--8 launaflokkar þar til viðbótar. Sú staðreynd kemur fram að Íslendingar vinna meira en flestar aðrar þjóðir og landsframleiðslan á vinnustund hérlendis er langt undir meðaltali OECD-ríkjanna. Samt er það svo að landsframleiðsla á mann árið 1994 var 3,4% meiri hér á landi að meðaltali en í OECD-löndunum og 7,6% meiri en í ESB-löndunum.

Í frv. sem ég gerði að umræðuefni í upphafi þingstarfa í morgun er að finna sambærilegar upplýsingar og koma fram í skýrslu hæstv. forsrh. Með frv. þessu sem ég gerði að umræðuefni fylgja nefnilega tvær skýrslur sem eru unnar af hagfræðingnum Eddu Rós Karlsdóttur og er það henni sérstaklega til hróss að samanburður Þjóðhagsstofnunar staðfestir allt sem hún hafði gert rannsókn á í haust og vetur. Staðreyndin er að aðstæður fólksins í landinu hafa leitt til fólksflótta. Íslendingum fjölgaði 50% meira í Danmörku en á Íslandi árið 1995. Það fóru 1.060 manns héðan til Danmerkur árið 1994. Íslendingum fjölgaði um 30% í Noregi og 60% á Grænlandi og það eru 20.800 Íslendingar búsettir erlendis. Með því að fara yfir þessa skýrslu kemst ég að því að þær skýringar sem helstar eru nefndar í sambandi við lág laun á Íslandi er lág framleiðni. Það er talað um einfalt atvinnulíf og það er talað um skort á fullvinnslu, smæð fyrirtækja og markaða og síðan er talað um háan flutningskostnað. Ég held að þetta þurfi að skoða mikið nánar. Það þarf að taka á mörgum atriðum sem þarf að bæta úr og það strax.

Sá sem skoðar þessa skýrslu kemst að því að það virðist vera þannig að margir Íslendingar hræðist að við munum feta í fótspor annarra Norðurlandaþjóða hvað varðar háar atvinnuleysisbætur sem munu þá letja fólk almennt til vinnu. En hann hefði tekið eftir því að hitt heyrist sjaldnar að Íslendingar hafi áhyggjur af því að láglaunastefnan letji íslensk fyrirtæki til framsækni. Þetta er það sem ég kemst að með því að skoða þær skýrslur sem hagfræðingurinn Edda Rós Karlsdóttir vann fyrir Verkamannasambandið og Félag verslunarmanna í Reykjavík.

Ég vil að lokum segja, herra forseti, að það er almennt viðurkennd skoðun að það séu tengsl á milli skattkerfis og launastigs þjóða. Það má auðvitað spyrja hver borgi launin. Fyrirtækin eða ríkið? Það má nefnilega færa að því rök að í samanburði við Danmörku sé íslenska ríkið að niðurgreiða stóran hluta launanna. Ég tel mig færan til þess að leiða fram rök að því. En þar sem tíma mínum er lokið, herra forseti, vil ég aðeins ljúka máli mínu með því að taka undir orð hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur varðandi frumvörp sem hún ræddi um um atvinnuúrbætur, varðandi aðgerðir til handa fjölskyldunni. Þau mál verða að koma til afgreiðslu á næsta þingi, herra forseti.